Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að út sé komin bókin Þessi frægu glæpamál: Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Það eru Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ og Jón Torfason, fyrrverandi skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands sem rita ítarlegan inngang og tóku saman heimildir sem eru gefnar út í heild sinni í fyrsta sinn í þessari bók. Útgefendur eru Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og Háskólaútgáfan.
Í tilkynningunni segir að í bókinni birtist yfirheyrslur og héraðsdómar í tveimur frægustu morðmálum Íslandssögunnar, sem áttu sér stað á Sjöundá á Rauðasandi í Barðastrandarsýslu árið 1802 og Illugastöðum á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu árið 1828. Þrátt fyrir mikla og tíða umfjöllun séu málin ekki vel þekkt af þeirri einföldu ástæðu að frumheimildir hafi ekki verið aðgengilegar á prenti. Umræða um málin hafi þar af leiðandi ýmist tekið mið af skáldsögum eða sagnaþáttum sem fremur byggi á sögusögnum en frumgögnum, þótt vitaskuld séu á því undantekningar.
Morðin á Jóni Þorgrímssyni, Guðrúnu Egilsdóttur, Natan Ketilssyni og Pétri Jónssyni og aftökur Bjarna Bjarnasonar, Friðriks Sigurðssonar og Agnesar Magnúsdóttur, að ógleymdum skyndilegum dauðdaga Steinunnar Sveinsdóttur, hafi vakið athygli á sínum tíma og áhugi á þessum atburðum hafi viðhaldist til þessa dags. Morðin og aftökurnar hafi blandast saman í huga almennings, sagnfræðinga og skálda en í þessari bók sé skilið á milli með þeim hætti að birt séu gögn um rannsókn málanna tveggja í héraði eftir skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands, en ekki um aftökurnar. Mestum tíðindum sæti að sú gerð dómsins í Sjöundámálinu sem einkum hafi verið stuðst við í umfjöllun reynist vera fölsun.
Í inngangi bókarinnar sé atburðarás lýst í meginatriðum og meðferð málanna reifuð, en jafnframt vikið að síðari umfjöllun, skáldlegri sem fræðilegri; síðast en ekki síst verði varðveittum gögnum lýst nokkuð rækilega. Lesendur geti nú metið málsatvik og greint á milli þess sem satt er og logið í öðrum ritum eða öllu heldur á milli þess, sem rannsókn hafi leitt í ljós á sínum tíma, og þess sem aðrir hafi aukið við, hvort sem það sé byggt á heiðvirðum sögusögnum eða uppspuna.