Leikkonan Brenda Blethyn, sem gert hefur garðinn frægan sem hin eina sanna Vera í samnefndum sjónvarpsþáttum, er á leið til Íslands. Hún mun koma fram á hátíðinni Iceland Noir sem haldin verður í nóvember.
Greint er frá þessu í blaðinu The Chronicle.
Blethyn, sem er 78 ára gömul, hefur leikið lögreglukonuna Veru síðan árið 2011. Þáttaraðirnar, sem byggðar eru á skáldsögum Ann Cleeves, eru nú orðnar þrettán talsins og eru mjög vinsælar hér á Íslandi. Í Bretlandi eru þær sýndar á sjónvarpsstöðinni ITV.
Cleeves greindi frá því að Blethyn hafi fengið „óvænt hlutverk á Íslandi.“ Það er að leikkonan myndi fljúga til Íslands og taka þátt í hátíðinni Iceland Noir sem fram fer 20. til 23. nóvember næstkomandi. En það er bókmenntahátíð sem rithöfundarnir Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir komu á fót árið 2013.
Upptökur á Veru eru alls ekki hættar. Blethyn sagði fyrir skemmstu að upptökur myndu hefjast á fjórtándu þáttaröðinni í lok apríl. Byrjað er að auglýsa hlutverk og aðdáendum mun bjóðast að fá skoðunarferðir þar sem þættirnir eru teknir upp í Whitley Bay á norðausturströnd Englands.