fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Ragga um óraunhæf viðmið um útlit – „Drengirnir okkar eru líka í hættu“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 18:31

Mynd: Ragga nagli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, tjáir sig um óraunhæf viðmið um útlit í nýjasta pistli sínum á Facebook. Að þessu sinnir beinir Ragga orðum sínum til karlmanna, en við erum vön því að sjá helmassaðar ofurhetjur á skjánum. 

Við sjáum heflaðan kvið, pumpaða upphandleggi og strimlaða lærvöðva á skjánum.

Ofurhetjur eins og Deadpool, Úlfagaurinn, Mauramaðurinn, Witcher, Súpermann, Leðurblökumaðurinn og þrumuguðinn Þór. Jake Gyllenhaal buffar sig í drasl til að feta í fótspor Patricks heitins Swayze í Road House. Jason Momoa er ekki aðeins helmassaður Vatnsmaður heldur einnig íturvaxinn Khal Drogo í Game of Thrones. Chris Hemsworth er þrumuguðinn Thor í öllu sínu veldi með svo stóra bakvöðva að hann þarf að labba á hlið inn um dyrnar. Zac Efron spígsporaði strendur Kaliforníu vopnaður flotholti í Baywatch og ekki nanógramm af líkamsfitu á vöðvuðum skrokk,

segir Ragga sem segir okkur mötuð á skilaboðum um líkamlegar umbreytingar á örfáum mánuðum eins og það sé jafn eðlilegur partur af prógrammet og að lesa handritið eða láta sparsla smettið.

Jútjúb og tímaritasíður á netinu úsa út smellumellum fyrir æfingaprógrammið, snæðingana og allar pillurnar og duftin hjá þessum stjörnum og látið líta út eins og þetta sé ínáanlegt ef þú bara fylgir þessu upp á punkt og prik.

Og stóreygir ungir drengir með óþroskaðan framheila telja sig geta náð þessum árangri með kjúklingi, kreatíni og krulla bíseppinn nógu mikið.

Þróa með sér brenglaðar hugmyndir og óraunhæfar væntingar

Ragga segir þannig unga drengi þróa með sér algjörlega brenglaðar hugmyndir og óraunhæfar væntingar um líkamlegar breytingar og upplifa vonbrigði, skömm og vonleysi yfir eigin árangri sem gerist á eðlilegum hraða sem fyrir þeim er hraði jökulsins því viðmiðin eru algjörlega úr takti við hvað er raunhæft og eðlilegt. Því það er aðeins hálf sagan sögð þegar kemur að þessum dramatísku líkamlegu breytingum.

Til að undirbúa sig undir þessi hlutverk þarf leikarinn að æfa eins og skepna í marga klukkutíma á dag, borða sjö ríkismatvæli svo mánuðum skiptir, passa hvert einasta gramm sem fer upp í túlann, sleppa áfengi, gosi, sósum, og flestu sem veitir gleði í munnholinu og tileinka sér sjálfsaga á pari við níræðan tælenskan munk.

Síðan þurrka þeir upp líkamann með því að sötra örfáa dropa af vatni eða sjúga ísmola fyrir atriði þar sem efri parturinn er klæðalaus svo allir músklarnir þrýstist út í húðina.

Hugh Jackman drakk ekki dropa af vökva í 36 tíma fyrir atriði í Wolverine.Henry Cavill gerði slíkt hið sama fyrir sitt hlutverk í Witcher, og sagði í viðtali að hann hefði verið svo þyrstur að hann gat fundið lykt af vatni í sama herbergi.

Ragga bendir á að það tekur líkamann 100 klukkutíma að fara í lífshættulegt ofþornunarástand.

Og stærsti böggullinn sem fylgir skammrifinu er að rannsóknir sýna að þessar helmössuðu og fitusnauðu svokölluðu fyrirmyndir fyrir unga drengi geta haft mjög neikvæð áhrif á þeirra líkamsímynd.

Þeir eiga á hættu að þróa með sér líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphia) sem kallast Vöðvafíkn (e. muscle dysmorphia), undirflokkur líkamsskynjunarröskunar og leggst aðallega á unga drengi. Vöðvafíkn lýsir sér í að finnast hann aldrei nógu vöðvastælt(ur), með neikvæðar hugsanir um eigið útlit og byggja sjálfstraustið á hversu mikið kjöt liggur á grindinni.

Afleiðingarnar eru óheilbrigt og öfgakennt samband við spegilmyndina, mat og æfingar, ofnotkun á bætiefnum og jafnvel ólöglegum efnum í sprautuformi.

Ekki ljóst hvað veldur vöðvafíkn

Ragga segir að ekki sé fyllilega ljóst hvað valdi vöðvafíkn, en ytri áhrif spila þar stóra rullu eins og að lenda í einelti vegna útlits, sem og áhrif kvikmynda, fjölmiðla og samfélagsmiðla að hafa tálgaðar útúrbuffaðar Hollívúdd stjörnur stöðugt fyrir glyrnunum.

1.7-2.4 % þjást af líkamsskynjunarröskun og af þeim eru 22% karlmanna sem þjást af vöðvafíkn, og er orðin mun algengari síðasta áratug.

Afleiðingarnar af þessum öfgakenndu aðferðum við að æfa eins og skepna og tutla svo eins og spörfugl til að sýna kjötbygginguna eru bæði líkamlegar og sálrænar.

Þekktar afleiðingar af því að borða langt undir orkuþörf er að hjartsláttur hægist, hjartavöðvi minnkar, blóðþrýstingur lækkar, gríðarleg þreyta, orkuleysi, svimi, hárlos, brotnar neglur, svefnleysi, hátt kortisól svo eitthvað sé nefnt.

Sálrænar afleiðingar eru félagsleg einangrun, þunglyndi, kvíði, æfingaþráhyggja.

Óánægja með líkamann og stöðugar hugsanir um mat grjótfestast í sálinni til margra ára og krefst oft faglegrar aðstoðar.

Þráhyggjan fylgir fólki stundum alla ævi

Segir Ragga þráhyggju gagnvart mat fylgja fólki oft alla ævi, löngu eftir að megrunarkúrum lýkur, og jafnvel þó fituprósenta sé aftur komin í eðlilegt horf og líkaminn í heilbrigðum holdum.

Ein þekktasta rannsókn á afleiðingum af drastískri megrun er Keys frá 1950 þar sem heilbrigðir hermenn voru látnir borða helming hitaeininga sem þeir voru vanir.

Menn sem áður spáðu ekkert í mat fóru að lesa uppskriftabækur spjaldanna á milli, töluðu um mat, dreymdi mat og sumir fóru að vinna sem kokkar eða í eldhúsi.

Einn þátttakandi var að fela mat uppi á háalofti og borða þar í laumi langt fram á elliárin. Mörgum áratugum eftir að rannsókninni lauk.

Matthew McConaughey sagði í viðtali við Joe Rogan að hann hafi aldrei almennilega jafnað sig líkamlega né andlega eftir fitutapið fyrir Dallas Buyers Club, þar sem hann skóf af sér alla fitu og hellings vöðvamassa en þar lék hann HIV smitaðan mann.

Hann lýsti mataræðinu sem samanstóð af Tapioca búðing á morgnana, fiski og grænmeti í hádegi og á kvöldin. Um það bil 1000-1200 hitaeiningar fyrir mann sem var næstum 100 kíló massakall áður en þessi horun á holdi hófst.

Við þurfum ekki aðeins að vernda ungu stúlkurnar okkar fyrir óraunhæfum viðmiðum um útlit. Drengirnir okkar eru líka í hættu.

Sýnum þeim allskonar líkama snemma á lífsleiðinni, eins og fjölbreytileika í stærð og vöðvamassa þeirra sem keppa á ÓL.

Fræðum þá um hætturnar bak við að æfa of mikið og borða of lítið.

Hömrum á þeim að sjálfsmyndin byggist ekki á hvernig þeir líta út heldur á innvolsinu þeirra hvernig þeir koma fram við aðra, sýna samkennd, kímnigáfu og eru til staðar fyrir vini sína.

Hvetjum þá til að útvista ekki samþykkinu út á við til annarra, heldur hvetjum þá til að hrósa sjálfum sér og vera stoltir af afrekum sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife