fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Ragnhildur með mikilvæga áminningu – Ekki segja alltaf já

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 21. maí 2024 22:30

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, vekur athygli á því að það er ekki bara annað fólk sem getur vanvirt mörk okkar. Sjálf eigum við oft erfitt með að standa með sjálfum okkur og tjá tilfinningar.

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mannamáli hafa slegið í gegn um árabil.

„Það er ekki bara annað fólk sem getur vanvirt mörkin okkar.

Við getum sjálf algjörlega tætt niður girðinguna sem við höfum sjálf tjaslað upp til að vernda eigin orku.

Alltof oft eigum við erfitt með að standa með sjálfum okkur og tjá tilfinningar.

Það er oft afleiðing af að hafa verið gaslýst og ekki fengið öruggt rými fyrir að upplifa allt tilfinningarófið.

Alltof oft erum við marineruð í manneskjugeðjun og segjum JÁ við öllum mögulegum verkefnum.

Þó að við höfum ekki nanósekúndu né orkudreitil aflögu.

Alltof oft biðjum við ekki um aðstoð þó To-do listinn sé eins og óhreinatauskarfan sem tæmist aldrei.

Því við viljum ALLS EKKI vera byrði og vesen fyrir aðra,“ segir Ragga. 

Mynd: Facebook-síða Röggu nagla

Ragga segir að alltof oft eyðum við of miklum tíma með óþægilegu fólki sem er á sjálfshátíð og mergsýgur taugakerfið okkar.

„Því „þau eru nú fjölskylda, gamall vinur, eiga enga vini….“ eða einhverjar aðrar réttlætingar fyrir að við eyðum batteríinu í óþægilegar samverustundir.

Alltof oft setjum við okkar eigin sjálfsrækt í saltpækil til að þjónusta aðra.

Sleppum ræktinni til að skutla. Gleymum að borða í stresskasti. Frestum hittingum því við höfum ekki orku. Leitum ekki til fagaðila því það er bruðl. Förum ekki í nudd, andlitsbað eða annað dekur því það er tímasóun.

En alltaf með sjálfsræktarsamviskubit þegar við loksins heiðrum þessa þörf.

Þegar við vanvirðum okkar eigin mörk hefur það í för með sér útspýtt taugakerfi, svefnleysi, kulnun og loks örmögnun.

Við upplifum kvíða, pirring, gremju, óréttlæti og vonleysi.

Eins og útspýtt hundsskinn.

Okkur finnst við vera lítil og krumpuð.

Vanrækt og ósátt.

Þitt starf á þessari jörð er ekki að forðast að valda öðrum vonbrigðum með að segja alltaf JÁ eða haga þér á skjön við innri prinsipp.“

Ragga segir góðu fréttirnar séu þær að við höfum valdið til að breyta hegðunarmynstrinu.

„Heilinn býr til nýjar taugabrautir því oftar sem við bregðumst við á nýjan máta. 

Áttaðu þig á muninum á hvenær þú vilt í alvörunni gera eitthvað fyrir einhvern af einskærri góðmennsku og hvenær þú ert að þóknast og geðjast til að stýra áliti hans á þér.

Hlustaðu á tilfinningarnar þegar þú vanvirðir eigin mörk, því þær eru bestu upplýsingarnar um hvort við þurfum að passa mörkin betur fyrir okkur sjálfum, og bregðast öðruvísi við.

Að henda eigin þörfum og löngunum í arininn og horfa á þau fuðra upp er ekki hetjudáð.

Þú færð ekki Fálkaorðuna fyrir að vanrækja eigin þarfir eins og uppþornaðan kaktus í stofuglugganum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024