Söngvarinn og leikarinn Björn Jörundur Friðbjörnsson er gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpsþættinum Einmitt. Björn stendur í stórræðum þessa daganna því árlegir stórtónleikar með NýDönsk verða í Hörpu um miðjan september og um mánaðamótin er kvikmyndin Ljósvíkingar væntanlega í kvikmyndahús þar sem Björn fer á kostum að mati þeirra sem séð hafa myndina.
Einar og Björn ræða vitanlega um tónlistina en NýDönsk er með afkastamestu og langlífustu hljómsveitum íslenskrar poppsögu. Framundan eru árlegir stórtónleikar í Hörpu, en þeir tónleikar hafa verið árlegur viðburður frá opnun Hörpu árið 2012. Talið berst að markaðssetningu hljómsveitarinnar sem Einar hrósar sveitinni fyrir.
„Við leggjum metnað í það að framleiða nýtt efni fyrir hvert ár. Þetta má ekki vera eins og það sé verið opna inn á eitthvað vaxmyndasafn,“ segir Björn og hlær.
„Við höfum bæði boðið gestum okkur upp á tónleika með bestu lögunum okkar og verstu lögunum okkar. Þá vildum við prófa eitthvað alveg öfugt við það sem við höfum gert áður, völdum minnsta salinn í Hörpu, erfiðasta tónleikatímann sem var í hádeginu á sunnudegi og spiluðum minnst þekktu lögin okkar og það var frábært, uppselt og allir sungu með.“
Í kvikmyndinni Ljósvíkingum leikur Björn Jörundur athafnamanninn Hjalta, mann á miðjum aldri í smábæ úti á landi. Hjalti stýrir byggðasafninu í bænum og rekur meðfram því vinsælan veitingastað. Veitingastaðinn rekur hann með æskuvini sínum Birni, sem leikinn er af Örnu Magneu Danks. Á sama tíma og þeir fá tækifæri til að hafa veitingastaðinn opinn árið um kring, kemur Björn út úr skápnum sem trans kona. Þessi breyting setur tilveru Hjalta í uppnám og myndin fjallar um viðbrögð Hjalta og samfélagsins alls við þessum breytingum í lífi besta vinar hans.
„Hjalti er við allir. Allir karlar á miðjum aldri með alla sína fordóma og sína vanþekkingu,”, segir Björn þegar talið berst að hlutverkinu og hvernig hann nálgaðist það.
„Hann er alls ekki neikvæður eða með viljandi fordóma, hann er bara með þá. Hann rekst á það að hann er með fordóma og þarf að halda þeim niðri. Hann skortir víðsýni og hann er hræddur við breytingar.”
Þrátt fyrir að aðstæðurnar sem Hjalti horfist í augu við séu ekki nýjar undir sólinni þá eru þær nýjar fyrir Hjalta og samfélagið sem hann er hluti af. Ljósvíkingar segir þessa sögu á svo fallegan og einlægan hátt. Svo er myndin líka bráðfyndin.
Björn talar líka um samstarfið við Örnu Magneu Danks leikkonu sem leikur Björn besta vin Hjalta sem verður Birna þegar hún kemur út úr skápnum sem kona.
„Það er ekkert smáræði sem hún gengur í gegnum,” segir Björn um viðfangsefn hennar í myndinni. En í ferlinu þarf Arna í raun að breyta sér í karlmann aftur en sjálf kom Arna út úr skápnum sem trans kona fyrir nokkrum árum.
„Við tókum upp þann hluta myndarinnar þar sem Arna lék Björn fyrst og svo fórum við í að taka seinni hluta myndarinnar þegar hún leikur Birnu,” segir Björn.
„Arna Magnea er hugrökk manneskja”.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.