Hin sextuga Alejandra Rodríguez hefur vakið mikla athygli en hún er 60 ára gömul og sigraði í liðinni viku í keppninni um nafnbótina Ungfrú Buenos Aires. Í næsta mánuði mun hún keppa um titilinn Ungfrú Argentína og sigri hún einnig í þeirri keppni mun hún verða fulltrúi Argentínu í keppninni Ungfrú Alheimur.
Í umfjöllun People kemur fram að Rodríguez er lögfræðingur og fréttamaður. Hún bar sigurorð af 34 öðrum keppendum sem voru á aldrinum 18-73 ára.
Hún segist vera hæstánægð með að vera á þennan hátt fulltrúi nýrra viðmiða í fegurðarsamkeppnum þar sem sé verið að innleiða nýjar áherslur sem snúi að því að meta fegurð kvenna ekki eingöngu út frá líkömum þeirra heldur einnig öðru.
Sigur Rodríguez kemur í kjölfar breytinga sem gerðar voru á keppninni um Ungfrú Alheim á síðasta ári en þá voru reglur keppninnar um hámarksaldur afnumdar. Áður gátu aðeins konur á aldrinum 18-28 ára keppt en nú þurfa þær að vera 18 ára eða eldri.
Hún fylgir einnig í kjölfar hinnar 47 ára gömlu Haidy Cruz sem verður fulltrúi Dóminíska Lýðveldisins í Ungfrú Alheimur en keppnin fer fram í september næstkomandi.
Alejandra Rodríguez segist ætla sér að vinna næstu keppni og verða þar með ungfrú Argentína. Hún telur dómara keppninnar sem hún sigraði í hafa kunnað að meta sjálfstraust hennar og ástríðu fyrir því að vera fulltrúi kvenna af hennar kynslóð.