fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Segir Íslendinga gera meiri kröfur á Íslandi en í útlöndum

Fókus
Þriðjudaginn 9. júlí 2024 13:30

Þingvallavatn. Mynd/Pjetur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar var gestur í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Í viðtalinu ræddi Jóhannes vítt og breitt um stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi, ferðir Íslendinga um Ísland og hið alræmda umræðuefni íslenskt verðlag. Jóhannes vildi meina að það væri nánast óhjákvæmilegt vegna ýmislegs kostnaðar að verðlag í íslenskri ferðaþjónustu væri í hærri kantinum, ekki síst af því þörf á mannafla í greininni sé töluverð. Hann sagði Íslendinga almennt gera meiri kröfur til þjónustu þegar þeir ferðast um Ísland en þegar þeir ferðist erlendis og kvarti samt yfir verðlaginu.

Öðrum stjórnanda þáttarins, Sindra Þór Sindrasyni, var nokkuð niðri fyrir þegar hann sagði frá nýlegri dvöl sinni á ónefndu hóteli á landsbyggðinni. Fyrir gistingu eina nótt hefði hann borgað 37.000 krónur en morgunverður hafi ekki verið innifalinn og ekkert baðherbergi verið inni á herberginu og hann því þurft að deila baðherbergi með öðrum gestum. Þetta þótti Sindra hátt verð fyrir lítið og við slíkar aðstæður minnkaði áhugi hans á að ferðast um Ísland verulega. Hann sagði það ekki sína upplifun að góð þjónusta væri veitt fyrir hið háa verð í íslenskri ferðaþjónustu eins og Jóhannes vildi meina:

„Ég fór niður í morgunmatinn þennan umrædda dag og ég sagði vá er þetta í alvöru verðið. Enginn morgunmatur, ekki baðherbergi innan af herberginu og hún sagði bara: Þú ert dónalegur. Þetta bara kostar. Þú ert leiðinlegur og dónalegur. Ég alveg … er þetta í alvöru svarið.“

Ekki svona alls staðar

Jóhannes sagði að þetta væri leiðinlegt að heyra og fullvíst væri að svona framkoma væri ekki viðhöfð alls staðar í íslenskri ferðaþjónustu. Kannanir meðal erlendra ferðamanna sýndu fram á að almennt væru gæði mikil í íslenskri ferðaþjónustu. Íslendingar væru hins vegar kröfuharðari en erlendir ferðamenn þegar þeir ferðuðust um Ísland en gæfu afslátt af kröfum sínum á ferðum um önnur lönd:

„Íslendingar eru almennt töluvert kröfuharðari þegar þeir ferðast um Ísland heldur en þegar þeir eru í útlöndum.“

Sindri hvatti Jóhannes til að taka sterkar til orða og sagði hann þá að Íslendingar væru frekir ferðamenn:

„Við erum óánægð með þjónustuna og það sem við erum að fá fyrir peninginn,“ sagði Sindri.

Jóhannes sagði það hins vegar ekki vera sína upplifun að þetta væri almennt viðhorf meðal Íslendinga á ferðum þeirra um landið.

Leita þurfi að tilboðunum

Rætt var í þættinum um þá þróun að bókunum erlendra ferðamanna á hótelgistingu hér á landi hafi fækkað og að íslensk hótel hafi þar af leiðandi auglýst tilboð sem miðuð eru að Íslendingum. Jóhannes mælir með að Íslendingar sem hafa áhuga á að nýta sér slík tilboð í sumar byrji á því að skoða bókunarsíður í netheimum og hafi síðan beint samband við það hótel eða gististað sem þeim líst best á:

„Tilboðin eru ekki á booking.com. Tilboðin eru ef þú talar beint við gististaðinn.“

Það sé þó ekki algilt. Stundum sé svarið að verðið sé nákvæmlega það sama og megi sjá á bókunarsíðum. Jóhannes mælir einnig með því að fólk skoði vefsíðuna visiticeland og einnig séu visit-vefsíður fyrir hvern landsfjórðung og helstu sveitarfélög. Jóhannes minnti síðan Íslendinga sem búa á Íslandi og hyggja á ferðalög í sumar:

„Það er ágætt að muna það að þegar maður ferðast um Ísland þá þarf maður náttúrulega ekki að borga flug til útlanda.“

Sindra fannst ekki mikið til þessara orða koma:

„Það er nú minnsti kostnaðurinn.“

Jóhannes benti Sindra á að það væri svipað dýrt fyrir ferðamenn að ferðast um sambærilega áfangastaði og Ísland og nefndi þar Norður-Noreg. Sindri var ekki sannfærður:

„Ég held við getum gert betur, sorrý,“ sagði Sindri og sagðist spenntari fyrir því að ferðast til útlanda en um Ísland þar sem hann teldi sig fá meira fyrir peninginn í borgum eins og til að mynda London, New York og Kaupmannahöfn.

Samtalið í heild sinni er hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Áfall fyrir Arsenal
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“

Gunnar Þórðarson er áttræður í dag – „Takk fyrir alla dásamlegu músíkina“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar

Þetta gerist ef þú sleppir áfengi í janúar