Hjónin Katla Hreiðarsdóttir hönnuður og eigandi Systur&Makar og Haukur Unnar Þorkelsson hafa sett íbúð sína í Mjósundi í Hafnarfirði á sölu.
Eignina keyptu þau fyrir þremur árum og tóku hana í gegn og færðu í retró-stíl. Katla er virk á samfélagsmiðlum og fengu fylgjendur hennar að fylgjast með framkvæmdunum sem má lesa um hér.
Í gær deildi Katla þeim upplýsingum að eignin væri á leið í sölu. „Nú loksins þegar allt er að verða klárt ætlum við hjúin að setja á sölu. Við viljum helst ekki fara en erum að skoða annað spennandi verkefni. Hér má sjá smá vídeó af heimilinu eftir að búið var að þrífa, flokka og skipuleggja í nokkra daga fyrir myndatöku … ef það væri nú bara alltaf svona ægilega fínt. Hér er búið að þrífa og þrífa og þrífa.“
View this post on Instagram
„Ég mun sakna þessa heimilis alveg hrikalega, ef okkur tekst að selja. EN … ef okkur tekst að selja að þá erum við að fara í MJÖG, MJÖG spennandi verkefni.“
Íbúðin er 171,5 fm, þar af bílskúr 36 fm, í húsi sem byggt var árið 1952. Ásett verð er 95,9 milljónir króna.
Á neðri hæð er forstofa, eldhús, stofa og borðstofa í einu rými með útgengi út á svalir, hjónaherbergi, barnaherbergi og baðherbergi með þvottaaðstöðu. Í risi eru tvö barnaherbergi, og salerni inn af öðru þeirra, og leikherbergi. Bílskúr er sérstæður.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.