fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Óhrædd að takast á við áskoranir

Fókus
Sunnudaginn 7. apríl 2024 10:30

Guðrún Karls Helgudóttir, nýkjörin biskup Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju er ein af þeim sem var tilnefnd til biskupskjörs nú í mars. Hún hefur verið prestur í tvo áratugi og vígðist til prests í Sænsku kirkjunni í Dómkirkjunni í Gautaborg í janúar 2004. Guðrún stundar hreyfingu og útivist af miklu kappi. Hún hefur hlaupið nokkur maraþon og nýjasta áhugamálið er gönguskíði.  

,,Ég hef verið prestur í Grafarvogskirkju í 16 ár. Ég var fyrst prestur þar í átta ár og tók síðan við sem sóknarprestur árið 2016 . Ég tók við blómlegu búi af séra Vigfúsi Þór Árnasyni sem byggði upp þennan söfnuð með einstökum hætti. Í Grafarvogssókn er aðeins ein kirkja og það þótti sérstakt á sínum tíma að Grafarvogi var ekki skipt upp í tvær sóknir og byggð önnur kirkja. Þarna var tekin sú nýstárlega ákvörðun að hafa aðeins eina kirkju og marga presta fyrir fjölmennt svæði. Í dag erum við með eina stóra og fallega kirkju og kirkjusel, eða útibú, á mannlífstorginu miðju, í Spönginni. Við erum því með tvær starfsstöðvar og bjóðum upp á safnaðarstarf og helgihald á báðum stöðum. Starfið er vel sótt á báðum stöðum enda þykir Grafarvogsbúum vænt um kirkjuna sína,” segir Guðrún.

Fer ótroðnar slóðir sem prestur

Guðrún hefur verið óhrædd við að fara ótroðnar slóðir í safnaðarstarfi og bryddað upp á ýmsum nýjungum í kirkjunni ásamt sínu samstarfsfólki. “Ég er svo heppin með samstarfsfólk. Það er svo einstakt að eiga gott samstarfsfólk sem er tilbúið til að gefa mikið í starfið og hefur gaman af því að vinna saman og skapa eitthvað nýtt. Starfsumhverfið í Grafarvogskirkju er styðjandi og ég er nokkuð viss um að fólk sem sækir kirkjuna finnur þetta góða andrúmsloft,” segir hún.

Í Grafarvogskirkju er mikið af athöfnum og Guðrún nýtur þess að þjóna fólki á stóru stundum lífsins, hvort sem það er í gleði eða sorg. “Allar athafnir eru gefandi á einhvern hátt þrátt fyrir að þær geti líka tekið mikið á.  Sálgæsla er ekki síður stór hluti af mínu starfi og starfi presta og djákna um allt land”segir Guðrún.

Guðrún tekur gjarnan fram ukulele eða gítar í skírnum því henni þykir skemmtilegra að leiða fjöldasöng ef það er undirleikur. “Enn betra er þó ef einhver úr fjölskyldunni leikur á gítar eða píanó í skírninni. Mér þykir mikilvægt að athafnir sem ég leiði séu léttar og hlýlegar, hvort sem um er að ræða skírn, hjónavígslu, fermingu eða jafnvel útför þrátt fyrir að útfarir séu af öðrum toga. Mér finnst fjölbreytni svo mikilvæg þegar kemur að helgihaldi og öllu starfi kirkjunnar.  Kirkjan þarf að ná til ólíkra hópa samfélagsins og ganga í takt við samtímann um leið og við stöndum vörð um ákveðnar hefðir. Við erum svo lánsöm í Grafarvogi að vera með helgihald á tveimur stöðum og getum því boðið upp á jafnt klassískt helgihald og óhefðbundið,” segir Guðrún.

Starfið getur verið þungt 

Grafarvogskirkja er stór vinnustaður, af kirkju að vera, enda fjölmennasta sókn landsins. Þar þjóna þrír prestar, djákni, tveir organistar, æskulýðsfulltrúi, kirkjuverðir, ritari og fleira starfsfólk auk sjálfboðaliða. ,,Það er mikil samheldni meðal starfsfólks í kirkjunni og við stefnum öll í sömu átt. Grafarvogskirkja er því mjög góður vinnustaður. Ég er svo þakklát fyrir það því starf presta og djákna getur verið þungt. Hluti af starfi okkar er að ganga með fólki í gegnum þeirra erfiðistu stundir jafnt sem þær gleðilegustu. Það eru einstök forréttindi en það kallar líka á að við hlúum að okkur sjálfum svo að við séum fær um að gefa af okkur og vera öðrum stuðningur. Þá er svo dýrmætt að eiga góð starfssystkini sem hægt er að leita ráða hjá, fá stuðning og ekki síst geta hlegið saman”

Guðrún er alin upp í kirkjulegu umhverfi. ,,Afi minn heitinn séra Kristján Bjarnason var prestur á Reynivöllum í Kjós þegar ég var barn. Þegar ég fór að læra guðfræði þá fannst prestfrúnni ömmu minni, Guðrúnu Guðmundsdóttur, upplagt að ég yrði kennari. Henni fannst ekki koma til greina að ég yrði prestur enda var prestþjónustan ekki kvennastarf í hugum allra þegar ég var að hefja nám. Þótt ég hafi alist upp í kirkjulegu umhverfi þá fannst mér fermingarfræðslan óhemju leiðinleg.  Ég missti nánast trúna eftir fermingarfræðsluna,” segir Guðrún og brosir. ,,Ég hef því lagt mikið upp úr því að fermingarfræðslan sé skemmtileg og gefandi, að fermingarbörnin horfi með opnum hug til kirkjunnar og að það skipti máli að leyfa Jesús Kristi að vera þátttakandi í lífi þeirra.“

Guðrún með ömmustelpunum sínum.

Elti ástina til Svíþjóðar

Að loknu guðfræðinámi hélt Guðrún til Svíþjóðar. ,,Það var eiginlega ástin sem kallaði mig til Svíþjóðar. Ég varð ástfangin af manninum mínum, Einari Sveinbjörnssyni, prófessor í eðlisfræði. sem þá var búsettur í Svíþjóð og ég ákvað að slá til og flytja út þegar ég lauk námi. Ég sótti um að verða prestur þegar ég hafði náð þokkalegum tökum á málinu en það tók mig þrjú og hálft ár að fá prestvígslu því sænska kirkjan vildi móta mig og aðlaga mig að sænskri kirkjumenningu og hefðum. Ég þurfti meðal annars að sækja nám í prestaskóla í Lundi í eitt ár áður en ég var vígð. Eftir að ég vígðist þjónaði ég sem prestur í sænsku kirkjunni í rúm fjögur ár. Ég var sóknarprestur bæði í borginni og í landsbyggðaprestakalli. Þetta var einstakur tími og heilmikil áskorun að vera prestur í öðru landi. 

Guðrún á tvær dætur, tengdason og tvær dótturdætur. ,,Ég er svo lánsöm að vera orðin amma. Það er dásamlegt hlutverk. Mér finnst ég samt aldrei hafa eins mikinn tíma með þeim og mig langar en það hefur þó alltaf gengið nokkuð vel að aðlaga preststarfið fjölskyldulífinu. Ég er vissulega mikið með helgihald og athafnir um helgar og á hátíðum en það er þannig með margar starfsstéttir. Ég get þó í það minnsta alltaf boðið fjölskyldunni  með í kirkju. Það að vera prestur er nefnilega líka ákveðinn lífsstíll en það er þó mikilvægt að kirkjan bjóði upp á fjölskylduvænt starfsumhverfi og hlúi vel að sínu starfsfólki á öllum tímum.”

Guðrún byrjaði að taka þátt í maraþonhlaupum árið 2018.

Keppir í maraþonhlaupum

Guðrún hefur mikinn áhuga á hreyfingu og útivist. ,,Ég byrjaði reyndar ekki að hreyfa mig fyrr en eftir þrítugt. Fram að því sat ég á kaffihúsum og hreyfði mig helst ekki neitt,” segir hún og hlær. ,,Eftir fertugt fór ég að hlaupa en áður fyrr þótti mér fátt eins leiðinlegt og erfitt og að hlaupa. Ég tók út fyrir að þurfa að hlaupa í leikfimi í grunnskóla. En þetta hefur heldur betur breyst og ég er ómöguleg ef ég kemst ekki út að hlaupa nokkrum sinnum í viku auk þess sem gönguskíðin eru nýjasta áhugamálið mitt. Það er svo gott eftir erfiðan dag í kirkjunni, þar sem ég hef hitt mikið af fólki og gefið af mér allan daginn að geta farið út og hreinsað hugann. Stundum sem ég prédikanir á hlaupum, hlusta á hljóðbók eða hlaðvarp en oftar en ekki er ég að spjalla við skemmtilega hlaupafélaga. Hreyfing er virkilega góð fyrir andlega líðan á venjulegum dögum en um leið getur það reynt mjög á sálina að taka þátt í löngum hlaupum. Ég byrjaði að taka þátt í maraþonum 2018 og hef tekið þátt í sex slíkum. Ég stefni að því að ljúka sex stærstu maraþonum heims, Abbott World Marathon Majors en þau fara fram í Evrópu, Ameríku og Asíu. Ég hef lokið fjórum þeirra en á eftir að hlaupa í Tokyo og Boston. Næsta maraþon verður í Boston 2025 ef Guð lofar.

