fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

„Samhliða því að reyna að finna gullmolana í drullusvaðinu sem ég var stödd í“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 15. maí 2024 10:30

Una Torfa Mynd: Kaja Sigvalda

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Una Torfadóttir tónlistarkona sprakk heldur betur út í byrjun árs 2022 með laginu Fyrrverandi sem varð eitt vinsælasta lagið á Íslandi. Hún hefur síðan glatt landsmenn með fallegri tónlist sinni og textum. Una ræðir við Einar Bárðarson í hlaðvarpinu Einmitt, um tónlistaruppeldið, áskorunina að greinast með heilakrabbamein aðeins tvítug og hvernig hún hefur gert upp líf sitt á einlægan hátt í gegnum tónlist sína, með fallegri áferð kærastans Haffa. 

Una fékk tónlistaráhugann með genunum því foreldrar hennar, Svandís Svavarsdóttir og Torfi Hjartarson, kynntust í Dómkórnum og spila bæði á hljóðfæri. Öll systkini Unu spila einnig og syngja og eru alin upp við mikinn söng og tónlist. „Ég lærði á klarinett sjö ára og spilaði með lúðrasveit. Mínir hæfileikar voru á þó öðru sviði en að læra á nótur og ég spreytti mig á gítar og píanó eftir eyranu.“

Undir áhrifum Ed Sheeran og Taylor Swift

Á táningsárum hlustaði Una mikið á Taylor Swift og Ed Sheeran og segir þau hafa haft mikil áhrif á hvernig hún mótaði eigin tónlist. „Ég var mjög hugfangin af tónlist Ed Sheeran því hann var bara söngvaskáld með gítar og náði mjög langt þannig. Það var hvatning fyrir mig. Ég hlustaði einnig mikið á textasmíði og melódíur Taylor Swift og fannst bæði aðdáunarvert og áhugavert hvað hún var óhrædd við að fjalla um sjálfa sig. Í dag er hún stærsti tónlistarmaður í heimi og margar tónlistarkonur eru undir áhrifum frá henni. Hún skammast sín ekkert fyrir að yrkja um sínar tilfinningar. Ég er þakklát fyrir að þessar fyrirmyndir voru til staðar fyrir mig.“  

Fékk krabbamein á fyrsta ári í LÍ 

Sem barn og unglingur gekk Una í Melaskóla og kláraði Hagaskóla. Strax þá var hún farin að semja tónlist og leikfélagið Herranótt var aðalástæða þess að hún valdi í kjölfarið MR. Þar lauk hún stúdentsprófi á þremur árum og leiðin lá í Leiklistarskólann á sviðshöfundabraut. Sumarið eftir fyrsta árið þar greindist Una með heilakrabbamein. Hún fór í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt og í kjölfarið gekk hún í gegnum lyfja- og geislameðferð. „Svo þegar haustið kom fór ég í lengri lyfjameðferð samhliða skólanum. Í nóvember var það orðið mér ofviða vegna andlegu hliðarinnar sem mikið er unnið með í náminu. Það dró mig niður en hjálpaði mér að skilja að ég var ekki tilbúin í svona mikið álag og ég sagði skilið við skólann og var heima á vormisserinu.“

„Ég reyndi að finna gullmolana í drullusvaðinu“

„Þar hlúði ég að andlegu hliðinni og gaf áfallinu plássið sem það þurfti, samhliða því að reyna að finna gullmolana í drullusvaðinu sem ég var stödd í.“ Una hitti sálfræðing vikulega, fylgdi innsæinu og segir þetta hafa verið mikilvægan tíma, þar sem hún gat 

unnið úr því sem hafði haldið aftur af henni fyrir veikindin. Una viðurkennir að á tímum sem slíkum hafi hún áttað sig á hversu heppin hún er með fólkið í kringum sig. 

Í áfalli verður allt sem er gott betra og allt erfitt erfiðara

„Við mamma höfum talað um það að í miðju áfalli verði allt sem er gott enn þá betra og allt sem er erfitt verður erfiðara. Við erum ótrúlega lánsöm í fjölskyldunni að vera miklir vinir og stuðningur fyrir hvert annað. Það er skrýtið að vera kippt úr eðlilegu hugarástandi og daglegu amstri og minnt á hvað lífið er brothætt. Bæði átakanlegt en mikilvæg hvatning um að vera þakklát og hugrökk. Maður fær tækifæri til að skapa líf sem veitir manni hamingju. Það eru alltaf margar leiðir til að líta á hlutina.“  

Glæný plata og tónleikar með Sinfó

Í lok apríl kom út fyrsta stóra plata Unu, Sundurlaus samtöl. Einar segir plötuna verulega vandaða á allan hátt og hvert lag sé með sitt pláss. Á henni eru 12 ný lög sem urðu til á árunum 2016 til 2024. Una samdi öll lög og texta, ýmist á píanó eða gítar. „Hafsteinn Þráinsson, kærastinn minn, er upptökustjóri plötunnar. Hann sýndi mikla nærgætni og áhuga á yrkisefninu hverju sinni og hugarástandinu sem ég var í á hverjum tíma. Það var svakalega gott að hafa hann með mér í þessu. Hann gaf svo mikið af sér í sinni sköpun og ég er svo ánægð með að við gerðum þetta saman.“

Framundan er sumar með mörgum viðburðum og tónleikar með Unu og Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem fallega tónlistin hennar fær að óma. „Ég hef átt mörg áhugamál sem ég hef tekið alla leið en fengið leið á að lokum. Ég hef hins vegar alltaf sóst í að læra það sem mér finnst skemmtilegt og tónlistin er eina áhugamálið sem hefur ekki svikið mig og ég hef aldrei fengið leið á henni,“ segir Una kát með lífið.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“