Lífið virtist brosa við Kristni Magnússyni á yngri árum. Honum gekk vel í skóla, sjálfstraustið var upp á tíu, hann blómstraði í vinnu, var hugmyndaríkur og atorkusamur, tók yfirleitt stjórnina hvert sem hann kom. Honum þótti reyndar snemma sopinn góður en er eitthvað að því fyrir ungan mann að skvetta dálítið í sig um helgar og vera uppátækjasamur? Nei, honum þótti það bara vera hið besta mál.
Nokkrum áratugum síðar var Kristinn orðinn heimilislaus. Löngu áður var hann farinn að selja amfetamín til að fjármagna eigin fíkn, þessi maður sem fyrirleit fíkniefnaneyslu þegar hann var ungur. Áður en til þess kom hafði hann drukkið frá sér eiginkonu og vænlegan starfsframa.
Í helgarviðtali við DV fer Kristinn yfir neyslusögu sína og skrykkjótta leið sína til bata. Hann ræðir líka málefni fíknisjúklinga og heimilislausra, en það er málstaður sem hann brennur fyrir. Ennfremur ræðir hann um voðaatburðinn sem varð á Ólafsfirði, heimabæ Kristins, haustið 2022, er Tómas Waagfjörð var stunginn til bana, maður sem Kristinn þekkti vel. Kristinn segir um þennan harmleik: „Þetta er lýsandi dæmi um afleiðingarnar af ómeðhöndluðum fíknisjúkdómi.“
„Maður heyrir oft þessa umræðu um fólk sem leiðist út í alkóhólisma út af áföllum í lífinu og þess háttar, engu slíku var til að dreifa í minni barnæsku. Mér gekk til dæmis vel í skóla og það var ekkert ofbeldi á heimilinu, ég upplifði engin stórkostleg áföll þó að ég hafi mætt einhverju mótlæti eins og gengur og gerist.“
Kristinn ólst upp í Hafnarfirði en við 12 ára aldur urðu róttækar breytingar á högum hans:
„Þá fluttum við austur á Hérað en pabbi tók að sér að verða bústjóri á bóndabæ þar. Kannski bjargaði sveitalífið því sem bjargað varð, þannig að ég byrjaði kannski ekki alveg eins snemma að drekka og annars hefði verið, nógu snemmt var það samt. En á síðasta ári í grunnskóla byrjaði þessi bolti samt að rúlla.“
Kristinn var í heimavist í Alþýðuskólanum á Eiðum þegar hann var 14 til 17 ára og við 15 ára aldur fór hann ásamt fleiri unglingum og ungmennum að skipuleggja sveitaballaferðir til Reyðarfjarðar og Egilsstaðar. Lengi vel voru ballferðir um hverja helgi. „Nemendur tóku sig saman, það var pöntuð rúta og einn sem hafði til þess aldur var sendur í ríkið á Seyðisfirði og kom til baka með fullan bíl af áfengi. Næsta vetur reyndi skólastjórinn að stemma stigu við þessu og sagði að nú yrði bara leyfi fyrir einu balli í mánuði. Þá gerðist ég rótari hjá hljómsveit sem spilaði á sveitaböllum og fékk að fara með þeim á böllin.“ Kristinn sýndi því snemma útsjónarsemi til að tryggja að hann gæti drukkið áfengi sem oftast.
Fjölskyldan flutti aftur til Hafnarfjarðar þegar Kristinn var 17 ára og segir hann að þá hafi helgarmynstur í drykkjunni verið ráðandi hjá honum. Drykkjan ágerðist þó en lengi vel leit hún ekki út fyrir að vera vandamál.