Undanfarin ár hef ég verið að bæta við mig utanvegahlaupum og finn að þau gera mér gott. Þau fylla mig svo mikilli gleði. Það er eitthvað einstakt við að hlaupa úti í náttúrunni og vera eitt með himni og jörð. Þá skiptir einhvern veginn ekkert máli nema einmitt þessi stund og þessi staður. Þetta er hin sanna núvitund og jarðtenging um leið og almættið er eitthvað svo nálægt.“

Langar að leiða kirkju sem er í sókn en ekki vörn

,,Ég held að  ég sé þannig gerð að ég þurfi annað slagið að takast á við nýjar áskoranir. Ég þarf að leggja eitthvað á mig hvort sem það er andlega eða líkamlega. Og það er heldur betur áskorun að fara fram í biskupskjör. Ég ber svo mikla virðingu fyrir þessu embætti biskups Íslands og finnst því alls ekki sjálfsagt að ég sé á þessum stað. Fjölmargt fólk hafði skorað á mig, starfssystkini mín og fleiri og að lokum var ég tilnefnd til þess að fara í biskupskjör. Ástæðan fyrir því að ég var tilbúin til þess að taka tilnefningum er sú að ég hef óbilandi trú á Þjóðkirkjunni og vil veg hennar sem mestan. Mig langar til að leiða kirkju sem er í sókn en ekki í vörn,” segir Guðrún og bætir við að eitt af því besta við að vera í biskupskjöri sé að ferðast um landið og hitta kirkjufólk vítt og breitt um landið sem elskar kirkjuna sína.

Skrifaði bók innilokuð á 38 hæð  í COVID

Árið 2020 fór Guðrún í hálfs árs námsleyfi til Ástralíu ásamt manni sínum og yngri dóttur. ,,Sú ferð fór aðeins öðruvísi en ætlað var því COVID skall á þegar við höfum dvalið þar í rétt rúma tvo mánuði. Um það bil sem allt lokaði fótbrotnaði ég illa á hlaupum sem leiddi til þess að við gátum ekki farið heim. Við vorum því, öll fjölskyldan meira og minna lokuð inni í íbúðinni okkar á 38 hæð í miðborg Brisbane. Það sem bjargaði okkur var að við gátum farið út í almenningsgarð í nágrenninu sem státaði af einstökum gróðri og dýralífi. Þar sat ég meðal annars við skriftir en bókin mín Í augnhæð, hversdagshugleiðingar kom út í lok árs 2020. Það góða var að við fjölskyldan erum enn nánari og meiri vinir eftir þessa lífsreynslu. Í Ástralíu tók Guðrún þátt í kirkjustarfi Lúthersku kirkjunnar þar. Þessi kirkjudeild í Ástralíu vígir ekki konur til prestþjónustu. 

,,Ég hóf að sækja kirkju í söfnuði sem var frekar opinn fyrir prestþjónustu kvenna og smám saman var ég fengin til þess að taka þátt í málþingi um prestvígslu kvenna og fengin til að prédika. Það er þó eitthvað sem ekki er litið blíðum augum í flestum söfnuðum þarna og því var það kynnt sem erindi en ekki prédikun. Þá bauð biskupinn í fylkinu mér á sinn fund til þess að ræða prestvígslu kvenna. Enn í dag eru konur ekki vígðar til prestþjónustu í Lúthersku kirkjunni í Ástralíu og Nýja Sjálandi en þessi afstaða endurspeglar þó ekki viðhorf Ástrala almennt til kvenna. Hún er bundin við þessa kirkjudeild sem er afar lítil í Ástralíu. Ég ákvað þegar ég var þarna úti að þegar fyrsta konan verður vígð þá ætla ég aftur til Ástralíu og vera viðstödd vígsluna. Það kemur að því fyrr en síðar.“

Guðrún horfir björtum augum á framtíðina og segist vona að þetta biskupskjör verði til þess að vekja enn frekari áhuga fólks á kirkjunni enda trúir hún því að kirkjan eigi sér bjarta framtíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Svala Björgvins nældi sér í Skagamann

Svala Björgvins nældi sér í Skagamann
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímavélin: Ferðir Íslendinga til Tenerife eru engin nýmæli – „Reyndist sá grunur minn réttur að þar væru landar mínir og ferðafélagar“

Tímavélin: Ferðir Íslendinga til Tenerife eru engin nýmæli – „Reyndist sá grunur minn réttur að þar væru landar mínir og ferðafélagar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Geymir þungunarprófið við hlið íkónísks leikmunar unnustans

Geymir þungunarprófið við hlið íkónísks leikmunar unnustans
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta eru Óskarstilnefningarnar í ár – Söngvamynd um mafíósa með flestar tilnefningar og brýtur blað í sögu Óskarsins

Þetta eru Óskarstilnefningarnar í ár – Söngvamynd um mafíósa með flestar tilnefningar og brýtur blað í sögu Óskarsins