Stórstjarnan Jennifer Lopez hefur loksins selt þakíbúð sína nálægt Madison Square Park á Manhattan eftir sjö ár á sölu opinberlega og í skúffusölu. „Samningur hefur verið undirritaður“ samkvæmt lúxusfasteignafyrirtækinu Brown Harris Stevens.
Lopez setti íbúðina upphaflega á sölu fyrir um 27 milljónir dala árið 2017 áður en hún lækkaði verðið um tveimur árum síðar. Lopez keypti íbúðina fyrir rúmar 20 milljónir dala árið 2014. Eftir tvö ár í sölu án árangurs lækkaði Lopez verðið í mars 2019 niður í 25 milljónir dala, eignin var síðan tekin af söluskrá í október 2021.
Íbúðin er 883 fm í sögufrægu húsi frá 1924 og er með fjórum einkaveröndum með útsýni yfir New York. Í húsinu er dyravörður í fullu starfi, læst sérgeymsla og lyklalæst lyfta. Íbúðin er á tveimur hæðum. Á neðri hæð er úrvals eldhús með stórri eyju, vínkæliskáp og morgunverðarbar og opin borðstofa. Einnig fylgir sér gestaálma á neðri hæð með þremur rúmgóðum svefnherbergjum, starfsmannaíbúðum og þvottahúsi.
Á efri hæðinni er aðalsvefnherbergissvíta með tveimur aðskildum baðherbergjum, stóru fataherbergi með lofthæðarháum skápum, baðkari og tveimur sérveröndum. Þasr er einnig sjónvarpsherbergi með aðgang að verönd sem snýr í suður með útsýni yfir Madison Square Park.
Lopez og eiginmaður hennar Ben Affleck keyptu einbýlishús síðasta sumar í Beverly Hills í Bandaríkjunum eftir mikla leit.