fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Kári útskýrir af hverju hann er ekki í stjórnmálum – „Ertu vitlaus drengur?“

Fókus
Mánudaginn 13. maí 2024 11:17

Kári Stefánsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson segist lesa góða bók eða fara á sinfóníutónleika til að komast í annarlegt ástand. Kári, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir í þættinum að það skorti kærleika í samfélagið okkar og veltir fyrir sér hvort við höfum villst af leið. Hann og Sölvi ræða einnig hugvíkkandi efni í þættinum, sem Kári segir enga töfralausn.

„Hugvíkkandi efni eru spennandi og mjög skemmtilegt fyrirbæri og það verður gaman að sjá frekari rannsóknir á þeim. Þessi efni virðast virka eins og einhvers konar „reboot“ á heilanum. Svo er spurningin hvort að það hafi jákvæð áhrif til lengri tíma. Mér úr fjarlægð sýnist ekki í fljótu bragði. Ég í það minnsta hef séð fullt af fólki sem hefur tekið mikið af hugvíkkandi efnum og komið út sem sömu bölvuðu óþverrarnir og áður en þau fóru af stað í þá vegferð,“ segir Kári.

„Þetta breytir ekki persónuleikanum í grundvallaratriðum. En það getur verið mjög gott fyrir þá sem eru fallega innstilltir að nota þessi efni til að sjá meira og finna eitthvað nýtt. Ég hins vegar nenni því ekki og læt mér duga að lesa góða bók eða fara á sinfóníutónleika. Ég fer í annarlegt ástand af því og kem út sem betri maður. Ég trúi því að fegurðin í lífinu geti breytt okkur og fært okkur inn í meiri kærleika. Mér finnst okkar tími núna markast af skorti á kærleika í samfélaginu. Það vantar upp á að við látum kærleika gagnvart náunganum stýra því sem er að gerast í samfélaginu almennt. Ég átta mig ekki á því hvernig það átti sér stað að kærleikurinn fór að hverfa úr samfélaginu. Meira að segja innan þjóðkirkjunnar eru menn að berja hvor á öðrum af mikilli grimmd,” segir hann og talið berst að guði og trúarbrögðum:

„En kannski er þetta eðlilegt ef við horfum á það þannig að kirkjan byggi á kristinni trú, sem byggir á því að það sé til almáttugur guð. Ef hann væri til, hvað er að honum? Hvers konar „motherfucking“ óþverri væri þessi guð ef hann er til. Að láta börn í tugþúsundavís deyja á Gaza. Guði sé lof þá er enginn guð til. Annars væri þetta óheft helvíti. Það er enginn annar guð til í þessu lífi en sá guð sem lifir inni í sjálfum þér. Mín endurholdgun liggur bara í börnunum mínum. Það er engin önnur endurholdgun til. Sálin heldur áfram í afkvæmunum og þú ert hluti af þeirri hópsál. Mannskepnan er ekkert öðruvísi en aðrar skepnur þessarar jarðar. Við fæðumst og svo deyjum við og okkar tími er afskaplega takmarkaður. Og það er bara fínt.”

Kári Stefánsson íslensk erfðagreining decode

„Það eru til örlög sem eru verri en dauðinn“

Kári segist ekkert botna í því að íslensk stjórnvöld hafi tekið þátt í vopnakaupum fyrir Úkraínu. Hann segir að allir eigi að leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að stríðsrekstri sé hætt og að það sé nákvæmlega ekkert sem réttlæti dráp á börnum og ungmennum.

„Það eru til örlög sem eru verri en dauðinn, en það er ekki ásættanlegt að fleiri og fleiri ungir Úkraínumenn og Rússar deyi í þessu stríði árið 2024. Og mér finnst það dapurlegt þegar íslenska ríkið fer að styðja Úkraínumenn með því að hjálpa þeim að kaupa skotfæri. Mér finnst það brjóta í bága við það friðsemdarprinsip sem við höfum haldið í í gegnum árin. Það er hægt að styðja við Úkraínumenn með svo mörgum öðrum leiðum. Fólk fellur í þá gryfju að flokka þetta eftir flokkspólitík og hægri og vinstri, en við verðum að hefja okkur yfir það. Það að Ísland taki þátt í stríði með þessum hætti stangast á við rótgrónar hugmyndir um að við eigum ekki að vera með með her eða taka þátt í stríðsrekstri,” segir Kári og heldur áfram:

„Ein af ástæðum þess að það vakti ekki meiri athygli og hneykslun að við værum að taka þátt í vopnakaupum er að fjölmiðlarnir á Íslandi eru orðnir svo veikir. Við erum með eitt dagblað og lítið af sterkum ljósvakamiðlum. Blaðamannastéttin er orðin fámenn. Ef við værum með sömu fjölmiðlaflóru og við vorum með fyrir 30 árum hefði þetta orðið mjög stórt mál.”

Heldur fyrir honum vöku

Kári segir að stríðið í Úkraínu og svo það sem er að gerast á Gaza haldi fyrir sér vöku og að það sé ekkert sem réttlæti svo mikið dráp á fólki og ekki síst börnum.

„Svo byrjar annað stríð sem er jafnvel enn furðulegra og enn ógeðfelldara í mínum huga. Það byrjar auðvitað með gífurlega ógeðfelldri árás Hamas á Ísrael sem var ógeðsleg á takmarkalausan máta. Það er erfitt að ímynda sér það hugarástand sem þeir eru í sem fremja slíka árás. En svo bregðast Ísraelsmenn við með því að taka þá ákvörðun að þeir ætli að drepa alla Hamas-liða, sama hvað það kostar. Ef við horfum til þess hvað það hefur kostað í dag, þá eru þeir búnir að drepa svona 17 þúsund börn. Og það er ekkert til í heiminum sem réttlætir það að drepa 17 þúsund börn. Ég tek það fram að margir af mínum bestu vinum eru gyðingar og gyðingar eru á margan hátt mitt uppáhaldsfólk. En það er nákvæmlega ekkert sem réttlætir þessar aðgerðir. Það er bara bull að Ísland standi ekki af fullum þunga á bakvið það að gerð sé krafa um vopnahlé strax. Við verðum að kalla eftir vopnahléi í stríði sem er að valda dauða þúsunda barna. Við getum ekki flokkað svona hluti eftir pólitískum línum.”

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar Mynd:Valli

Ósáttur við vinstri stjórnmálaöfl á Íslandi

Þegar Sölvi spyr Kára út í hergagnaiðnaðinn og hvort það séu ekki öfl sem hreinlega vilji þessi stríð og vilji halda þeim sem lengst segist hann vissulega sammála því að hergagnaiðnaðurinn reyni að hafa áhrif. En hann vill ekki trúa því að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu undir hælnum á þeim iðnaði.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að hergagnaiðnaðurinn hefur reynt að hafa mikil áhrif á þetta og það er engin spurning um að hergagnaiðnaðurinn fitnar eins og púkinn á fjósbitanum í öllum þessum stríðum. En ég held innst inni að það geti ekki verið rétt að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu að reyna að ýta undir þessi átök. Ég vil ekki trúa því að Bandaríkjunum sé stjórnað af fólki sem vill að þessir hræðilegu hlutir séu að gerast.”

Kári segist ósáttur við vinstri stjórnmálaöfl á Íslandi, sem hann segir hafa brugðist hlutverki sínu. Að berjast fyrir þá sem minnst mega sín:

„Við erum ekki að tala almennilega máli þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Vinstri flokkarnir eru hættir að vera rödd þeirra sem þeir eiga að berjast fyrir. Það er kominn tími til að búa til nýtt stjórnmálaafl sem raunverulega berst fyrir þeim sem minna mega sín. Og hvaða fólk er það? Meðal annars 25 þúsund Pólverjar. Hvað á það að þýða að hunsa þá eins og við gerum. Fjölmiðlar sýna þessum hóp og þeirra menningu nánast engan áhuga. Ég fer í ræktina nánast daglega uppi í Ögurhvarfi í líkamsræktarstöð þar sem við sem fæddumst á Íslandi erum í minnihluta. Þar koma mjög reglulega til mín menn sem leita til mín af því að þeir fá ekki heilbrigðisþjónustu. Ég hef endað á því að verða heimilislæknir fyrir stóran hóp Pólverja sem æfa í World Class í Ögurhvarfi. Við verðum að sinna þessu fólki almennilega og gera miklu miklu betur.”

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Framtíð íslenskrar tungu

Annað sem Kári kemur inn á þættinum er framtíð íslenskrar tungu. Hann telur það tilgangslaust að reyna að stemma stigu við notkun ensku.

„Fólk hefur áhyggjur af því að tungumál barnanna okkar sé orðið of enskuskotið og fær kvíðakast yfir því. Mín afstaða er eftirfarandi. Við lifum á tímum þar sem bæði börn og fullorðnir í okkar landi lifa í tveimur heimum. Annars vegar á internetinu og hins vegar í raunverulegu lífi. Tungumálið á internetinu er enska. Þar tekst íslenskt fólk á við alþjóðlegan heim og sýnir ef það hefur eitthvað fram að færa. Ég held að það sé gífurlega mikilvægt að við letjum ekki íslensk börn til að nota ensku, af því að ef við gerum það verða þau alveg ,,lost” í netheimum. Þetta er heimur sem heldur áfram að vera til og enska gegnir núna því hlutverki sem Esperanto átti að gegna á sínum tíma. Leiðin til að varðveita íslenskuna er að hugsa um hana eins og gersemi inni í stofu hjá okkur. Við eigum að ætlast til þess að þegar menn noti hana þá geri þeir það rétt, en við eigum ekki að krefjast þess að það sé verið að nota hana þegar það á ekki við.”

Hvað með stjórnmál?

Í lok þáttarins er Kári spurður út í það hvort hann hafi aldrei íhugað að fara í stjórnmál:

„Nei, nei nei. Ertu vitlaus drengur? Nú verð ég að endurtaka mig og segja: „Hvað á það að þýða að spyrja mig að þessu drengauli,““ segir Kári og hlær og heldur áfram:

„Nei ég vil alls ekki missa það frelsi sem fylgir því að þurfa ekki að taka beinan þátt í íslenskri pólitík. Ég hef ofboðslega gaman að vinnunni minni. Ég vinn við einhvern mesta lúxus sem hægt er að hugsa sér. Ég er í vinnu þar sem við erum á hverjum degi að vinna að því að gera uppgötvanir um eðli mannsins.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Kára og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“