Texti: Svava Jónsdóttir
Elínborg Björnsdóttir varð í byrjun ágúst heimsmeistari í pílukasti á meðal fatlaðra kvenna í hjólastól en keppnin var haldin í Skotlandi. Þrátt fyrir að hafa náð toppnum í pílukasti hefur lífsleiðin verið þyrnum stráð og þau eru mörg áföllin. Elínborg var lögð í einelti í grunnskóla sem hafði og hefur enn áhrif á hana, vegna eins áfallsins fyrir um áratug þurfti hún að leita til geðlæknis og hefur síðan verið á þunglyndis- og kvíðalyfjum og hún talar líka um áfallastreituröskun. Hún lenti í hræðilegu bílslysi í janúar 2020 og vegna heilablóðfalls sem því tengdist lamaðist hún vinstra megin. Þá um vorið greindist eiginmaður hennar með heilaæxli og lést hann nokkrum mánuðum síðar.
Reykjanesið hefur skolfið og eldar staðið upp úr jörðu. Í húsi á nesinu býr Elínborg Björnsdóttir ásamt tveimur hundum sínum, þeim Vargi og Golíat, og læðunum Pöndu og Maríu Nótt. Vargur og Golíat gelta fyrir innan girðingu á lóðinni þegar gestinn ber að garði.
Tvær erlendar konur standa fyrir utan húsið. Það eru vaktaskipti en þær aðstoða Elínborgu ásamt fleiri konum við allt hennar daglega líf; ein á vakt í einu. Þær koma svo báðar inn.
„Þú mátt fara heim en þú mátt gefa mér köku á diskinn,“ segir Elínborg við aðra konuna sem er pólsk. Hún talar svo ensku við hina þegar hún þarf nokkrum sinnum á aðstoð hennar að halda á meðan á viðtalinu stendur.
Þrjár elskulegar konur frá þremur löndum á nesinu sem skelfur stundum.
Og Elínborg líka með sorg í augum.
Hún talar um hundana sína áður en farið er í alvarlegri málefni. Það er augljóst að henni þykir ofurvænt um þá; hún segir að þeir hafi bjargað lífi sínu síðustu fjögur árin. Þeir eru blendingar – blanda af terríer, púðluhundi og labrador – og Elínborg segir að þeir séu af „sætu tegundinni“. Þeir eru bræður – úr sama gotinu – og segir hún að jarðskjálftarnir hafi haft þau áhrif að Vargur hafi orðið stressaður og fær hann kvíðalyf tvisvar á dag. Hún segir jafnframt að hundarnir sýni með hegðun sinni áður en fer að gjósa og nefnir 12 tíma í því sambandi. „Þeir verða svo ofboðslega órólegir á vissan hátt; væla og verða órólegir.“
María Nótt er feimin og lætur ekki sjá sig en Panda heilsar upp á gestinn þegar sest er við borðið og þegar liðið er á viðtalið stekkur hún upp í kjöltuna á blaðamanni. Súkkulaðikaka á borðinu ber merki hennar; ljóst hár leynist á einni sneiðinni. Ljóst kattarhár.
Elínborg fæddist á Akranesi en flutti mjög ung til Reykjavíkur. Foreldrar hennar skildu og ólst hún upp með móður sinni, tveimur hálfsystrum – önnur er eldri og hin yngri – og fósturföður. Hver er fyrsta æskuminningin? „Það var þegar ég sex ára gömul var að leika mér í götunni við vini mína.“
Fjölskyldan flutti í nýtt hverfi þegar hún var sjö ára og byrjaði hún í nýjum skóla. Hún segir að frá þeim vetri og út grunnskólagönguna hafi hún verið lögð í mikið einelti. Krakkar í árganginum hafi byrjað að leggja hana í einelti og að það hafi síðan smitast út í eldri árganga. „Þeir gátu verið andstyggilegir, þessir krakkar.“
Elínborg talar um andlegt ofbeldi og líkamsmeiðingar. „Þetta voru samt aðallega andstyggilegheit.“ Hún segir að góð vinkona sín hafi verið í öðrum skóla og að hún hafi svo átt tvær góðar vinkonur í skólanum og að þær hafi ekki tekið þátt í eineltinu.
Elínborg skammaðist sín fyrir að vera lögð í einelti. Hún sagði foreldrum sínum ekki frá eineltinu og að enginn kennari hafi tekið eftir ástandinu nema íþróttakennarinn sem reyndi að koma í veg fyrir það í leikfimitímum. „Stelpurnar vildu ekki hafa mig með í liði þegar við vorum til dæmis að keppa á móti öðrum skólum og íþróttakennarinn benti á að ég væri besta stelpan í íþróttagreinunum sem keppt var í. Hann var eini kennarinn sem sýndi mér stuðning.“
Hún segir að starfsmenn úti í frímínútum hafi aldrei skorist í leikinn og reyndi hún að láta lítið fara fyrir sér og gekk um. „Það var það eina sem hægt var að gera. Ég læddist meðfram veggjum. Ef ég eignaðist vini fyrir utan skólann þá var verið að baktala mig þannig að þetta smitaðist út frá sér. Ég æfði til dæmis lengi sund og þetta hafði áhrif þar.“
Þögn.
„Ég var mjög ung, eða rúmlega tíu ára, þegar mig langaði til að deyja af því að þetta einelti var óbærilegt. Svo hafði eineltið svo ofboðsleg áhrif á sjálfsmyndina og sjálfstraustið. Ég á ennþá til að rífa mig niður og hræðast viðbrögð fólks. Ég fann fyrir vanmáttarkennd og reiði og mér fannst ég vera ómöguleg manneskja. Það var í rauninni ólíft fyrir mig að vera í skólanum og ég fékk aldrei breik til að geta lært eitthvað. Þetta tók í rauninni frá mér getuna til að geta lært. Mér leið mjög illa í tímum og gat ekki lært heima af því að ég fékk ekki svigrúm til að ná námsefninu.“
Hún segir að hún hafi aldrei svarað fyrir sig. „Ég var of brotin. En ég hef eftir slysið lært að svara fyrir mig.“
Elínborg svaf stundum illa út af eineltinu og hún fór að finna fyrir kvíða á æskuárunum. „Mér kveið alltaf fyrir að mæta í skólann og á sundæfingar.“
Elínborg segist hafa átt gott heimili og þar fann hún mikið öryggi og var heimakær. Og henni leið vel í sveitinni þar sem hún var á sumrin. Hún segist hafa verið mjög náin fósturföður sínum.
„Við gerðum svo margt saman; fórum að veiða, á skauta og við fórum í eggjatínslu.“ Fósturfaðirinn lést svo úr hjartaáfalli þegar Elínborg var 13 ára. „Það var rosalegt áfall. Það er ein mesta sorg sem ég hef orðið fyrir í lífinu. Mig dreymir hann stundum og hefur mig dreymt að hann segi að hann hafi ekki dáið; ég er ennþá að vakna upp eftir svoleiðis drauma – að þetta sé einhver misskilningur og að hann sé ekki dáinn. Ég þekkti ekkert annað en hann sem pabba.
Ég sat við hliðina á kistunni í kistulagningunni og ég var „traumatized“ eftir á. Hann var svo ískaldur þegar ég kyssti hann á ennið. Mér brá svo mikið. Og þá einhvern veginn áttaði ég mig á því að hann væri farinn.“
Elínborgu var strítt vegna dauða fósturföður síns. „Einhver sagði að hann hefði dáið á klósettinu og þá var mér strítt út af því. Hann dó ekki á klósettinu. Svo var sagt að ég ætti engan pabba.“ Hún segir að krakkarnir hafi gert í því að særa hana með því að segja þetta. Hún segist hafa farið einu sinni í hugrof á unglingsárunum vegna þess hve henni leið illa. „Allt í einu vissi ég ekki hvar ég var, hver ég væri eða hvert ég ætti að fara. Það var orðið of mikið álag og áföllin orðin svo mikil og mörg.“
Svo lauk grunnskólagöngunni og bjó Elínborg í Svíþjóð í rúmt ár þar sem hún var au pair og æfði sund.