„Ég fór að vinna hjá Sambandinu við standsetningu á nýjum bílum. Í framhaldi af því var mér boðið nemapláss á verkstæðinu hjá þeim og fór í bifvélavirkjun, tók sveinspróf 23 ára gamall. Ég hafði alls ekki brennandi áhuga á bílum, þetta var bara eitthvað sem hentaði þarna, ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi. Lífið gekk bara út á helgardjamm og að eltast við stelpur.“
Kristinn gifti sig 23 ára og bjó með þeirri konu í 13 ár, eignuðust þau tvo stráka sem núna eru um og yfir þrítugt. „Drykkja mín olli vandamálum í hjónabandinu. Ég sýndi þessa alkóhólistatendensa, brást við með fýlu og frekju ef ég fékk ekki mínu framgengt.“
Kristinn segir að barnsmóðir hans sé stök reglumannekjsa og því eðlilegt að til árekstra kæmi vegna drykkju hans. Hjónabandið sprakk er þau bjuggu á Akureyri en hann dvaldist virka daga í Hafnarfirði við störf sem verslunarstjóri hjá varahlutversluninni Bílanaust. Hann fór síðan til Akureyrar um helgar og ekki mæltist vel fyrir að hann vildi verja þeim tíma í slark og drykkju.
„Það var ekki bara að hún þyrfti að umbera drykkjuna heldur misbauð ég henni líka með miklu framhjáhaldi.“
Þegar konan setti honum stólinn fyrir dyrnar ákvað hann að skilja við hana. Það var hans háttur, að í stað þess að verða hafnað hjó hann sjálfur á hnútinn, til að forðast að taka ábyrgð, hvort sem það snerist um sambandsslit eða uppsagnir úr vinnu.
„Það var síðan ekki liðinn dagurinn þegar ég var kominn með aðra kærustu upp á arminn, konu sem ég kynnist á barnum. Þarna var ég mjög grimmur sem var ekki í mínu eðli, en alkóhólisminn var að verki og búinn að taka algjörlega yfir. Ég kenndi barnsmóður minni samt auðvitað um þetta allt saman.“
Þetta var árið 2006 og á sama tíma lenti Kristinn upp á kant við vinnuveitendur sína hjá Bílanaust í Hafnarfirði. „Eftir eitt ár sem verslunarstjóri þarna var farið að hitna dálítið undir mér. Maður mætti í vinnuna illa fyrir kallaður og lyktaði. Ég hugsa að þetta hefði endað með því að ég missti starfið en alkóhólistinn er svo klár, þannig að til þess að þurfa ekki að taka ábyrgð á þessum vanda þá sagði ég upp vinnunni. Ég skrifaði það alfarið á yfirmennina sem kynnu ekki að meta hvað ég væri ofsalega klár og væri að gera fyrirtækinu gott. Ég var vissulega góður sölumaður en ég ofmat sjálfan mig, skynjaði að það var óánægja með margt í minni framgöngu en vildi ekki horfast í augu við það.“
Þetta sama ár byrjaði Kristinn að nota örvandi efni, aðallega amfetamín, í því skyni að geta vakað og drukkið meira áfengi. Hófst þessi þróun í tengslum við það álag sem fylgdi því að aka í hverri viku á milli Hafnarfjarðar og Akureyrar. Amfetamínneyslan átti síðan bara eftir að ágerast en á unglingsárum hvarflaði aldrei að Kristni að hann ætti eftir að nota önnur fíkniefni en áfengi og hann leit niður á fíknefnaneytendur. En þetta prinsipp fauk eins og mörg önnur.
