Ozempic var þróað sem lyf í baráttu gegn sykursýki en hefur reynst byltingarkennt sem megrunarlyf.
Fólk sem notar lyfið er oft að grennast hratt og mikið og glíma margir við þessa aukaverkun sem er gjarnan kölluð „Ozempic-andlitið.“
Einkennin eru niðursokkin augu, holar kinnar og laus húð í andliti, sem verða til þess að viðkomandi virðist eldri en hann er.
„Við sjáum fólk missa mikla fyllingu í andliti og þegar við missum fitu í andlitinu þá sjáum við það aðallega á kinnunum, húðin lafir líka meira og fólk er almennt meira kinnfiskasogið og beinabert,“ sagði lýtalæknirinn Dr. Smita Ramanadham, við DailyMail.
Lyf eins og Ozempic og Wegovy hafa notið gífurlegra vinsælda í hinum vestræna heimi og eru sérstaklega vinsæl meðal stjarnanna í Hollywood, þar sem útlit virðist skipta öllu máli.
DailyMail ræddi við lækna sem bentu á breytt útlit nokkurra frægra einstaklinga, eins og leikarans John Goodman og sjónvarpsstjörnunnar Sharon Osborne, sem þeir sögðu líklegast vera að glíma við þennan fylgikvilla lyfsins.
„Þú sérð fleiri línur, fleiri hrukkur og lausari húð núna miðað við þegar hann var þyngri og meiri fylling í andlitinu hans. Þessar breytingar eiga samt ekki bara við Ozempic heldur þyngdartap almennt,“ sagði Dr. Ramanadham.
Söngvarinn Robbie Williams, 50 ára, sagði síðasta haust að hann væri í einhvers konar meðferð, svipaðri og Ozempic, en hann nefndi engin sérstök lyf, og telja sérfræðingar það vera ástæðuna fyrir breyttu útliti hans.
Washington Times greinir frá því að hópur lýtalækna skoðuðu myndir af fimmtán frægum einstaklingum sem hafa gengist undir mikið þyngdartap og komust að þeirri niðurstöðu að allavega helmingur þeirra gæti verið að glíma við „Ozempic andlit“ vegna meðferðarinnar. Læknarnir sögðu breytingarnar sjást meira hjá körlum, þar sem konur noti gjarnan snyrtivörur og fylliefni til að lágmarka áhrifin.