Fyrr í dag var birt á Vísi aðsend grein eftir Ingunni Sturludóttur. Ingunn segir að síðan 2020 hafi hún svarað á annað hundrað atvinnuauglýsingum og sótt um viðkomandi störf. Hins vegar hafi hún í mesta lagi fengið 10-11 svör við öllum þessum umsóknum og þar af verið boðuð í tvö viðtöl. Ingunn segir að í ljósi fjölbreytts starfsferils hennar sjái hún ekki aðrar skýringar á þessum takmarkaða áhuga á starfskröftum hennar en aldurinn en hún er á sjötugsaldri.
Ingunn segir að hún hafi árið 2020 flutt til Reykjavíkur eftir 25 ára búsetu á Vestfjörðum en þá hafi hún staðið á sextugu.
Ingunn segist alltaf hafa verið fús til vinnu enda hafi hún fyrst byrjað að vinna þegar hún var 9 ára gömul. Fyrsta starfið var að bera út blöð í Reykjavík. Þegar hún varð 10 ára fór hún að passa börn á sumrin þar til hún varð 12 ára en þó fór hún að vinna sem bensínstelpa á BSR.
Eftir starfið hjá BSR vann hún ýmis störf meðal annars við afgreiðslu, garðyrkju, lagerstörf og fleira.
Þegar á fullorðinsárin var komið fór Ingunn í söngnám og vann með fram náminu meðal annars við skrifstofustörf auk þess að syngja í kór og við ýmsar kirkjulegar athafnir.
Eftir framhaldsnám erlendis flutti Ingunn aftur til landsins og fór að kenna söng. Í kjölfarið kynntist hún manni sínum, Birni Baldurssyni bónda í Vigur og flutti þangað. Fram til 2004 sinnti Ingunn meðal annars barnauppeldi, bústörfum, ferðaþjónustu á sumrin og kenndi söng við Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Fjölskyldan flutti á Ísafjörð 2004 og hélt Ingunn þá áfram að kenna söng og varð síðan skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar í 7 ár þar til hún flutti suður 2020. Þar að auki kom söng hún á ýmsum tónleikum og í uppsetningum á óperum og söngleikjum.
Þegar á höfuðborgarsvæðið var komið bætti hún við sig námi í sálgæslu og hefur unnið hlutastörf við meðal annars söngkennslu en í maí byrjaði hún sem leiðbeinandi á leikskóla og er nú sem stendur í aðlögun.
Ingunn segir þó að sú ítarlega starfsferilskrá sem hún birtir í greininni sé ekki helsti tilgangurinn með henni heldur að velta upp þeirri spurningu hvers vegna manneskja á hennar aldri fær svo takmörkuð viðbrögð við öllum þeim fjölda atvinnuumsókna sem hún hefur lagt fram síðan 2020. Telur hún augljóst að aldur hennar hafi þar mikið að segja:
„Af hverju fær manneskja sem er komin yfir sextugt ekki starf já, eða allavega svei þér eftir vel á annað hundrað atvinnuumsóknir síðastliðin 4 ár? Manneskja sem vílar ekki fyrir sér að taka ýmislegt að sér. Manneskja með fulla starfsorku og sem finnst gaman að vinna?“
Hún segir þetta viðhorf gagnvart atvinnuumsóknum frá fólki á þessum aldri mein í íslensku samfélagi:
„Mannauði bara skutlað á haugana og fólki með fulla starfsorku og vinnuvilja jafnvel neytt á hinn samfélagslega spena.“
Að lokum veltir Ingunn því fyrir sér hvort að best hefði ekki verið fyrir hana að bjóða sig fram til forseta 1. júní, þá hefði hún að minnsta kosti fengið svar.
Grein Ingunnar í heild sinni er hægt að nálgast hér.