Líklega var það upp úr þessu sem virkilega fór að halla undan fæti hjá Kristni og átti hann þó langa leið eftir á botninn. „Ég og kærastan vorum saman í fjögur ár. Árið 2007, rétt eftir viðskilnaðinn við Bílanaust, tók ég á leigu bar í Engihjalla og ætlaði aldeilis að meika það. Þetta var ein snilldarhugmyndin af mörgum hjá alkóhólistanum. Það hafði kviknað í þarna og reksturinn lagst af. Ég tók húsnæðið á leigu og samdi við birgja.“
Reksturinn var vonlaus frá byrjun af augljósum ástæðum. Kristinn kímir og segir: „Ég eignaðist allt í einu fullt af vinum. Stílabókin fylltist af nöfnum, og svo strik, svona margir bjórar á þennan og svona margir á hinn.“ Semsagt, allt of margir fengu skrifað og borguðu aldrei. „Þetta gat aldrei gengið upp, það var bara læst og innsiglað eftir níu mánuði. Þetta fór alveg flikk flakk.“
Kristinn og barnsmóðir hans höfðu búið í þrjú ár í Danmörku þar sem Kristinn starfaði við góðan orðstír hjá fyrirtæki sem framleiddi vindmyllur. Núna þegar Kristinn var búinn að spila rassinn úr buxunum, eins og stundum er sagt, þá leitaði hugurinn aftur á þessar velgengnislóðir. „Já, það hafði gengið vel í Danmörku. Alkóhólisti er alltaf að leita að breyttu ástandi, alltaf að reyna að finna þetta góða ástand og neitar að taka ábyrgð á eigin gjörðum, en 12 spora vinna snýst meðal annars um að átta sig á því hvers vegna hlutirnir fóru eins og þeir fóru.“
Hann segir að aðeins eitt símtal hafi þurft til að fá starf hjá þessu fyrirtæki að nýju og hann flutti með nýju kærustunni til Jótlands snemma árs 2008. „Ég gat alltaf komið mér áfram í vinnu. Metnaðurinn var mikill, sérstaklega í að vera aðalgaurinn, oft hef ég hlaupið út undan mér með það. En þarna var ég orðinn næturvaktarverkstjóri eftir þrjá mánuði, var þá yfir eitthvað um 35 körlum. Ég var eini yfirmaðurinn á næturnar, sem hentaði mér fínt því þá var enginn að böggast í mér fyrir að vera illa fyrir kallaður. Tveimur árum áður hafði ég þróað með mér mikla amfetamínfíkn, ég notaði amfetamín til að gera drukkið meira, þolmyndunin jókst og ég var farinn að drekka meira og minna alltaf nema þessar klukkustundir þegar ég var á vinnustaðnum. Í ársbyrjun 2011 gaf yfirmaður minn sig á tal við mig og sagði að þetta gengi ekki svona lengur. Undirmenn mínir höfðu orð á því að ég næði ekki að sinna mínum skyldum heldur sæti ég í fráhvörfum bak við tölvuskjá.“
Vindmyllufyrirtækið var í eigu risasamsteypunnar Siemsen. Þarna ríktu nútímaleg viðhorf til fíknivandamála og Kristinn var ekki rekinn heldur var honum boðin hver sú faglega aðstoð sem hann vildi þiggja. Honum var jafnframt sagt að fyrirtækið vildi halda honum sem starfsmanni. En Kristinn segist hafa brugðist við með hroka, álitið yfirboðara sína bara vera skilningslaus fífl sem kynnu ekki að meta hann. „Þannig að ég fór bara aftur til Íslands, stuttu áður var kærastan búin að gefast upp á mér og var farin heim til Íslands.“ Framundan var mikið niðurlægingarskeið.
Kristinn hafði drukkið og dópað frá sér eiginkonu, vænlegan starfsframa og heilan bar. En það var bara byrjunin á ógöngunum: „Núna sökk ég dýpra en nokkru sinni fyrr. Ég kom heim vorið 2011 með fulla vasa fjár því ég hafði borgað háar orlofsgreiðslur í ýmsa sjóði í Danmörku og þetta var allt gert upp við brotthvarf mitt. Ég leigði íbúð í Kópavogi með pabba, sem var drykkfelldur og hafði áður verið mest í helgardrykkju, og vinkonu minni sem var alkóhólisti.“
Danmerkurpeningarnir voru fljótt uppurnir en neyslan kostaði sitt: „Ég var ekki í vinnu og þáði félagslegar bætur frá bænum. Neyslan kostaði í kringum 700 þúsund á mánuði svo það þarf ekki að hugsa langt til að sjá að þetta gengi ekki upp. Ég fór því smám saman að fjármagna neysluna með afbrotum, mest fíkniefnabrotum.“
Kristinn fór að selja amfetamín til að hafa efni á að neyta þess sjálfur, auk áfengiskaupa. Núna var allt farið að snúast um vímuna og neysluna. „Já, ég gerðist fíkniefnasali en ekki þessi týpa sem maður hefur séð í amerískum bíómyndum, sem keyrir dýra bíla og er með gullkeðju um hálsinn. Ég gerði þetta bara til að fjármagna eigin neyslu. Þetta var bara sjálfsbjargarviðleitni. Ég fann mér góðan birgja og seldi helminginn af því sem ég keypti af honum. Þó ekki alveg því ég drýgði þann hluta sem ég seldi með mjólkursykri, en tók sjálfur inn sterka efnið.“
Kristinn segir að ofdrykkja og fíkniefnaneysla ræni einstaklinginn smám saman siðferðiskenndinni. „Merkilegt hvernig siðferðisþröskuldurinn lækkar. Það sem var ekki í lagi í gær, það er allt í einu orðið í lagi í dag,“ segir hann og vísar þá meðal annars til þess að allt í einu var hann farinn að selja fíkniefni, sem ekki kom einu sinni til greina að neyta áður.
