Söngkonan Jennifer Lopez er nú stödd í sumarfríi á Ítalíu án eiginmannsins Ben Affleck mitt í hringiðu slúðursagna um að hjónabandi þeirra sé lokið.
Á myndum sem People birtir og teknar voru í gær virðist Lopez þó njóta lífsins á hóteli í Positano, þorpi við kletta Amalfi-strandar suður-Ítalíu. Hún ásamt nokkrum vinkonum fóru í bátsferð á vatninu.
Lopez hefur áður sagt frá því að hún sé „ekki mikil frímanneskja“ en hefur talað um ást sína á Ítalíu.
„Þegar ég fór loksins að eyða nokkrum sumrum í röð á suðurhluta Ítalíu, elskaði ég það virkilega,“ sagði Lopez í viðtali við Travel + Leisure árið 2023.
Á sunnudag birti Lopez mynd af þeim hjónakornum í story á Instagram með orðunum „Hetjan okkar. Gleðilegan feðradag.“ Deginum varði eiginmaðurinn þó með fyrri eiginkonu sinni, leikkonunni Jennifer Garner, og börnum þeirra þremur.
Hjónin hafa búið aðskilið síðastliðnar vikur, Affleck í leiguhúsnæði nálægt börnum sínum og Lopez í draumahöllinni þeirra sem þau leituðu að í tvö ár áður en þau festu kaup á henni, 61 milljón dala setri í Beverly Hills í Kaliforníu. Húsið mun komið á sölu og uppsett verð er b 65 milljónir dala.
Heimildarmaður sagði Entertainment Tonight í síðustu viku að hjónin hafi „lifað aðskildu lífi“ en séu „ekki opinberlega aðskilin ennþá“.
„Á þessum tímapunkti eru þau bara að gera sitt eigið í sitt hvoru lagi. Þau fóru mjög bjartsýn inn í sambandið og héldu að hlutirnir gætu breyst, en þeir hafa ekki gert það.“
Daily Mail hafði eftir sínum heimildarmanni að Lopez telji sig búna að gera allt sem hún getur til að bjarga hjónabandinu. „Jenny er búin að fá nóg og hún reyndi virkilega en hún getur ekki meira, það lagast ekki, heldur verður verra.“
Hjónin hafa þó haldið samskiptum sínum á vingjarnlegum nótum og hafa mætt saman við fjölskylduviðburði. Þau mættu nýlega í útskriftarveislu sonar Affleck.