Flugfreyjan Rania frá Austurríki starfar sem flugfreyja hjá ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air. Rania er virk á samfélagsmiðlum, bæði Instagram og TikTok, þar sem hún birtir myndir frá ferðum sínum og alls konar ráð til ferðalanga.
Í einu myndbandi spyr hún fylgjendur sína hvort þeir viti hver raunveruleg ástæða þess er að flugfreyjur og -þjónar heilsa farþegum þegar þeir fara um borð: „Það er ekki bara vegna þess að við erum kurteis.“
Rania segir að flugfreyjur og -þjónar séu beðnir um að segja halló við hvern farþega svo þeir geti metið hvort þeir séu flughæfir. Að fljúga veikur eða drukkinn hefur í för með sér ákveðna heilsufarslega hættu sem getur valdið truflunum og haft áhrif á öryggi allra um borð.
‘Vissir þú að flugfreyjan þín heilsar þér ekki bara af kurteisi heldur líka til að athuga hvort þú sért of drukkinn eða veikur til að fljúga?’
„Þetta er líka til gert til að við getum metið hvaða farþegi eða farþegar geti hjálpað okkur í neyðartilvikum,“ segir Rania sem segir flugfreyjur og -þjóna þjálfaða í að leita að ABP farþegum
(e. able-bodied persons). ABP eru helst þeir sem ferðast einir, eru ekki með hreyfivandamál, geta talað ensku (eða heimatungumálið) og líta út fyrir að vera nógu sterkir til að geta opnað neyðarhurðir.
„Þannig að þetta er ástæðan fyrir því að þeir stara allir beint inn í sál mína um leið og ég stíg fæti upp í flugvélina,“ sagði einn í athugasemd. „Ég segi alltaf við þau að ég sé hjúkrunarfræðingur, þeir eru svo þakklátir fyrir það,“ skrifaði ein kona í athugasemd.