Sjálfsástarferðalag Örnu á sér langan aðdraganda. Frá því að hún var lítil vissi hún að hún væri öðruvísi, hún var stærri og þykkari en jafnaldrar hennar og var hún mjög meðvituð um að hún félli ekki inn í „samfélagslega samþykkta formið.“
Óhamingjan náði hámarki eftir að Arna varð tvítug og man hún lítið eftir árunum áður en hún skráði sig í raunveruleikaþáttinn Biggest Loser árið 2017. Hún var mjög þunglynd og við það að gefast upp, en hún sá þáttinn sem lausn, úrræði, eitthvað til að hjálpa henni. Arna endaði með að vinna þáttaröðina og viðurkennir að þó að hennar upplifun hafi að mestu verið jákvæð hafi vissulega margt athugunarvert verið við framsetningu þáttanna, sem hafa verið mjög umdeildir í seinni tíð.
Hún ræðir þetta og margt fleira í nýjasta þætti af Fókus sem má horfa á hér að neðan. Einnig er hægt að hlusta á Spotify, Apple Podcasts og Google Podcasts.
„Ég var með ógreint ADHD þegar ég var yngri, vissi það ekki. Ég var ótrúlega fjörugt, kröftugt og ákveðið barn. Ég var í fjórum íþróttum, spilaði á píanó, átti nóg af vinkonum og vinum, það vantaði aldrei, og var mjög virk. En ég var alltaf stærri heldur en vinkonur mínar og gat aldrei verið í þessum leik að skipta um föt,“ segir Arna í Fókus.
„Ég var íþróttastelpa með stór læri, stórar hendur og mér var mjög fljótt bent á að það væri öðruvísi, þannig ég bjó til persónuleika þegar ég var yngri sem tók yfir og beindi athyglinni frá því að ég væri stærri. Ég gerði mig bara verðuga á annan hátt; fyndin, skemmtileg, eitthvað svoleiðis. En það líka étur mann svolítið upp að innan.“
Arna ólst upp úti á landi og fór í Menntaskólann á Laugarvatni. „Þá fór ég úr mínu umhverfi, þar sem allir vissu til dæmis að ég væri góð í íþróttum þó ég liti út á einhvern ákveðinn hátt, enginn efaðist um það. En ég fór inn í annað umhverfi þar sem ég kom að lokuðum dyrum. „Ætlar þú að vera með í fótboltaliðinu?“ Samt búin að æfa fótbolta í sjö ár.“
Arna vissi ekki til hvaða bragðs hún ætti að taka þar sem íþróttir voru svo stór hluti af hennar ímynd. Hún ákvað að rækta félagslega hlutann. „Ég fór í allar nefndir, ég fór að reyna að finna mig einhvers staðar. Fyrst ég var feita stelpan þá ætlaði ég að vera fyndnasta, skemmtilegasta og besta feita stelpan sem var til. Það einhvern veginn líka snjóboltaðist út í það að ég fór að missa minn verðleika sem ég var búin að verðmeta mig og ég vissi ekki hvaða verðmiða ég hafði á mér.“
„Ég leitaði mikið í mat þegar mér leiddist, þegar ég hafði óþægilegar hugsanir, bara til að beina orkunni og athyglinni eitthvað annað. Ég vissi ekkert að það héti eitthvað svona „stimma“, eða eitthvað svoleiðis. Ég hélt að ég væri bara matarfíkill, sem ég þróaði síðar með mér. En þetta voru fyrstu vísbendingarnar þarna,“ segir Arna.
„Ég hætti að hreyfa mig svona mikið og þegar maður er kominn í þetta ástand þá hleðst utan á mann. Og þegar þú ert í menntaskóla á þessum mótunarárum, þá skiptir þetta svo miklu máli. Allir að eignast fyrsta kærastann, allir að kyssa fyrsta strákinn eða fyrstu stelpuna og ég varð smá eftir, því ég var með allar varnir uppi.“
Arna bjó til persónu sem hún var út á við, en var svo önnur manneskja þegar hún var ein heima hjá sér.
„Þetta fór út í ótrúlega erfitt mynstur sem fylgdi mér bæði í háskóla þar sem þetta varð algjörlega katastrófískt og áður en ég fór í Biggest Loser. Ég var 26 ára þegar ég fór í Biggest Loser. Ég man eiginlega ekkert tveimur, þremur árum þar á undan. Þau eru í hálfgerðu móki þar sem vanlíðanin var orðin það mikil.“
Arna rifjar upp þegar hún fann dagbók úr æsku og segir mörg tár hafa fallið við lesturinn.
„Þarna sá ég rauðan þráð í gegnum allt. Það stóð á mörgum stöðum: „Ég er svo feit.“ Svo kom á einum stað: „Ég hljóp í dag tuttugu ferðir niður og upp tröppurnar án þess að stoppa.“ Eða: „Ég kroppaði súkkulaðikúlurnar úr ABT mjólkinni, það tók mig smá tíma en það er alveg hægt.“ Ég var í mesta lagi ellefu til tólf ára. Að þetta hafi verið hlutir sem ég var að skrifa niður, þá hlýt ég að hafa verið að pæla gríðarlega mikið í þessu. Þetta hlýtur að hafa verið það sem ég var algjörlega með á heilanum. Mér finnst þetta svo ótrúlega sorglegt, í stað þess að vera að einblína á næsta leik eða æfingu eða hvað sem er, þá var þetta fókusinn. Í stað þess að njóta þess að vera ung, í öruggu umhverfi og litlum bæ, í öllum þessum íþróttum, með góðar vinkonur og allt þetta, þá var þetta fókus punkturinn hjá mér, og mér finnst það svo sorglegt.“
Arna segist vera ótrúlega fegin að í dag, 20 árum seinna, er hún 33 ára og þetta sé ekki lengur rauði þráðurinn í lífi hennar.
„Ég veit ekki hvar ég væri, eða hvort ég væri ennþá hérna, því ég ætlaði aldrei að verða þrítug. Planið mitt var alltaf að vera búin að þessu áður en ég yrði þrjátíu ára.“
Aðspurð hvað hún meinar með því segir Arna: „Ég sá aldrei fyrir mér að verða svona gömul. Mér fannst ég ekki þurfa að plana framtíðina eða spá í hvað ég ætlaði að vinna við þegar ég væri búin með gráðurnar, ég ætlaði ekki svona langt.“
Arna segir að hún hafi fundið þessar tilfinningar mjög sterkt fyrri hluta þrítugsaldursins en þetta voru tilfinningar sem hún hafði glímt við lengi.
„Ég skrifaði fyrsta sjálfsmorðsbréfið mitt þegar ég var í tíunda bekk, í tölvuna sem ég fékk í fermingargjöf. Þannig eins og ég segi, ég bjóst ekki við að verða svona gömul. Þannig það styrkti mig ótrúlega mikið, á sama tíma og þetta syrgði mig, að [lesa dagbókina].“
Fylgstu með Örnu Vilhjálms á Instagram.
Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.