Bókin Öðruvísi, ekki síðri, eftir Chloé Hayden kom nýlega út, en bókin er gefin út í samstarfi við Einhverfusamtökin. Bókin hefur slegið í gegn víða um heim. Hayden sem fædd er 1997 er margverðlaunuð áströlsk leikkona, fötlunaraktívisti, fyrirlesari og áhrifavaldur. Chloé hefur meðal annars leikið í vinsælli endurgerð sjónvarpsþáttanna Heartbreak High.
Þegar Chloé Hayden var lítil fannst henni hún hafa brotlent á framandi plánetu þar sem hún skildi ekki neitt í neinu. Út á hvað gekk augnsamband? Og kurteisishjal? Og af hverju vildi fólk alltaf vera að snertast? Hún gekk í tíu skóla á átta árum og var að lokum greind einhverf og með ADHD. Það var ekki fyrr en hún kynntist fólki í sömu sporum að hún áttaði sig á því að hún var ekki síðri þótt hún væri öðruvísi og fann rödd sína og farsæld í lífinu.
Hér er á ferðinni hjartnæm og oft bráðfyndin frásögn af því hvernig það er að vera skynsegin. En þetta er líka gagnleg handbók um það hvernig best er að takast á við tilveruna þegar hún verður manni um megn. Hvort sem þú ert skynsegin eða vilt styðja þau sem eru það, er Öðruvísi, ekki síðri hvetjandi lesning sem brýnir okkur til að skapa samfélag þar sem er pláss fyrir alla.
Hvað er að vera skynsegin?
Taugsegin eða skynsegin (e. neurodivergence) er regnhlífarhugtak sem vísar til heilastarfsemi fólks sem er ekki álitin týpísk eða hefðbundin. Þau sem eru skynsegin þurfa oft að leggja sig meira fram til að geta liðið vel, þar sem heilar þeirra eru viðkvæmari fyrir ytra áreiti og krefjast meiri orku í að vinna úr áreitinu. Sjónrænt áreiti, hljóð, áferð, lykt og bragð geta valdið streitu, meðvitað og ómeðvitað.
Hér er að neðan er einn kafli úr bókinni sem fjallar um af hverju skynsegin einstaklingar eigi að finna neistann sinn.
AF HVERJU ÞIÐ EIGIÐ AÐ FINNA NEISTANN YKKAR
Sérstöku áhugamálin okkar eru miklu meira en sérviskuleg þráhyggja eða skemmtilegt tómstundagaman. Þau eru grundvallarþáttur í tilvist okkar og geta breytt lífi okkar gagngert og á jákvæðan hátt þegar við nærum þau, virðum þau og hlynnum að þeim. Hér koma nokkur atriði sem neistarnir ykkar geta fært ykkur.
Starfsferill
Margt skynsegin fólk fær sér vinnu og gengur vel á starfsvettvangi sem fellur vel að sérstöku áhugamálunum þeirra. Það eru góðar líkur á að ykkur gangi vel þegar þið starfið við eitthvað sem þið njótið.
Vinátta
Þótt skynsegin börn eigi oft erfitt með að eignast vini við dæmigerðar aðstæður er þátttaka í hópum, félögum og viðburðum sem tengjast áhugamálum þeirra frábær leið til þess í senn að eignast vini og koma sér upp félagsfærni.
Minni streita
Þegar þið sinnið sérstaka áhugamálinu ykkar framleiðir heilinn dópamín svo að þið fáið betri jarðtengingu og verðið rólegri.
Aukin lífsleikni
Að sinna sérstökum áhugamálum og fræðast um þau getur aukið lífsleikni okkar gríðarmikið – ekki endilega bara tengt áhugamálunum heldur líka félagslega.
HVERNIG ÞIÐ FINNIÐ NEISTANN YKKAR
Neistinn sem tendrar blikið í augum okkar er okkur eðlislægur – hann er hluti af okkur sjálfum og oft vitum við frá unga aldri nákvæmlega hver hann er. Stundum þurfum við samt að leggja dálítið á okkur til að uppgötva hann.
Spyrjið fólkið í kringum ykkur
Stundum getur verið erfitt að kalla fram blik í augum, ekki síst í heimi þar sem hæfileikar okkar, yndi og áhugamál verða oft fyrir aðkasti eða er vísað á bug, svo að við bælum þau niður eða gerum lítið úr mikilvægi þeirra og snilld. Spyrjið fólkið næst ykkur hvað það haldi að kveiki blikið í augum ykkar. Ég er handviss um að þau vita svarið. Þau þekkja ykkur kannski betur en þið þekkið ykkur sjálf.
Prófið hitt og þetta
Gangið í félög, skoðið klúbbana í skólanum, finnið kennslusíður á netinu. Látið eftir ykkur að prófa hitt og þetta og vitið hvort eitthvað hittir í mark. Þið gætuð fundið eitthvað sem verður ykkur kært, hæfileika eða ánægju sem þið bjuggust ekki við.
Ekki vera ströng við ykkur sjálf
Það tók Beethoven mörg ár að semja margar af sinfóníunum sínum. Leonardo da Vinci var í mörg ár að mála Monu Lisu. Notre Dame var 180 ár í byggingu. Neistinn ykkar þarf ekki að verða ykkar helsti styrkur á einni nóttu … eða yfirleitt nokkurn tímann. Takið ykkur tíma og ekki vera of ströng við ykkur sjálf. Gerið það sem þið gerið bara til að njóta þess.
Af hverju hafið þið yndi?
Neistinn sem kveikir blikið í augunum þarf ekki að þýða að þið getið spilað verk eftir Mozart fjögurra ára gömul eða að þið hafið ofurmannlega þekkingu á efnafræði eða að þið séuð langtum betri málarar en Picasso. Af hverju hafið þið yndi? Hvað finnst ykkur mest gaman að lesa? Hvað kemur hjarta ykkar til að syngja? Um hvað getið þið talað klukkustundum saman og aldrei orðið þreytt á því?
Kannski hafið þið yndi af að byggja úr Lego-kubbum eða skapa heim í Minecraft eða lesa allar bækur, framhaldsbækur og „fan-fiction“ byggðar á ákveðinni bókaröð. Kannski elskið þið dýr eða bíla eða skapandi skrif. Yndið ykkar þarf ekki að vera nýstárlegt til að vera dásamlegt.
Allt sem kemur hjarta ykkar til að syngja kallar fram bjartasta blik í heimi í augum ykkar.