fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“

Fókus
Miðvikudaginn 10. júlí 2024 11:30

Ragnar Stefánsson og Kári Stefánsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson hefur ritað sínum gamla vini Ragnari Stefánssyni jarðskjálftafræðingi, sem yfirleitt var kallaður Ragnar skjálfti, bréf á Facebook-síðu sinni en útför Ragnars, sem lést nýlega, fer fram í dag. Í bréfinu verður Kára einkum tíðrætt um baráttu þeirra félaga gegn hernaði, meðal annars Bandaríkjanna í Víetnam, en Kári og Ragnar áttu það sameiginlegt að hallast talsvert til vinstri í stjórnmálum. Kári rifjar meðal annars upp mótmælaför þeirra félaga ásamt fleirum á herstöð Bandaríkjanna sem stóð á Miðnesheiði frá 1951-2006:

„Ég var nítján ára þegar við hittumst nokkur að Tjarnargötu 20 og héldum síðan til Keflavíkur í þeim tilgangi að taka yfir stúdíó í sjónvarpsstöð hersins. Þaðan ætluðum við að sjónvarpa áróðri gegn stríðinu í Víetnam. Og þú Ragnar Skjálfti varst bílstjórinn sem áttir að koma okkur undan ef illa færi. Með í för voru þær Róska og Birna Þórðar en ég man ekki eftir fleirum og þar sem ég er búinn að missa símasamband við þig reikna ég ekki með að geta stólað á þig til þess að fylla í eyðurnar. Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam en við náðum svo sannarlega athygli herlögreglunnar sem fór um okkur heldur ómjúkum höndum þótt varnarsáttmálinn segði að hún mætti ekki snerta innfædda.“

Þakklátur

Kári rifjar einnig upp útifund eftir Keflavíkurgöngu þar sem veru hersins á Miðnesheiði var einu sinni sem oftar mótmælt. Þar kom við sögu Stefán Jónsson faðir Kára en Kári segist hafa verið þakklátur Ragnari fyrir hlý orð í garð föður síns:

„Við lok göngunnar var haldinn fundur fyrir utan Alþingishúsið og faðir minn heitinn Stefán Jónsson fréttamaður flutti ræðu þar sem hann benti á að það hlyti að koma Víet Kong spánskt fyrir sjónir að við værum að afla fjár til þess að hjálpa þeim að losa sig við bandarískt herlið á meðan það væru tugþúsundir bandarískra hermanna á Íslandi. Eftir útifundinn var haldinn fundur í miðstjórn Samtaka Hernámsandstæðinga og þar vorum við báðir viðstaddir. Fundarmenn voru öskureiðir út í föður minn og kölluðu hann öllum illum nöfnum utan þú sem dróst mig til hliðar og sagðir að enn einu sinni hefði faðir minn hitt naglann á höfuðið. Ég verð þér ávallt þakklátur fyrir þetta vegna þess að þótt það væri verið að bölva föður mínum horfðu menn á mig hatrömmum augum meðan þeir hreyttu orðunum út úr sér.“

Þessi tvö skipti voru langt í frá þau einu þar sem leiðir Kára og Ragnars lágu saman við hvers kyns mótmæli:

„Og leiðir okkar lágu saman við fleiri göngur og mótmæli vegna þess að alls staðar þar sem íslenskir sósíalistar börðust fyrir betra samfélagi og meira réttlæti í heiminum varst þú nærri.“

Jarðskjálftar til heiðurs skjálftanum

Kári ræðir því næst í löngu máli við Ragnar um hörmungarnar á Gaza en kveður hann að lokum eins og við á um mann sem var í áraraðir fremsti jarðskjálftafræðingur Íslendinga:

„Og nú ertu farinn frá okkur. Við Íslendingar höfum búið í þessu landi í ellefu hundruð ár og það hefur mótað okkur að því marki að það þarf ekki flókið próf til þess að ákvarða faðerni þessarar þjóðar. Við erum afsprengi elds og íss og suðvestan kalda og rigningar. Þetta föðurland okkar kann líka að sýna virðingu þegar við á þannig að þegar það var orðið ljóst að þú værir að kveðja hleypti það á stað jarðskjálftahrinu á Suðurnesjum sem aldrei áður. Það vissi eins og við hin að þú kannt betur en aðrir að lesa þau skilaboð sem eru falin í jarðskjálftum. Í þetta skiptið sögðu þau: Vertu sæll aldni sósíalisti og þökk fyrir alla baráttuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu