fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Arna skilar skömminni í kringum magaermisaðgerðir – „Þetta var heilsulega rétta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 22. mars 2024 12:29

Rúmt ár er liðið síðan Arna gekkst undir aðgerðina. Myndir/Instagram @arnavilhjalms

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjálfarinn og áhrifavaldurinn Arna Vilhjálmsdóttir ætlaði sér ekki að verða þrítug. Hún bjóst við að lífið yrði búið fyrir þann tíma og var orðin sátt við þann möguleika. Í dag er hún 33 ára, hamingjusöm í eigin skinni og lítur björtum augum til framtíðar.

Arna er nýjasti gestur Fókuss, spjallþáttar DV. Brot úr þættinum má horfa á hér að neðan en smelltu hér til að horfa á hann í heild sinni.

video
play-sharp-fill

Einnig er hægt að hlusta á Apple Podcasts og Google Podcasts.

Fyrir ári síðan tók Arna stóra ákvörðun um að gangast undir efnaskiptaaðgerð. Hún birti færslu á Instagram ári eftir aðgerðina sem vakti mikla athygli.

Hún birti nokkrar myndir og skrifaði með: „Eitt ár í dag síðan ég tók stærstu ákvörðun varðandi minn líkama sem ég hef tekið. Vá, hvað ég er stolt af því að þora, vilja og skammast mín ekki.“

Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að ofan.

Var fullkomlega sátt við hvernig hún leit út

Arna ræðir um ákvörðunina um að fara í aðgerðina, skömmina sem oft tengist slíkum aðgerðum sem hún neitar að finna fyrir og líðan hennar í dag.

„Ég fór í magaermi fyrir ári síðan, eitthvað sem ég var búin að segjast aldrei ætla að gera. Ég er mjög hrædd við inngrip, hvað sem það er. Mér fannst ég líka vera hálfgert að bregðast boðskapnum sem ég er að breiða út, ef það meikar sens, að vera ánægður í sínum líkama og allt svoleiðis. Það er þessi skömm sem ég talaði um,“ segir hún.

Arna segir að slíkar aðgerðir séu gjarnan litnar hornauga og að fólkið sem fer í þær séu „letingjar“ að fara „auðveldu leiðina.“ Hún segir það alls ekki rétt og tekur fram að það sé mikilvægt að vera með hausinn í lagi áður en maður tekur skrefið. Hún segir að það hafi hjálpað henni gríðarlega.

„Ég þurfti sjálf að komast á þann stað að mér var nákvæmlega sama hvernig ég leit út. Þá meina ég það að ég var ekki að láta það stoppa mig eða láta það vera einhverja afsökun fyrir því að einhver kom illa fram við mig, eða sagði eitthvað. Heldur var ég fullkomlega sátt við það hvernig ég leit út, og þá einhvern veginn var ég tilbúin. Því ég var ekki að gera þetta til þess að komast í eitthvað samfélagslega samþykkt mót því þá yrði ég glöð eða hamingjusöm, heldur var ég að þessu heilsulega séð,“ segir hún.

Arna Vilhjálmsdóttir. Mynd/DV

„Ég var farin að fá fylgikvilla sem var erfitt að vinda ofan af og í samráði við mína lækna og sálfræðing var þetta lendingin. En ég hefði aldrei getað gert þetta og liðið eins vel og mér líður í dag og í gegnum þetta allt saman, ef ég hefði ekki verið komin á þennan stað að vera bara: „Heyrðu, ég er bara ótrúlega sátt við það hvernig ég er, en ég er að þessu af því að ég elska sjálfa mig fáránlega mikið og ég vil sjá um það sem er að.“ Mér er alveg sama um það hvernig ég lít út núna, ég er ekkert verri eða betri en fyrir ári síðan, ég er nákvæmlega sama Arna. Ég var að þessu því þetta var heilsulega rétta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti.“

Búin með þráhyggjuna

Arna vigtar sig ekki í hverri viku og er ekkert að pæla í kílófjöldanum sem hún er að missa. „Ég var búin að fara í gegnum þetta þráhyggjuferli með vigtina í Biggest Loser, þannig ég skil alveg fólk sem fær þessa tilfinningu því þetta er smá eins og fíkn. En það er ótrúlega mikilvægt að láta þetta ekki stjórna þér,“ segir hún.

Arna vann Biggest Loser árið 2017 og missti 60 kíló á hálfu ári. Hún ræðir það tímabil nánar í þættinum sem má hlusta á hér.

„Ég reyni bara að fókusa á hversu mikið prótein ég er að borða á dag til að viðhalda mínum vöðvamassa, ég æfi mikið og finnst það ótrúlega gaman. Er ég að taka vítamínin mín? Er mér að líða vel eftir máltíðina eða þarf ég að setja hana öðruvísi saman? Ég reyni miklu frekar að fókusa á þessa hluti frekar en einhverja vigt eða tölulega hluti.“

Arna Vilhjálmsdóttir. Mynd/DV

Hjálpaði henni að komast í rútínu

„Ég var hætt að finna seddutilfinningu. Ég var hætt að vita hvenær ég ætti að stoppa, þetta var farið að stjórna mér algjörlega. En með því að fá þetta bjargráð er komin miklu meiri rútína á það sem ég gat aldrei komið rútínu á. Því það var endalaust pláss, endalaust hægt að setja meira og ég gat ekki stoppað fyrr en ég var líkamlega komin með matinn upp í kok. Þarna er búið að hjálpa mér að setja ákveðinn stoppara til þess að búa til þessa rútínu,“ segir Arna.

„Þetta er búið að hjálpa mér ótrúlega mikið í því sem ég hélt alltaf að væri agaleysi eða engin sjálfstjórn.“

Arna ræðir þetta nánar í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.

Fylgstu með Örnu Vilhjálms á Instagram. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Hide picture