Það er ekki á hverjum degi sem ein frægasta manneskja heims gengur inn á lítinn veitingastað úti á landi og pantar sér einn af þjóðarréttum Íslendinga, sjoppuborgarann, en það er nákvæmlega það sem gerðist í Dalakofanum í Reykjadal í Þingeyjarsveit í gær.
Ein skærasta kvikmyndastjarna Hollywood, sjálfur Brad Pitt, kom þá brunandi upp að veitingastaðnum á mótorhjóli, gekk inn á staðinn og pantaði sér hamborgara. Með honum í för var ónafngreindur félagi hans sem lét sér duga að elta Pitt á hvítum Landcruiser-jeppa.
Ólafur Sólimann, sem rekur Dalakofann ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Boyd segir að allt hafi þó farið fram með kyrrum kjörum. Leikarinn heimsfrægi hafi snætt borgarann í rólegheitunum ásamt salati til hliðar og virst njóta matarins. Svo hafi hann þakkað fyrir sig, borgað og haldið sína leið á mótorhjólinu.
„Þetta var nokkuð óvænt og ég get alveg viðurkennt það stelpurnar sem eru að þjóna til borðs voru kannski aðeins spenntar en að öðru leyti fékk hann bara að vera í friði,“ segir Ólafur. Sjálfur hefur hann um árabil starfað í kringum frægt fólk sem kokkur og hann hafi því ekki ekki kippt sér mikið upp við heimsóknina og ekki séð einu sinni leikarann á veitingastaðnum sínum.
„Það var bara svo brjálað að gera,“ segir Ólafur. Hann segir þó að eiginkona sín Guðrún sé rígmontin eftir heimsóknina en hún eldaði hamborgarann ofan í stjörnuna sem honum virtist líka afar vel. Pitt kunni að meta einfaldleikann og pantaði sér einfaldlega hamborgara með kjöti og osti og enga sósu.
Ekki er vitað í hvaða erindagjörðum Pitt er hér á landi, hvort um sé að ræða frí eða undirbúning á einhverju kvikmyndaverkefni. Leikarinn gisti á Fosshótel Húsavík og mátti sjá mynd af honum á samfélagsmiðlum ásamt starfsfólki hótelsins.
Fararskjóti stjörnunnar þarf svo kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að Pitt er forfallinn áhugamaður um mótorhjól og á umfangsmikið safn af sjaldgæfum og verðmætum hjólum.