„Ástandið var svakalegt sumarið 2011 og fram á haust. Ég drakk einn og hálfan til tvo lítra af sterku áfengi á dag, plús bjór og fleira, og svo tók ég amfetamín á móti og vakti þetta fjóra til sex sólarhringa í einu. Það var alltaf partý þarna og stundum sagði einhver í partýinu: „Viltu ekki bara fá eina svefntöflu eða eina róandi?“ En sá sem er lengi á amfetamíni fyllist ofsóknaræði og þarna var paranojan orðin svo mikil að ég þorði ekki að sofna. Ég varð að vera stjórnandinn sem sá til þess að allt væri í réttum skorðum. Ég var kominn með þrjá síma, hvern með mismunandi númer, og þorði varla að svara í nokkurn þeirra. Þetta var líf í ótta.“
Kristinn er fæddur árið 1967 og á þessum tíma var hann 44 ára. Hann hafði aldrei farið í áfengismeðferð eða reynt að hætta að drekka en þarna fannst honum skyndilega vera komið nóg. Skömmu síðar fór hann í sína fyrstu meðferð, sem var að Hlaðgerðarkoti.
„Ég var svæfður um leið og ég kom upp eftir og gefið niðurtröppunarlyf og allt annað sem þessu fylgir. Eftir fimm til sjö daga var hugurinn aðeins farinn að skýrast og þá var ég bara farinn að hlaupa á eftir ráðgjöfunum og segjast vilja drífa mig heim. Ég var sko hættur að drekka. Það hefur nefnilega tekið mig langan tíman að losna við hann Kidda klára sem veit alltaf betur en aðrir. Þau náðu samt að tala mig inn á það að klára meðferðina og ég var sjö vikur á Hlaðgerðarkoti. En ég tók meðferðina dálítið þannig að mér fannst hún vera fín fyrir alla hina sjúklingana en ég sjálfur væri svo klár að ég kynni þetta allt.“
Við meðferðarlok virtust bara blasa við tveir kostir fyrir Kristinn, að vera á götunni eða fara aftur í leiguíbúðina í Kópavogi, sem hann kallar brautarstöðina, enda var þar sífellt rennerí af fólki í neyslu. „Ráðgjöfunum leist eðlilega ekki vel á að ég færi aftur í þetta umhverfi og lögðu til að ég flyttist inn á áfangaheimili. En ég notaði það sem þau höfðu kennt mér til að snúa á þá ráðagerð. Sjáðu til, það var búið að kenna mér í meðferðinni að ég yrði að vera ábyrgur og heiðarlegur, ég var búinn að segja þessu fólki að ég ætlaði að leigja með þeim og borga leigu, ég yrði því að fara til baka og standa við minn hluta af leigunni. En þetta var alkóhólistinn í hausnum á mér sem var ekki tilbúinn að hætta þessu alveg. Ég fór þess vegna aftur í Kópavoginn og ég man ekki hvort það voru sjö eða tíu dagar sem ég hélt út edrú. Þarna hékk ég nötrandi yfir tölvunni á meðan fimm eða sex manneskjur sátu við stofuborðið með fullt af fíkniefnum og landa, og ég muldraði í huganum: „Ekki drekka! Ekki drekka!“
Kvöldið sem hann féll er mjög skýrt í minningunni. „Eitt kvöldið spyrja strákarnir sem ég leigði með hvort ég vildi rölta með þeim út á bar og spila pool. Ég sagði já, ég get alveg kíkt með ykkur og drukkið bara pepsí. Svo þegar ég kem á barinn þá voru auðvitað allir þar að drekka bjór og ég fór að hugsa með mér að ég væri auðvitað búinn að vera alveg rosalega lengi edrú, 8-9 vikur, sem er reyndar mjög stuttur edrútími. Svo man ég bara ekki eftir mér fyrr en tveimur tímum seinna. Sat þá heima með landabrúsa hjá mér og poka af einhverju hvítu, bara kominn á fullt aftur í gamla lífsstílinn á brautarstöðinni, tveimur tímum eftir þennan fyrsta bjór á barnum sem átti að vera pepsí.“
