fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Ragga segir margar konur upplifa þetta eftir fertugt

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 24. júní 2024 15:30

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, segir ansi margar konur upplifa að áfengi fer ekki eins vel í þær eftir fertugt eins og áður. Áfengi geti í raun gert mörg einkenni breytingaskeiðsins enn verri.

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.

Ansi margar konur upplifa að áfengi fer ekki eins vel í þær eftir fertugt eins og áður.

Mórallinn daginn eftir tjúttið ætlar holdið lifandi að éta.

Litlar í sér með signar axlir og kvíðinn rússar um holdið langt fram eftir viku.

Pervertískar langanir í eitthvað nógu saltað og sveitt og framheilinn skakklappast á hækjum en nær ekki að stöðva þig í að taka betri ákvarðanir í matarvali.

Áfengi og bjór inniheldur oft mikinn sykur og er næstum tvöfalt hitaeiningaríkari en prótín og kolvetni (7 kcal/gramm), en það eru svokallaðar tómar hitaeiningar sem gefa engin orkuefni né vítamín og steinefni.

Þannig getur áfengi stuðlað að enn meiri fitusöfnun ofan á mallakútinn sem oft er byrjaður að myndast á breytó.

Líkamsímyndin sem þegar er niðri í kjallara fær níðingsstöng og niðurrif á Richter skala.

Sem veldur kvíða, depurð, áhyggjum.

Ragga segir áfengið einnig oft ekki eiga vel við þarmaflóruna sem þegar er með vesen vegna lækkandi estrógens, estradiol og prógesteróns.

Áfengi er þvagræsandi og þurrkar upp líkamann sem síðan veldur vökvasöfnun og bjúg í varnarmekanisma við öllu þessu pisseríi. Þurr skrokkur hefur áhrif á styrk, kraft og frammistöðu á æfingar.

Að auki hefur áfengisdrykkja mjög víðtæk áhrif á æfingar eins og Ragga bendir á: Svefnleysi, timburmenn, mórall, ofþornun, þarmavesen, er ekki kokteill sem dúndrar fítonskrafti í æðar. Að auki er verri glýkógenmyndun og prótínmyndun  sem hindrar endurheimt eftir æfingar, og það þýðir að næsta æfing verður líka slöpp.

Áfengi víkkar æðarnar og hitar líkamann eins og áramótabrennu svo hitakófin verða enn öflugri. Áfengi þurrkar upp GABA, taugaboðefnið sem róar taugakerfið og dregur úr kvíða og depurð. Það þýðir enn stærri hnútur í mallakút.

Mörg einkenni breytingaskeiðsins verða enn verri við áfengisneyslu

Áfengi getur í raun dúndrað mörgum einkennum breytingaskeiðs enn lengra upp í rjáfur og gert þau mun verri:

Hitakóf og svitaköst verða enn verri

Kvíði og depurð aukast

Svefninn fer út á tún með beljunum

Heilaþoka eins og að horfa á heiminn gegnum kókbotna

Endurheimt eftir æfingar versnar og frammistaðan ömurleg

Mataræðið verður sveittmeti

Þarmaflóran verður miður sín

Líkaminn verður skraufþurr“

Ragga segir að það sé þó engin ástæða til að gerast meðlimur í stúku og hengja sig á snúruna.

En ef áfengi er að hafa neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, hindra þig í að ná árangri í æfingum og mataræði, er óhjálplegt bjargráð við erfiðum tilfinningum, þá er allt í lagi að grufla í naflakuskið og mögulega endurskoða mynstrið.

Drekka minna og/eða sjaldnar.

Það má líka hætta í smá tíma meðan breytó er að ganga yfir og byrja aftur…. framleiðsla áfengis mun örugglega ekki hætta í millitíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Birgir fór á skeljarnar tveimur árum seinna en hann ætlaði sér – „Lífið er smá óútreiknanlegt“

Birgir fór á skeljarnar tveimur árum seinna en hann ætlaði sér – „Lífið er smá óútreiknanlegt“
Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – „Megi 2025 vera stútfullt af hlátri, skemmtilegum stundum og góðu kynlífi“

Vikan á Instagram – „Megi 2025 vera stútfullt af hlátri, skemmtilegum stundum og góðu kynlífi“