fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Fókus

Hefur ekki talað við fyrrum vin sinn, Davíð Oddsson, um langt skeið – „Ég held að hann hafi farið í fýlu út í mig af því að ég var ekki sammála honum“

Fókus
Fimmtudaginn 15. ágúst 2024 10:40

Jón Steinar Gunnlaugsson var gestur Sölva Tryggvasonar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari segist alla tíð hafa lifað eftir ákveðnum lífsreglum, eins og að vera heiðarlegur og standa með sjálfum sér. Jón Steinar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir heiðarleikann hafa kostað sig vinslit og stundum óvinsældir, en það sé algjörlega þess virði, enda fari hann sáttur á koddann á hverju kvöldi:

Aldrei getað skuldbundist stjórnmálaflokki

„Ég las bók þegar ég var ungur maður. Þar eru snemma í bókinni tvö börn að tala saman. Stúlka og piltur og hann er spurður að því hvað hann ætli að gera þegar hann verður stór. Og hann svarar: „Ég ætla að gera það sem er rétt“. Þetta fannst mér alveg heillandi svar hjá þessum unga pilti og eftir það hugsaði ég að þetta væri það sem ég ætlaði að gera. Ég ákvað að hafa það sem leiðsögn í mínu lífi að gera það sem ég teldi rétt hverju sinni og vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér og öðrum. Það þýðir ekki að ég hafi alltaf rétt fyrir mér, en ég hef alltaf fylgt þessarri lífsreglu. Þess vegna hef ég til dæmis aldrei getað skuldbundist neinum stjórnmálaflokki. Það að vera í einhverju liði kallar á að maður byrji að gefa afslátt af sjálfum sér. Þegar fólk hefur talið mig innsta kopp í búri í Sjálfstæðisflokknum er það byggt á miklum misskilningi. Ég hef alltaf lifað eftir eigin sannfæringu og get ekki gefið afslátt af minni betri vitund. Ef maður er heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér fer maður sáttur á koddann á hverju kvöldi. Lífshugsjón mín er sú að við búum í samfélagi að við séum frjálsir einstaklingar. Að við eigum að vera frjáls til athafna, en bera svo ábyrgð á því sem við erum að gera. Þetta eru mínar grundvallarskoðanir og það að halda mig við þessar hugsjónir hefur oft kostað mig vandræði. Það er oft verið að reyna að gera eitthvað annað úr mér en ég er. Ég er hugsjónamaður, bæði í pólitík og lögfræði. Ég hef alltaf tekið það hlutverk alvarlega að vera lögfræðingur og dómari og að starfa við að verja réttindi borgaranna,” segir Jón Steinar.

Telur að Davíð hafi farið í fýlu

Þessi prinsipp hans hafi oft haft talsverðar afleiðingar og meðal annars þegar kemur að vinskap hans og Davíðs Odssonar

„Við Davíð höfum enn ekki talað saman í talsverðan tíma. Ég held að hann hafi farið í fýlu út í mig af því að ég var ekki sammála honum, en hann hefur ekki fengist til að segja mér hvað veldur vinslitunum. Davíð á mikinn heiður skilinn fyrir margt sem hann gerði á sínum ferli, sérstaklega á fyrri hluta ferils síns. En í seinni tíð fór hann að gera alls kyns hluti sem ég skil ekki alveg.”

Jón Steinar segir Sjálfstæðisflokkinn löngum stundum ekki hafa staðið við það sem flokkurinn segist standa fyrir, eins og til dæmis frelsi, skattalækkanir og fleira:

„Sjálfstæðisflokkurinn segir á fagnaðarstundum að hann sé á móti skattahækkunum og á móti útþenslu ríkisvaldsins. En ef fólk skoðar hvað hefur verið að gerast á síðustu árum og áratugum gengur það þvert á móti þessu. Það er búið að koma á fót fjölda stofnana með algjörlega óþörfum störfum sem skattgreiðendur þurfa svo að borga fyrir. Það vantar algjörlega öll prinsip,” segir Jón Steinar, sem segist vera með spurningu fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins:

„Ég skal segja þér að hverju ég myndi spyrja Bjarna ef hann sæti hérna hjá okkur. Nú er það ljóst Bjarni minn að þú flytur fínar ræður með alls kyns góðum meiningum, en þér á að vera ljóst eins og öðrum Íslendingum að Sjálfstæðisflokkurinn á í miklum erfiðleikum núna. Hann mælist í skoðanakönnunum með minna fylgi en nokkur dæmi eru um. Hefur hvarlað að þér að segja af þér sem formaður til þess að hægt sé að veita flokknum andlitslyftingu sem gæti hjálpað honum í næstu kosningum?,” segir Jón.

Flokkurinn ekki fylgt stefnumálum sínum

Hann segist sjálfur hafa skýringu á því af hverju flokkurinn mælist svo illa í könnunum.

„Það er einfaldlega af því að flokkurinn hefur ekki fylgt stefnumálum sínum og þeir sem hafa kosið flokkinn sjá það. Flokkurinn hefur stöðugt eftir þegar kemur að alls kyns hlutum og er undir skaðvænlegum áhrifum frá Vinstri Grænum. Allar þessar stofnanir og nefndir sem er verið að setja á fót er dæmi um þetta. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa brugðist þegar kemur að því að standa í lappirnar gegn öllu þessu.”

Eitt af því sem Jón Steinar hefur tjáð sig um er löggjöf í kringum fíkniefni. Hann hefur í áraraðir talað fyrir lögleiðingu fíkniefna og segir nú fleiri og fleiri komna á vagninn, enda sjái fólk að refsingar og bönn hafi engu skilað.

„Það eru 30 ár síðan ég byrjaði að tala um að það ætti að lögleiða öll fíkniefni, en þá var ekki mik­ill grund­völl­ur fyr­ir þeim skoðunum. En ég horfði bara á að öll rök mæltu með af­glæpa­væðingu og lög­leiðingu og nú eru mjög margir komnir á sömu skoðun. Það er orðið al­gjör­lega ljóst að stríðið gegn fíkni­efn­um virk­ar ekki. Við erum kom­in á enda­stöð og verðum að hugsa þetta upp á nýtt. Við eig­um að fræða börn­in okk­ar og ung­ling­ana og gera allt sem hægt er til að draga úr eft­ir­spurn­inni. Svo eig­um við að setja enn meira púður í að hjálpa þeim sem verða fíkl­ar, en boð og bönn virka ekki. Sag­an und­an­farna ára­tugi sýn­ir okk­ur það ein­fald­lega. Krakkar geta orðið sér úti um þessi efni á skólalóðinni, þannig að þau rök að bönn snúist um minna aðgengi halda ekki vatni. Það myndi breyta miklu að gera þetta allt lög­legt og ríkið gæti svo notað hluta af pen­ingn­um sem myndi spar­ast við lög­gæslu til að hjálpa þeim sem verða fíkl­ar,” segir Jón Steinar, sem segir mikla hræsni fólkna í því að leyfa áfengi, en banna önnur efni.

„Það er ekk­ert annað en hræsni að ég og aðrir lög­menn og dóm­ar­ar séu að refsa fólki fyr­ir fíkni­efna­notk­un eða brot tengd fíkni­efn­um, en svo för­um við sam­an á bar­inn að drekka eft­ir að við erum bún­ir í vinn­unni.“

Jón Stein­ar þekk­ir það af eigin raun að lenda í vanda vegna áfengis og hann segir líf sitt hafa umturnast til hins betra eftir að hann hætti að drekka.

„Ég hætti að drekka áfengi árið 1979 fyrir tilverknað eiginkonu minnar. Ég hef ekki bragðað dropa af áfengi síðan. Konan mín átti stærstan þátt í þessarri ákvörðun og ég verð henni alltaf þakklátur fyrir það eins og svo margt annað í mínu lífi.Ég fór á Silungapoll sem þá var stjórnað af æskuvini mínum Þórarni Tyrfingssyni. Þar fékk ég al­menni­lega fræðslu um áfengi og fíkn og eft­ir það gat ég ekki flúið þær upp­lýs­ing­ar sem ég fékk. Ég er þannig úr garði gerður að ég á erfitt með að ljúga að sjálf­um mér og ég hef verið laus við áfengi síðan. Líf mitt batnaði stór­kost­lega eft­ir að ég hætti að drekka, bæði mitt og fjöl­skyldu minn­ar.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Jón Steinar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Diddy sagður hafa misnotað 10 ára dreng á hótelherbergi

Diddy sagður hafa misnotað 10 ára dreng á hótelherbergi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Var eina barnið sem fór með á trú­ar­viðburði í söfnuði þar sem Guð átti að taka frá hon­um þessi veik­indi“

„Var eina barnið sem fór með á trú­ar­viðburði í söfnuði þar sem Guð átti að taka frá hon­um þessi veik­indi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Það er ekki bara kvóti á fiskinn. Það er líka kvóti á hversu miklar svívirðingar þú þolir“

„Það er ekki bara kvóti á fiskinn. Það er líka kvóti á hversu miklar svívirðingar þú þolir“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Söngkona biðst forláts eftir að hún slátraði þjóðsöngnum

Söngkona biðst forláts eftir að hún slátraði þjóðsöngnum