fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Tímavélin – Áhyggjur af áhrifum enskunnar á Íslandi eru ekki nýtt fyrirbrigði

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 17. febrúar 2024 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarin misseri hafa heyrst háværar raddir um að áhrif enskunnar séu við það að ganga að íslenskunni dauðri. Snjalltækjavæðingin er sögð ýta undir þessa þróun. Íslendingar og þá ekki síst þau sem yngri eru lifa og hrærast í enskum málheimi í gegnum snjalltækin. Þjóðin er sögð þekkja bandarískar kvikmyndir og sjónvarpsþætti betur en sín eigin höfuðskáld og ýmsum þykir tök ungra Íslendinga á móðurmáli sínu hafa trosnað. Til að mynda virðast fallbeygingar og viðtengingarháttur eiga undir högg að sækja hjá yngri kynslóðum þeirra sem hafa íslensku að móðurmáli.

Umræða í þessa veru er þó alls ekki ný af nálinni. Menningar- og afþreyingarefni á ensku fór að berast til Íslands, í stríðum straumum, nokkrum áratugum áður en internetið og snjalltækin komu til sögunnar. Í kjölfarið fylgdu áhyggjur af áhrifum þessarar þróunar á íslenskuna. Heldur má ekki gleyma því að áður en áhyggjur af áhrifum enskunnar fóru að láta á sér kræla höfðu Íslendingar miklar áhyggjur af því hvernig áhrif dönsku myndu fara með íslenskuna.

Einn af þeim sem lýsti áhyggjum sínum opinberlega af óæskilegum áhrifum ensku á íslensku og yfirburðastöðu hennar meðal annarra erlendra tungumála var Steingrímur Gautur Kristjánsson í ítarlegri grein í Tímanum á fullveldisdaginn 1968:

„Að því er varðar tungumálakunnáttu og tungumálakennslu situr enska algerlega í fyrirrúmi fyrir öðrum þjóðtungum. Dönsku kunnáttu hrakar eftir því sem gamla fólkið týnir tölunni. Margt yngra fólk getur ekki gert sig skiljanlegt á Norðurlöndum nema á ensku. Þekking Íslendinga á öðrum málum er nánast forréttindi fámennra hópa eða dundur sérvitringa. Áhrif enskrar tungu á daglegt mál manna eru ótrúleg. Einkum kemur þetta fram í málfari barna og unglinga, en ekki er ótítt að heyra börn, sem tæplega hafa náð skólaaldri, ræðast við, einkum í gamni og hálfkæringi, á máli sem að sögn kunnugra er furðulíkt hversdagsmáli manna vestur í Ameríku.“

„Nályktina ber þegar fyrir vitin“

Um áratug síðar, árið 1979, kvað við samskonar tón í leiðara Morgunblaðsins:

„Ekki ber að gera lítið úr gildi samskipta við hinn engilsaxneska heim. Engu að síður verður smáþjóð, sem vill varðveita tungu sína og menningu og þjóðleg sérkenni,  jafnan að leitast við að hafa sæmilegt jafnvægi í þeim áhrifum, sem hún verður fyrir frá öðrum. Um nokkurt árabil hefur jafnvægisleysi ríkt í þessum efnum og hætta hefur verið á, að engilsaxnesk áhrif yrðu hér of ríkjandi, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni.“

Þriðja dæmið sem hér verður tínt til er úr helgarblaði Tímans frá 1984. Þar ritaði Pjetur Hafstein Lárussom stutta grein um áhrif enskunnar á Íslandi. Hann kvartaði yfir því að í verslunum mætti sjá auglýsingar sem væru eingöngu á ensku. Pjetur var einnig ósáttur við hversu mikið af sjónvarpsefni sem sýnt væri á RÚV væri á ensku og að kvikmyndahús sýndu svo til eingöngu kvikmyndir á ensku:

„Nei, lesandi góður þetta er sambland af heimsku, undirlægjuhætti og fordómum gagnvart öllu öðru en því sem engilsaxneskt er. Það er ekki lengur spurning , hvort íslenskt þjóðerni lifir þessi ósköp af eður ei, nályktina ber þegar fyrir vitin.“

Hér hafa verið tekin örfá dæmi en þau eru ágæt vísbending um að umræða um veika stöðu íslenskunnar gagnvart ensku er ekki ný af nálinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið