Þorvaldur Kári Kristjánsson er fimmtán ára gamall og býr á Svalbarða, nyrstu byggð jarðar. Að eigin frumkvæði sótti hann um starfsnám í síðustu kolanámunni á eyjunum. Þetta var einstakt tækifæri fyrir hann og því var um að gera að grípa gæsina.
„Þetta er síðasta kolanáma Noregs og hún verður að öllum líkindum lögð niður á næsta ári, og þar með síðasti séns að fá að upplifa þetta,“ segir Þorvaldur. „Mig langaði líka að vinna við líkamlega erfiða vinnu og gera eitthvað krefjandi.“
Þorvaldur er í níunda bekk í grunnskólanum í Longyearbyen. Það er nyrsti bær heimsins, aðeins um 1.300 kílómetrum frá norðurpólnum.
„Á vorönn eigum við nemendurnir að sækja um og vera í vinnu í eina viku. Ég sótti um í námunni og fékk starfið,“ segir Þorvaldur.
Náman heitir Gruve 7 (Náma 7) og er í Adventdalen, um 10 kílómetrum utan við bæinn. Náman er í eigu Store Norske Spitsbergen Kulkompani og var opnuð árið 1966.
„Ég fékk mismunandi verkefni gegnum alla vikuna, og var mest að vinna eins og vélvirki,“ segir Þorvaldur aðspurður um verkefnin. Þau voru mjög fjölbreytt. „Ég var t.d. að saga stálbolta sem eru notaðir inni í námunni til að tryggja að þakið hrynji ekki niður á meðan verið er að grafa út kol. Var líka að aðstoða við að setja kúpling inn í rafal, og hjálpa bifvélavirkja við að laga námubíl, m.a. að rafsjóða.“
Einn daginn fór Þorvaldur niður á höfnina til að aðstoða við undirbúning móttöku hollensks kolabáts, meðal annars með því að smyrja kranann. Svo fylgdist hann með þegar kolin voru fröktuð yfir á bátinn.
„Síðasta daginn fékk ég að fara inn í sjálfa kolanámuna, 8-9 kílómetra inn í fjallið, og fékk að fylgjast með starfinu; t.d hvernig kolin eru brotin úr fjallinu, bæði undirbúningur og sjálf vinnslan, hvernig efninu var fraktað á færibandi út úr fjallinu og hvernig örygginu er háttað, til að minnka líkur á sprengingum,“ segir hinn ungi ævintýramaður.
Sjötíu manns vinna í námunni á dag og næturvöktum. Náman er starfhæf allan sólarhringinn. Þetta er vinna sem tekur verulega á.
„Það var erfitt, en samt gaman,“ segir Þorvaldur. „Maður þurfti að nota líkamann mikið, lyfta þungum hlutum og beygja sig mikið þegar við erum inni í kolanámunni, því þar er ekki hægt að standa upprétt. Ég var mjög þreyttur eftir vinnudaginn.“
Flestir Íslendingar þekkja aðeins kolanámur úr bíómyndum og þáttum. Sjá menn sem vinna baki brotnu í svörtu sótinu með litla ljóstýru í sífelldri hættu á hruni. Þorvaldur segir það engar ýkjur að þetta sé skítug vinna.
„Koladuftið fer út um allt, bak við eyrun og inn í nefið, og ég kom heim alveg svartur í framan,“ segir hann. „Margir líta út eins og þeir séu með maskara, og mjög erfitt að fá hendurnar og neglur hreinar eftir vinnudaginn.“
Í Longyearbyen búa um 1.800 manns. Fyrir utan tæplega 500 íbúa rússneskan bæ sem kallast Barentsburg er lítil önnur byggð á eyjaklasanum.
Áður fyrr var Svalbarði miðstöð hvalveiða og námuvinnsla var umsvifamikil, bæði hjá Norðmönnum sem fara með forræði yfir Svalbarða samkvæmt Svalbarðasáttmálanum og Sovétmönnum. Í dag er þar rekinn háskóli og nokkuð blómlegur ferðamannaiðnaður.
Eins og gefur að skilja er afar kalt á Svalbarða. Yfir vetrarmánuðina er hitinn gjarnan í tveggja stafa frosttölum. Yfir heitustu mánuðina í júlí og ágúst má fólk búast við kannski fimm stiga hita. Frá miðjum nóvember fram í miðjan janúar sést ekkert sólarljós en yfir hásumarið sest sólin ekki.
Þorvaldur hefur búið í Longyearbyen með foreldrum sínum og yngri bróður í næstum sjö ár. Hann segist ekki vera búinn að ákveða hvað hann ætlar að læra og starfa við í framtíðinni. Það sé hins vegar rosalega fínt að alast upp á Svalbarða.
„Þetta er mjög öruggt umhverfi, allir þekkja alla og auðvelt að eignast vini,“ segir hann. „En núna í níunda bekk finnst mér samt eins og Longyearbyen sé að verða svolítið lítill. Það sem er samt leiðinlegt er að margir búa hér í stuttan tíma, og það eru margir vinir búnir að flytja til baka á meginlandið.“
Svalbarði er stórt svæði en langstærstur hlutinn eru óbyggðir. Þorvaldur segir að það séu aðeins um 40 kílómetrar af gatnakerfi á eyjunni sem þau búa á. Ýmislegt sé hins vegar hægt að bralla, sérstaklega í útivist
„Samfélagið er duglegt að búa til upplifanir fyrir okkur sem þykja kannski óvenjulegar. Eins og t.d. hreindýra- og rjúpnaveiðar, langar fjallgöngur, bústaðaferðir, tjaldútilegur, bátsferðir og fleira,“ segir hann. „Maður venst veðrinu fljótt, en stundum kemur það á óvart þegar það byrjar að snjóa á sumrin. Stundum aðeins of kalt, sérstaklega þegar það er orðið meira en mínus 20,“ segir Þorvaldur.
Helst fá Íslendingar fréttir af Svalbarða þegar ísbirnir eru á kreiki nálægt mannabyggð. Þorvaldur segir hins vegar að það sé ekki mjög algengt.
Nei, frekar ólíklegt að þeir koma nálægt bænum, hef bara upplifað það nokkrum sinnum, og í góðri fjarlægð,“ segir hann. „En ef við erum fyrir utan bæinn, þá eru líkurnar meiri á að mæta ísbirni, og það þarf alltaf einhver að vera með vopn. Í einni bátsferðinni með skólanum í haust sáum við 4-5 ísbirni í sömu ferð.
Aðspurður um félagslífið hjá krökkunum í Longyearbyen segir Þorvaldur það vera gott.
„Já, við erum 30 í bekknum mínum, líklegast stærsti bekkurinn í skólanum, og mörg okkar erum búin að búa hér lengi, þannig að við þekkjumst vel. Gott félagslíf,“ segir hann.
Þorvaldur segir ýmislegt erfitt við að búa á Svalbarða. Svo sem að missa vini sem flytja í burtu, það sé engin verslunarmiðstöð og lítið af stöðum til að hanga með vinum sínum. Svo getur verið erfitt að sofa á sumrin þegar miðnætursólin skín. En heilt yfir er gott að alast upp á Svalbarða.
„Bara gott að alast upp hérna. Náttúran. Vinirnir. Keyra snjósleða,“ segir hann að lokum.