Dularfull fótspor og óskýrar ljósmyndir. Þetta eru helstu einkennismerki næsta viðfangsefnis félaganna í hlaðvarpinu Álhatturinn en að þessu sinni skoða þeir þekkta goðsögu – að til sé eins konar týndur hlekkur manns apa sem nefnist Stórfótur.
Mörgum sögum fer af fólki sem er sannfært um að hafa rekist á þessa dularfullu veru. Fyrir einhverjar sakir virðast þó allar tegundir myndavéla eiga sameiginlegt að detta úr fókus þegar til stendur að mynda veruna.
Stórfótur mun vera á þriðja eða fjórða metra á hæð og loðinn um allan líkamann. Hann gengur á tveimur fótum og heldur sig gjarnan í skóglendi. Hann er sérstaklega þekktur í Bandaríkjunum og enda tækifæri fyrir smábæi að stórfótur hafi heimsótt héraðið þar sem þá er von á straumi fólks í ævintýraleit sem ætlar að sanna tilvist verunnar.
Á sjötta áratug síðustu aldar vakti stórfótur athygli í fjölmiðlum Bandaríkjanna þegar Humboldt Times birti frétt með fyrirsögninni: Risastór fótspor valda íbúum heilabrotum. Blaðið gaf verunni nafnbótina sem átti eftir að fylgja henni framvegis – Stórfótur. Síðar kom reyndar á daginn að um hrekk var að ræða. En hrekkjalómurinn, Ray Wallace, var ekki afhjúpaður fyrr en eftir að hann lést árið 2002 en þá þótti börnum hans rétt að opinbera að um var að ræða grín sem gekk of langt. Smithsonian rakti í grein í tilefni af 60 ára afmæli hrekksins, að líklega heillist fólk af sögunni um stórfót því hann á að vera mannleg vera sem lifir algjörlega frjáls undan oki og kröfum samfélagsins. Þeir leiti stórfótar sem þrá þetta sama frelsi.
Álhatttar velta goðsögninni fyrir sér og hvers vegna svona margir hafa talið sig sjá þessa veru án þess að hægt sé að sanna tilvist hennar með haldbærum sönnunum á borð við líkamsleifar, skýrum myndum, erfðaefni eða öðru.
Lýsing þáttarins er eftirfarandi:
„Hver kannast ekki við að hafa heyrt eða lesið sögur um stórfót hinn ógurlega, eða sambærilega veru? Einhverskonar risavaxinn og kafloðinn mannapa sem gengur uppréttur og virðist ráfa um mannheima hrellandi fólk og ýmsan búfénað á afskekktum svæðum? Til eru mýmargar sögur víðs vegar um heiminn af fjöldanum öllum af stórfótum allt frá Bandaríkjunum og Kanada til Ástralíu, Namibíu og Brasilíu og víðar.
Mannaparnir eða stórfótarnir eru sumir hverjir ógnar stórir en aðrir smærri, allt eftir því frá hvaða menningarheimi sögurnar eru. Þeir stærstu eru rúmir 4 metrar og þeir smæstu rétt um einn og hálfur metri á hæð. Þá eru þeir einnig mismunandi á litinn og misloðnir eftir því hvaðan sögurnar af þeim koma, en flestum sögum ber þó saman um að stórfótarnir séu ógnvekjandi, þjófóttir og yfirleitt illa þefjandi. Þeir séu stór hættulegir mönnum og dýrum og ferðist einkum um að næturlagi.
En þrátt fyrir fjöldann allan af þjóðsögum og munnmælum um þessar gríðarstóru verur þá hefur engum tengist að sanna tilvist þeirra. Engar beinagrindur, hauskúpur eða ummerki um verurnar hafa fundist og ekki svo mikið sem ein hárlufsa, sem tekist hefur að sanna að tilheyri stórfæti eða einhverskonar risavöxnum mannapa. Þá virðist líka allt myndefni af verunum vera frá sjötta eða sjöunda áratug tuttugustu aldar og af einhverjum ástæðum hefur enginn stórfótur náðst á mynd eftir tilkomu myndavélasímanna. Er það vegna þess að stórfótar eru raunverulega ekki til eða er það vegna þess að stjórnvöld um allan heim og vísindasamfélagið þegja og hylma yfir tilvist þeirra?
Hafa þeir kannski allir verið fangaðir og teknir eitthvert afsíðis þar sem þeir eru ræktaðir til þess eins að hægt sé að nýta þá sem einhverskonar ofur hermenn eða vinnumenn? Eða voru þessi dýr einfaldlega öll fönguð og aflífuð á sínum tíma og þess vegna hafa þau ekki sést síðan um miðbik tuttugustu aldar? Búa þessar verur mögulega yfir einhverskonar hæfileikum til þess að gera sig ósýnilegar mönnum og tekst þeim sífellt að fela sig fyrir okkur? Mögulega er bara um þjóðsögu eða skáldskap að ræða en hvernig útskýrum við þá allan þennan fjölda vitnisburða og sambærilegra munnmæla frá jafn ólíkum menningarheimum og löndum?
Þetta og svo margt margt fleira áhugavert í þessum nýjasta þætti af Álhattinum þar sem félagarnir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór ræða þá skemmtilegu samsæriskenningu að stórfótur hinn ógurlegi sé til. Hvort sem þeir heita Sasquatch, Yeti, Yowie, Almas, Orang Pendek, Mande Barung eða einhverjum öðrum nöfnum.“