fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fókus

Óþjóðleg textabrot íslenskra skálda

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 17. júní 2024 15:30

Íslenski fáninn á Lögbergi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er þjóðhátíðardagur Íslands og víða um land hafa verið sungin ættjarðarljóð eins og Hver á sér fegra föðurland, Land míns föður og Ég vil elska mitt land. Ljóð þessi og önnur af sama tagi lýsa meðal annars ást á Íslandi og áréttingu um mikilvægi þess að standa vörð um það og efla dáð þess og vegsæld. Íslensk skáld hafa átt það hins vegar til að senda frá sér ljóð og lagatexta sem bregða ekki upp fagurri mynd af Íslandi eða helstu hetjum þess. Líklega myndu sumir að minnsta kosti kalla slíkan kveðskap óþjóðlegan. DV hefur tekið saman nokkur dæmi.

Matthías Jochumsson (1835-1920) skrifaði á sinni tíð ýmis ritverk, einna helst ljóð og leikrit. Þekktasta ljóð hans er án efa Lofsöngur en fyrsta erindi þess er eins og flestir Íslendingar ættu að vita þjóðsöngur Íslands. Ljóðið var upphaflega samið vegna þjóðhátíðar árið 1874 í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar en lagið við ljóðið samdi Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Umdeilt prýðisvel ort kvæði

Meira en áratug síðar sendi Matthías hins vegar frá sér ljóðið Volaða land þar sem lof og hlý orð í garð Íslands voru að mestu leyti spöruð. Samvæmt Braga, rannsóknarvefs Árnastofnunar, var ljóðinu fylgt úr hlaði í Lögbergi, blaði Vestur-Íslendinga sem gefið var út vestanhafs, árið 1888 meðal annars með eftirfarandi orðum:

„Þetta stórkostlega og prýðisvel orta kvæði, sem hér fer á eftir, var oss sent með síðustu póstferð frá Íslandi af höfundi þess, einum af hinum ágætustu gáfumönnum Íslands. Vér prentum það í blaði voru, ekki af því að oss virðist það vera sönn lýsing á Íslandi; kvæðið er hörmungar- og gremjuandvarp, en engin lýsing, En vér prentum það af því að kvæðið sýnir svo sorglega vel, næstum því svo áþeifanlega, í hverju rauna-skapi bræður vorir og systur á Norðurlandi eru um þessar mundir. Slíkt kvæði er ekki uppgerð. Bak við annað eins kvæði og þetta liggur margra ára stríð einstaklingsins, margra alda þjáningar þjóðarinnar.“

Eitt erindi ljóðsins hljóðar svo:

Drepandi land,
búið með kjark vorn og kjarna,
kúgandi merg þinna barna,
drepandi land!

Ljóðið var ekki merkt Matthíasi þegar Lögberg birti það en ljóðið vakti talsverðar deilur á Íslandi og í tímaritinu Eimreiðin var meðal annars skrifað:

„Eigi þessi forsmán að vera gaman, þá er það æði-grátt gaman, og það fengið í hendur „málgagni“, sem hefir að ætlunarverki að reyna að gera hér landauðn, ef auðið væri.“

Nakinn í rauðum slopp

Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Jónsson betur þekktur undir listamannsnafninu Megas hefur aldrei verið feiminn við að láta ýmislegt flakka í lagatextum sínum. Fyrstu plötu sína sendi hann frá sér árið 1972 og bar hún titilinn Megas. Meðal laga á plötunni er Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbarátta Íslendinga. Þar segir meðal annars í texta lagsins um þessa mestu sjálfstæðishetju Íslendinga:

Hann mátti ekkert aumt sjá það er staðreynd
og einatt gakk hann nakinn í rauðum slopp

Einnig segir í sama erindi lagsins að Jón hafi brúkað gylltan kopp.

Eflaust hafa einhverjir verið óánægðir með að slíkt orðfæri skuli hafa verið viðhaft um manninn sem Íslendingar minnast ár hvert á fæðingardegi hans 17. júní en ekki leið á löngu áður en Megasi var hrósað. Í grein í Vestfirska fréttablaðinu árið 1979 skrifaði Sigurður Jónsson menntaskólakennari meðal annars:

„Starf Jóns og stefnu er nauðsynlegt að skoða gagnrýnum augum í ljósi breyttra aðstæðna, en forðast að einblína á persónuna eins og heilaga kú. Hið nýja „þjóðskáld“ vort Megas má taka til fyrirmyndar hvað þetta varðar.“

Gættu þín mamma

Á þessari fyrstu plötu sinni dró Megas einnig dár að þjóðskáldinu ástsæla Jónasi Hallgrímssyni í texta lagsins Um skáldið Jónas:

Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas
og hraut

mamma komdu ekki  nálægt með nefið þitt fína,
það er nálykt af honum

gættu þín mamma, maðurinn hann er með sýfilis

Þessi orð eru meðal þeirra sem Megas notar til að lýsa þjóðskáldinu.

Páll Valsson sem ritað hefur ævisögu Jónasar ritaði í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 2007:

„Þótti trúbadúrinn ekki sýna þjóðskáldinu mikla virðingu og ég minnist þess að mörgum þótti hrein svívirða að Megas kæmist óvíttur upp með að draga upp þessa ömurlegu mynd af hinu ástsæla og hugljúfa skáldi Jónasi.“

Skítasker

Það hefur hlotið meira samþykki á undanförnum árum að kalla Ísland öllum illum nöfnum í textum laga og ljóða. Tiltölulega nýlegt dæmi um slíkan kveðskap er lagið Skítasker úr smiðju íslensku listamannanna Steinda jr., Redd Lights og Basic B sem kom út árið 2012. Það finnast ekki í fljótu bragði upplýsingar um höfund texta lagsins en hluti hans hljóðar svo:

Á Íslandi er svo kalt að tívólí-ið er inni

Þetta er skítasker
Meika ekki að vera hér
Trúðu mér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu