Þórhallur Heimisson prestur, sem býr og starfar í Svíþjóð, segir í nýrri færslu á Facebook-síðu sinni að það sé sorglegt að grein sem hann skrifaði um innflytjendur á Íslandi árið 2006 skuli enn eiga erindi, miðað við umræðu síðustu vikna. Því endurbirtir hann greinina í færslunni en þar minnir hann Íslendinga á að hafa helsta grundvöll kristninnar í huga gagnvart innflytjendum, Gullnu regluna.
Þórhallur segir Gullnu regluna eina helstu undirstöðu siðfræði Vesturlandabúa:
„Hana er að finna í ræðu Jesú Krists í Matteusarguðspjalli og hún hljóðar þannig með orðum hans: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“.“
Í ljósi þessarar reglu sé sorglegt hvernig heyrst hafi talað um innflytjendur hér á landi að undanförnu:
„“Þessir“ innflyjendur eru sagðir „pakk“, það þarf að vernda börnin okkar fyrir „þeim“, „þeir“ eru allir nauðgarar og glæpamenn, best væri setja „þá“ í gám og senda þá burt af landi … og margt hefur verið sagt þaðan af verra. Saga 20. aldarinnar sýnir hvert slík orðræða leiðir.“
Íslendingar ætlist hins vegar til að vel sé tekið á móti þeim þegar þeir flytji til annarra landa. Hann minnir á að um 50.000 Íslendingar búi erlendis.
Hann hvetur þá Íslendinga sem enn búa á Íslandi til að taka vel á móti innflytjendum. Þeir auðgi landið og menninguna. Taka ætti á móti þeim með sama hætti og Íslendingar sem flytja til annarra landa myndu vilja að tekið yrði á móti þeim og fylgja þannig Gullnu reglunni:
„Það er að segja, ef við viljum að Gullna reglan sé áfram leiðarljós okkar í þessu landi,“ segir Þórhallur að lokum.