Þau hjálpa einnig einstaklingum sem á þurfa að halda, án endurgjalds, að losna við draugagang og segja það oftast auðvelt þar sem draugar séu venjulega meinlausir. Hins vegar hafa komið upp tilfelli segja þau, þar sem draugar hafa beitt fólk ofbeldi og þá þurfa þau að grípa inn í.
Katrín og Stefán eru gestir vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Þau fara um víðan völl og ræða um það sem er fyrir handan, hvernig draugagangur lýsir sér, hvernig er hægt að losna við drauga og þeirra fyrstu reynslu að sjá eitthvað að handan. Þau fara einnig yfir staði á Íslandi þar sem reimleikar eru og eftirminnilegustu upplifanir þeirra, eins og þegar þau náðu röddum á upptöku í Hvítárnesskála. Katrín segir frá því í spilaranum hér að neðan, brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google.
Katrín fór yfir sína eftirminnilegustu upplifun fyrr í þættinum, hægt er að lesa um hana hér. Stefán segir frá sínum.
„Þær eru í rauninni tvær. Ég myndi segja að mitt mesta sjokk hafi verið þegar við vorum á Byggðasafninu á Akranesi. Við sváfum í presthúsi. Ég lá á gólfinu sofandi og svo rumskaði ég og það var einhver að pota í mig, svona sparkaði létt í fótinn minn. Á meðan ég lá á gólfinu þá stóð maður yfir mér, eldri maður, rosalega huggulegur og hjartahlýr. Hann sagði: „Stefán, Stefán, þú verður að koma núna. Stefán.“ Ég sá hann svo skýrt, standa þarna yfir mér og svo allt í einu hvarf hann.
Við fórum að skoða einhverjar heimildir eftir þetta og ég komst að því að hann var prestur sem hafði búið í þessu húsi, tveimur eða þremur prestum á undan. Mér fannst merkilegt að sjá svona skýrt einhvern.“
Stefán og Katrín segja að þau hafi fundið mynd af prestinum í skálanum. „Það var alveg mind blowing,“ segir Stefán um hvernig það hafi verið að sjá myndina af prestinum eftir upplifunina um nóttina.
Stefán rifjar upp annað atvik þegar þau voru að skoða draugagang í Menntaskólanum á Laugum. Þau voru á einum ganginum þegar Katrínu byrjaði skyndilega að líða mjög illa.
„Ég var að taka upp og við vorum að tala saman og það komu tvær karlraddir inn á þessa myndbandsupptöku. Einn sagði: „Sérðu þau?“ og hinn sagði: „Nei, eða jú!““ segir Stefán.
„Þetta heyrðist skýrt,“ segir Katrín.
„Það er það sem heillar mig, af því þá hugsar maður ókei bíddu, sjá þau okkur ekki eða sjá þau okkur eins og við sjáum þau? Það er það sem vekur svo mikinn áhuga hjá mér og spennu, til þess að fara þangað aftur og fá svör við svona spurningum.“
Katrín og Stefán ræða þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér, þú getur einnig hlustað á Spotify.
Katrín og Stefán voru með þætti á Hringbraut fyrir tveimur árum og gerðu sérstakan þátt um Byggðasafnið í Görðum á Akranesi.
Fylgdu Draugasögur á Instagram og hlustaðu á hlaðvarpsþætti þeirra á Spotify. Einnig er hægt að skrá sig í áskrift hjá þeim fyrir meira efni.
Katrín og Stefán eru einnig með þættina Sannar íslenskar draugasögur (smelltu hér fyrir áskrift eða hlustaðu á Spotify) og Mystík (smelltu hér fyrir áskrift eða hlustaðu á Spotify).