Allt frá þessum tíma hefur Kristinn farið í fjölmargar meðferðir og náð löngum edrútímabilum, meðal annars fimm árum, en ávallt fallið aftur. Smám saman hefur edrúlífsstíllinn náð yfirhöndinni en þó eru ekki nema tvö ár síðan hann féll síðast. Hann segir hins vegar að það sé ekki erfitt fyrir hann að vera edrú í dag enda stundar hann grimmt fundi í 12 spora samtökum. Hann býr á Ólafsfirði, en á þó engar ættir að rekja þangað, og sækir bæði fundi þar og á Siglufirði, samtals um þrjá fundi á viku.
Hann fór margoft í meðferðir á Hlaðgerðarkoti og í nokkrar meðferðir á Vogi. Þessi lífseigi sjálfumglaði púki í honum sem hann kallar „Kidda klára“ hefur hvað eftir annað birst þegar brautin virðist greið og komið honum í aðstæður sem eru honum ekki hollar, eins og til dæmis það þegar hann ákvað að heimsækja gamla og góða vinkonu sína í Danmörku, sem er alkóhólisti. Hann var viss um að hann gæti höndlað það en hann var varla stiginn inn um dyrnar hjá henni er hann var byrjaður að drekka bjórinn sem hún bauð honum úr ísskápnum sínum.
En smám saman, ekki síst fyrir tilverknað æðri máttar, hefur edrúmennskan tekið völdin í lífi Kristins. „Það er þetta með guð. Sumir fælast 12 spora vinnu og 12 spora samtök út af guði eða æðri mætti. Ég hef reyndar alltaf verið trúaður svo það var ekki vandamál fyrir mig en í mínum huga snýst þetta ekki aðallega um að finna fígúru sem þú getur kallað æðri mátt heldur snýst þetta meira um að ég átti mig á því að ég er ekki guð. Að það er til eitthvað öflugra en ég. Öll þessi ár sem ég var að leika guð, í mínu lífi og helst líka í lífi annarra, það leiddi mig bara á þann stað sem ég endaði á. Það var kominn tími til að gefa öðru afli sjens og gefa Kidda klára frí.“
Kristinn segir að ástæðan fyrir því að hann er tilbúinn að ræða fíknisögu sína opinskátt í fjölmiðli sé sú að hann vilji sýna fram á að enginn þurfi að skammast sín fyrir að verða fíknisjúkur. „Fíknisjúkdómurinn er eins og hver annar langvinnur sjúkdómur sem hægt er að halda niðri og lifa með.“
Sem fyrr segir býr Kristinn núna á Ólafsfirði, í litlu og friðsömu samfélagi, í umhverfi sem hentar edrúgöngu hans vel. En á Ólafsfirði gerðist engu að síður skelfilegur atburður fyrir tveimur og hálfu ári, er Steinþór Einarsson varð Tómas Waagfjörð að bana með hnífsstungum í íbúðarhúsnæði í bænum, aðfaranótt mánudagsins 3. október 2022. Steinþór var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir brotið í Héraðsdómi Norðurlands eystra, en við réttarhöldin og raunar áður kom fram að Tómas hafði átt upptökin að átökunum og einnig lagt til Steinþórs með hnífi. