fbpx
Mánudagur 29.júlí 2024
Fókus

Siggi Palli deilir kostulegu fjölskylduleyndarmáli – Reyndi að leika á íslenskukennarann, fékk rétta manninn í verkið, en öðruvísi fór en ætlað var

Fókus
Mánudaginn 29. júlí 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Páll Sigurðsson, betur þekktur sem Siggi Palli, fer hörðum orðum um íslenska skólakerfið og meðvirkni þess með foreldrum í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Siggi Palli starfaði um árabil sem kennari en gafst upp á skólakerfinu og flutti í kjölfarið með annan fótinn úr landi. Hann er líka fjöllistamaður, bæði flúrari og listmálari svo eitthvað sé nefnt. Hann byrjaði ungur að flakka um heiminn með foreldrum sínum og hefur síðustu árin verið afar víðförull. Í spjallinu við Mumma rifjar hann upp ýmis eftirminnileg atvik úr lífi sínu, svo sem þegar hann tólf ára kenndi vini sínum hvernig ætti að senda út alvöru neyðarkall í talstöð og startaði óaðvitandi allsherjar neyðarleit að trillu á Breiðafirðinum og sitt hvað annað. Eitthvað sem eldra fólk í Flatey er ekki enn búið að fyrirgefa honum, tæplega hálfri öld síðar.

Siggi Palli afhjúpar líka gamalt fjölskylduleyndarmál í viðtalinu. Það er sagan um hvernig hann ætlaði sér að leika á íslenskukennarann sinn í Menntaskólanum í Reykjavík á sínum tíma með sprenghlægilegum afleiðingum.

„Ég held það hafi verið á síðasta árinu, þá fengum við það verkefni að velja milli fimm rithöfunda. Það voru fimm bækur eftir fimm höfunda og við áttum að gera greiningu á bókinni. Lesa bókina og ritgerðin átti að fjalla um hvert höfundurinn væri í raun að fara með verkinu, hvaða sögu hann væri að segja og hvað hann væri að reyna að skilja eftir.“

Það varð Sigga Palla til happs að meðal bókanna fimm var ein eftir höfundinn Sigurð A. Magnússon. Það kom sér vel því Siggi Palli er sonur hans, og íslenskukennarinn hafði ekki hugmynd um þessi ættartengsl.

„Svo ég fer heim og byrja að lesa bókina hans pabba. Ég náði að lesa, ætli það hafi ekki verið fjórðungur eða þriðjungur af bókinni þegar kom að því að ég þurfti að skila ritgerðinni.“

Þá voru góð ráð dýr. Siggi Palli hringdi því í föður sinn og ákvað að spyrja hann hvert hann hafði nú eiginlega verið að fara með verkinu og hvað bókin átti að skilja eftir sig. Ekki stóð á svörum og þurfti Siggi Palli að hafa sig allan við að skrifa niður glósur upp úr símtalinu. Á endanum bræddi blýanturinn úr sér svo Siggi Palli hélt seint um kvöld heim til föður síns þar sem þeir lögðust yfir ritgerðina. Sigurður eldri var sem betur fer náttugla sem starfaði á nóttunni svo hann missti ekki svefn yfir verkefninu. Hins vegar talaði hann svo hratt að hæfileikar Sigga Palla á ritvélinni höfðu ekki undan.

Loks fór það svo að seint um nóttina sat rithöfundurinn Sigurður A. Magnússon við ritvélina á heimili sínu og skrifaði menntaskólaritgerð um hvað hann hefði nú eiginlega verið að segja með sínu eigin bókmenntaverki. Siggi Palli sá um að pabba hans vantaði ekki kaffi og loks fór það svo að sonurinn hafði tilbúna ritgerð í höndunum um klukkan fjögur um nótt og höfundurinn gat farið að sofa á sínum hefðbundna tíma.

„Ég hef ekki getað fengið betri mann í verkið,“ segir Siggi Palli og bætti við að hann hafi svo kvittað sitt eigið nafn undir ritgerðina og skilað henni svo daginn eftir til kennara síns alveg sannfærður um að fá fullt hús stiga fyrir vikið.

En annað kom á daginn. Hann fékk aðeins 7 fyrir ritgerðina og skilaboð frá kennaranum um að hann hefði greinilega „ekki áttað þig á því hvert höfundurinn var að fara í þessu verki.“

Þar með fór svo að Sigurður A. Magnússon fékk þau skilaboð frá syni sínum að hann hefði ekki hugmynd um hvað hans eigin bók fjallaði um. Íslenskukennarinn vissi það greinilega betur.

„Þannig pabbi skrifaði ritgerð um sína eigin bók og fékk ekki nema 7 fyrir í íslenskuáfanga í MR.“

Siggi Palli segist aldrei hafa sagt kennaranum sínum hverra manna hann er og hafi þessi saga orðið að langlífum brandara innan fjölskyldunnar.

 

Hlusta má á viðtalið við Sigga Palla og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eyddu 8-9 milljónum í brúðkaupið en sjá ekki eftir því

Eyddu 8-9 milljónum í brúðkaupið en sjá ekki eftir því
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rúnar hlaut verðlaun fyrir leikstjórn Ljósbrot

Rúnar hlaut verðlaun fyrir leikstjórn Ljósbrot
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ingi skorar á Íslendinga að finna sig – Klukkarinn fær 100 þúsund í fundarlaun

Ingi skorar á Íslendinga að finna sig – Klukkarinn fær 100 þúsund í fundarlaun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hart tekist um á hárlit Sunnevu – „Þau eru að plata þig“

Hart tekist um á hárlit Sunnevu – „Þau eru að plata þig“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kjartan er ekki neyddur til að vera í opnu sambandi – „Myndi ekki vilja fara til baka“

Kjartan er ekki neyddur til að vera í opnu sambandi – „Myndi ekki vilja fara til baka“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gagnrýnir J.D. Vance harðlega vegna ummæla hans um barnlausar konur

Gagnrýnir J.D. Vance harðlega vegna ummæla hans um barnlausar konur