Hún fór svo út á vinnumarkaðinn þegar til Íslands kom og vann í tæp tíu ár við hin ýmsu störf hjá Sláturfélagi Suðurlands en hún hafði verið þar áður í sumarvinnu.
Svo eignaðist hún einkabarnið, son. Hún og barnsfaðir hennar giftu sig en hjónabandið varði ekki lengi. Hún vann svo eftir SS meðal annars í fimm ár í móttökunni á geðdeild Landspítalans og hún vann á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi í áratug. Hún vann einnig um tíma á fjölmiðli við innheimtu, auglýsingasölu og blaðamennsku. Þá vann hún við að aðstoða fatlaða drengi á tímabili og svo var hún í sjálfboðavinnu á dýraspítala. Síðan má geta þess að á þriggja ára tímabili upp úr 2011 vann hún við sjúkraflutninga í Ilulissat á Grænlandi – dvaldi þar í nokkrar vikur í senn og svo var hún á Íslandi í nokkrar vikur áður en hún fór aftur til Grænlands og þannig var lífið í þennan tíma en eiginmaður hennar og sonur voru á Íslandi.
Elínborg upplifði andlegt álag fyrir um áratug, sem hún vegna viðkomandi sem í hlut á vill ekki fara nánar út í, og fór í kjölfarið til geðlæknis sem hún segir að hafi hjálpað sér mikið meðal annars með samtalsmeðferð og síðan hefur hún verið á þunglyndis- og kvíðalyfjum. Hún nefnir líka áfallastreituröskun. Þá tekur hún einnig svefnlyf. „Maður kemst ekkert öðruvísi í gegnum þetta. Geðlæknirinn bjargaði lífi mínu. Svo fór hann í leyfi.“ Enn eitt áfallið reið yfir þegar Elínborg var þrítug en þá lést móðir hennar.
Elínborg er með húðflúr á hægri handlegg. Nafn og tölustafir.
Þröstur
18. 04. 1963
19. 11. 2020
Þröstur var maðurinn hennar. Stóra ástin í lífi hennar.
„Við kynntumst í pílukasti árið 2003 og náðum fljótt vel saman. Hann var mjög heillandi persónuleiki. Hann var afburða greindur og með þeim skemmtilegri sem ég hef kynnst. Hann var einstaklega góður maður,“ segir Elínborg um Þröst, sem var bæði forritari og félagsliði að mennt, sem vann á næturvöktum á réttar- og öryggisdeildinni á Kleppi.
Þröstur var í landsliðinu bæði í pílu og bridge.
„Líf okkar saman var ofboðslega gott. Það var mikil ró og við stríddum hvort öðru rosalega mikið og vorum mjög kaldhæðin. Þannig vorum við alla daga. Við fífluðumst líka mikið. Það var alltaf gaman hjá okkur. Alltaf,“ segir hún með áherslu. „Það er mikilvægt að fólk eigi sínar hefðir. Ég sat stundum við borðstofuborðið og litaði og hann kastaði pílum og við hlustuðum á Morðcastið. Svo fórum við í Sandvík með hundana.“
Hvað er ástin í huga Elínborgar? „Umhyggja, væntumþykja, góðmennska, tillitssemi og hjálpsemi.“
Elínborg og Þröstur fluttu árið 2015 frá Reykjavík og á Reykjanesið og þau giftu sig fjórum árum síðar.
Svarthvít mynd af hjónunum er í stofunni. „Er þetta ekki flott mynd? Sérðu hvernig hann horfir á mig. Sérðu ekki hvað hann elskar mig mikið?“
Elínborg vann um árabil í fiskvinnslu í Sandgerði. Hún og vinkona hennar, sem vann á sama stað og býr í sama bæ, voru vanar að hjóla í vinnuna – 42 kílómetra fram og til baka. Í janúar 2020 ákváðu þær að fara á bíl og ók vinkonan. Það var kalt úti en Elínborg man ekki til þess að það hafi verið hálka. „Það var vissulega kalt þannig að það kæmi mér ekki á óvart að það hafi verið hálka en hún olli ekki slysinu.“
Þögn.
„Svo vorum við á leiðinni heim eftir vinnu. Þetta var eini dagurinn sem við vorum ekki á hjóli. Við vorum á Sandgerðisvegi þegar ég sá bíl koma á ógnarhraða á móti okkur. Bíllinn kom yfir á okkar vegarhelming örugglega á 150 kílómetra hraða. Við vorum á 90.“
Ökumaður bílsins sem kom á móti þeim hafði stolið honum og var lögreglubíll að elta hann. Hún man eftir þegar bílarnir rákust saman. Hún man eftir högginu.
„Ég fæ ennþá „flashback“ af því að höggið var svo ofboðslega mikið. Ég fann svo mikið til í höfðinu. Ég náttúrlega steinrotaðist og svo rankaði ég við mér og þá var ég að hósta upp blóði sem lenti á hvítum loftpúðanum. Það kom mér á óvart að ég skyldi vera á lífi.“
Stolni bíllinn lenti á hægri hlið bílsins eða á þeirri hlið þar sem Elínborg sat í farþegasætinu frammi í.
„Mér fannst annað augað lafa út úr mér og ég spurði vinkonu mína hvort augað lafði út. Þá var höfuðhöggið svo mikið að ég fékk ofskynjanir. Svo fann ég alls staðar til; ég brotnaði svo illa hægra megin. Ég brotnaði á hægri ökkla, svo féll saman sköflungurinn og hnéð og mjöðmin brotnaði illa og fór úr lið og þá brotnaði ég á framhandlegg, bringubeinið brotnaði og nokkur rifbein.“
Þögn.
„Ég fékk heilablóðfall fyrstu nóttina á gjörgæslu. Það flísaðist upp úr slagæð út af slysinu og þá lamaðist ég vinstra megin.“ Elínborg lá á sjúkrahúsinu í 58 vikur, og þar á meðal á Grensás, og var henni fyrstu vikurnar haldið sofandi í öndunarvél. „Þetta var rosalegur tími. Ég var svo ofboðslega mikill sjúklingur. Líf
mitt var svo breytt og mig langaði heim og vera með manninum mínum og dýrunum mínum. Ég grét í margar vikur. Ég fór í hjólastól um ganga spítalans og grét.“
Hún fór í margar aðgerðir á öllum brotunum. „Brak úr mælaborðinu tók stóran part af öðru lærinu á mér og þetta er bara mjög stórt lýti. Það vantar stórt stykki í vöðvann.“
Eftir fjögur ár hefur örlítill máttur komið í vinstri fótinn þannig að Elínborg getur gengið hægt við staf með aðstoð fólks en hún segir að hún fái aldrei aftur mátt í vinstri handlegginn. „Ég gat nýlega gengið upp og niður nokkrar tröppur með stuðningi. Og það er rosalegur sigur að ná þeim áfanga. Það er bara ótrúleg tilfinning. En ég er líka ótrúlega sterk og er búin að ákveða að ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að ná meiri framförum.“
Maí 2020. Elínborg hafði legið á sjúkrahúsinu í nokkra mánuði og var komin á Grensás og hjónin höfðu ákveðið að hittast á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur eitt kvöldið.
„Ég náði ekkert í Þröst allan daginn. Ég reyndi meðal annars að hringja í besta vin hans og hann svaraði mér ekki. Það svaraði mér enginn þennan dag.
Systir mín kom svo á Grensás og læknirinn kallaði á mig og það var haldinn smá fundur.“ Þá var Elínborgu tilkynnt að Þröstur hefði greinst með heilaæxli. „Það fyrsta sem ég sagði var að þetta kæmi mér ekki á óvart; þetta væri það sem ég vissi að væri að honum.“
Elínborg segir að ýmis einkenni hafi verið komin fram nokkrum árum áður. Hún nefnir að sjón Þrastar hafi minnkað og vildi að hann færi til augnlæknis en að Þröstur hafi sagt að eftir að hafa tekið sjónpróf á Facebook hafi útkoman verið að hann væri með „eagle eye“ eða „arnarsjón“. „Ég var búin að margreyna að fá lækni til að taka mynd af höfðinu á honum en út af minni reynslu af að hafa unnið á spítala og svo er ég líka sjúkraflutningamaður að mennt þá grunaði mig hvað væri að gerast og hvers eðlis það væri. Læknirinn neitaði að taka mynd af höfðinu á honum. Þetta hefði getað fundist fyrr.“
Þetta var fjórum til fimm árum áður en Þröstur greindist með heilaæxli. Og hún segir að hún sé reið vegna þess að það hefði verið hægt að gera eitthvað miklu fyrr.
„Lækninum fannst ekki vera ástæða til að taka mynd og að þessir hlutir sem við töluðum um væru ekki vandamál. Þröstur var til dæmis hættur að muna hvert hann væri að fara eða hvaðan hann væri að koma og hann var orðinn svo ofboðslega gleyminn.“
Þögn.
„Ég sé alltaf eftir því að hafa ekki farið með hann á slysa- og bráðamóttökuna þar sem ég þekkti svo marga. Og ég veit að það hefði verið hlusta á mig þar. Þannig að mér finnst þetta vera pínu mér að kenna. Ég var búin að átta mig á hvað var að gerast.“ Elínborg fylgdist með manni sínum veikjast meira og meira.
„Það var svo erfitt að vera bundin í hjólastól og geta ekkert gert. Þetta var áfall ofan í áfall. Og það er það sem bugar mann.“
Hún grætur.
„Þetta bugaði mig alveg. Ég vissi svo sem alveg í hvað stefndi en það er ekkert sem undirbýr mann undir það þegar það svo gerist.“
Elínborg sat í hjólastól og hélt í hendina á Þresti þegar hann kvaddi þetta líf. „Það er ólýsanlegt að koma þessu í orð. Þetta er svo hryllilegt. Og sorgin er svo yfirgnæfandi. Ég átti það til að kasta upp af sorg. Við höfðum átt svo gott líf saman og ég vissi að það líf væri búið.“
Þröstur lést í nóvember. Á legsteininum við leiði hans er nafn hans, fæðingardagur og ár, dánardagur og ár og setningin: „Það geislar af minningu þinni.“ „Það sem Þröstur skildi mest eftir sig er góðmennska hans sem einkenndi hann svo mikið.
Ég hugsa enn í dag um hann hverja einustu sekúndu allan sólarhringinn. Þetta er búið að vera rosalega erfitt. Alltaf þegar ég vaknaði á morgnana skildi ég ekki af hverju hann væri ekki við hliðina á mér.“ Hún grætur. „Ég græt mig ennþá í svefn meira og minna. Þetta er erfitt þegar einhver var búinn að sofa við hliðina á manni meira og minna í 17 ár. Þetta er búið að vera ofboðslega erfitt og einmanalegt af því að við áttum svo ofboðslega góðan tíma. Okkur leið svo vel saman.“
Þögn.
„Líf mitt er eitt stórt áfall.“
Elínborg er spurð hvort hún óttist dauðann. „Nei, alls ekki. Ég tæki honum frekar fagnandi til að komast til mannsins míns og fjölskyldu.“
Elínborg óskaði eftir því að fá að búa á eigin heimili og fá starfsmenn frá Reykjanesbæ til að hugsa um sig í stað þess að fara á stofnun. Hún viðurkennir þó að það sé þrúgandi að vera alltaf með starfsfólk á heimilinu. „Ég er búin að vera með starfsfólk yfir mér hverja einustu mínútu sólarhringsins. Það er ofboðslega þrúgandi. Ég fékk pláss á hjúkrunarheimili en ég barðist fyrir því að fara heim af því að ég átti húsið. Ég hefði getað farið á hjúkrunarheimili 47 ára gömul en það hefði verið fáránlegt að fara þangað.“
Sex konur eru í fullu starfi við að sinna Elínborgu og vinna þær á vöktum. Þótt það sé alltaf einhver á heimilinu finnur hún til einmanaleika. Svo er það sorgin og söknuðurinn.
„Ég horfi mikið á sjónvarp, enda er ég með háan reikning frá sjónvarpsmiðlum. Svo er ég með föndurhorn. Hefur þú heyrt um „diamond painting“? Þá raðar maður steinum. Ég er með bíl með ferðarampi í og kemst hvert sem er hvenær sem er en ég fer allt of lítið í heimsóknir og mér er eiginlega aldrei boðið í heimsóknir. Það breyttist mikið eftir slysið. Það kemur varla sála að heimsækja mig.“
Elínborg fór ásamt vinkonu sinni í fyrsta skipti á pílustað árið 2003. Og hún féll fyrir þessari íþrótt – og Þresti sem hún kynntist á einum staðnum sama ár. Hvað heillaði hana við pílukastið? „Þetta er bæði spennandi og skemmtilegur leikur en krefst rosalegrar æfingar og hugarreiknings. Þetta eykur sjálfstraustið og maður kynntist mikið af skemmtilegu fólki í kringum þetta.“
Elínborgu gekk vel í pílunni og hún segir að þau Þröstur hafi bæði verið margfaldir Íslandsmeistarar. Þá hafði hún verið í landsliðinu í áratug áður en hún lenti í slysinu. „Það var mikið sjokk fyrir mig að detta úr landsliðinu eftir að ég lenti í hjólastól. Ég neitaði að gefast upp á pílunni og fór að leita á netinu að heimssambandi fatlaðra. Ég mætti svo á Evrópumeistaramót á Spáni í fyrra og lenti í öðru sæti og svo fór ég aftur á þessu ári og lenti aftur í öðru sæti þannig að mér fannst ég eiga raunhæfa möguleika á heimsmeistatitli en með því að lenda í öðru sæti vann ég mér inn rétt til að taka þátt í heimsmeistaramótinu sem fór fram í Skotlandi í byrjun ágúst.“
Jú, og Elínborg spilaði vel og sigraði. Varð heimsmeistari.
„Þetta er rosalega stór titill. Ofboðslega stórt og mikið. Og sigurvíman og gleðin er svo mikil.“
Hún segir að þetta gefi sér tilgang. „Þá hef ég eitthvað að gleðjast yfir.“
Elínborg stefnir á að taka þátt í Evrópumeistarmóti á næsta ári en hún segir að hún þyrfti styrktaraðila þar sem hún er á örorkubótum og þarf að hafa tvo aðstoðarmenn með sér í ferðir sem þýðir flug og hótel fyrir þrjá. Hún er með styrktarreikning sem hún biður um að fái að fylgja með.
Elínborg viðurkennir að hún sé ekki nógu dugleg að sækja ýmiss konar þjónustu hjá bænum en hún reynir hvað hún getur að styrkja sig og fer í sjúkraþjálfun tvisvar í viku og svo er hún með einkaþjálfara á líkamsræktarstöð á Ásbrú.
„Ég á það til að ofgera mér þegar ég fer í sjúkraþjálfun og til einkaþjálafara. Ég veit ekki hvaðan þessi dýrslegi kraftur kemur; kannski út af áfallasögunni. Fyrir mér er ekki annað í boði en að ná framför og ég legg allt í það. Ég hef líka svo bilaðan, innri styrk sem kemur mér skemmtilega á óvart. Ég ætla og mun má meiri framförum. Það er ekkert annað í boði. Fljótlega eftir slysið tók ég einfaldlega ákvörðun um það.“
Hún þjálfar líka hugann en hún segir að vegna þess að hún fékk heilablóðfall á sínum tíma sé henni hættara en ella við að fá heilabilun. Ein kvennanna sem vinnur hjá henni er pólsk og hefur hún kennt henni svolítið í pólsku.
„Markmiðið er að sjúkraþjálfararnir og einkaþjálfarinn vinni saman að mínu markmiði. Draumurinn er að geta gengið með staf með minni stuðningi. Þá myndi ég fá svo mikið frelsi til baka. Þá gæti ég gengið um húsið og skoðað í skápa og skúffur. Ég þrái ekkert heitar en að ganga á grasinu berfætt.“
Þeir sem hafa áhuga á að styrkja Elínborgu á Evrópumeistaramótið á næsta ári er bent á reikning hennar 0142-26-015247. Kennitala 110473-4949.