Breska raunveruleikastjarnan Ouzy See varð fyrir þeirri niðurlægingu á dögunum að afhjúpað var að hann væri sjálfur að stýra aðdáendasíðu um sjálfan sig á Instagram. Þykir víst ekkert meira hallærislegt í veröld áhrifavalda.
Hinn skoski Ouzy, sem var frambærilegur fótboltamaður á árum áður, sló í gegn í bresku stefnumótaþáttunum Love Island í fyrra. Hann varð þó ekki beint vinsæll heldur frekar alræmdur og um tíma var hann talinn vera hataðasti maður Bretlands eftir að hann fór að gera sér dælt við yngismey sem var hluti af vinsælasta pari þáttarins.
Síðan þáttunum lauk hefur Ouzy, ásamt öðrum þátttakendum, reynt sitt ítrasta til þess að auka vinsældir sínar og sýnileika með misjöfnum árangri þó.