Þórdís Björk Þorfinnsdóttir söng – og leikkona og einn meðlima Reykjavíkurdætra átti krefjandi dag fyrir stuttu með fjölskyldunni.
Í bráðfyndinni færslu á samfélagsmiðlum segist hún ekki alveg hafa hugsað hlutina til enda þegar hún bókaði frí fjölskyldunnar til Ítalíu. Yngsti meðlimur fjölskyldunnar þurfti í passamyndatöku, fjögurra vikna dóttir Dísu og Júlí Heiðars Halldórssonar:
„Ég var ekki alveg búin að hugsa þetta til enda þegar ég bókaði alla fjölskylduna til Ítalíu en sú minnsta verður bara 6 vikna þegar við förum út. Þá er ég aðallega að meina vegna þess að það er bæði djöfullegt og nánast ómögulegt að reyna að ná passamynd af 4 vikna gömlu barni sem heldur ekki haus.
Þetta gekk svo illa hjá sýslumanninum (þrátt fyrir að ég, þrír mjög meðvirkir starfsmenn og tveir 6 ára guttar værum hoppandi og syngjandi eins og vitleysingar) að við enduðum á að fara hinu meginn við götuna í passamyndatöku. Það reyndist alveg jafn krefjandi. Júlí tók sig þó vel út í fermingarkirtlinum á meðan ég svitnaði líkamsþyngd minni. Ljósmyndarinn fann svo til með okkur að hann gaf okkur afslátt. Guð blessi hann.“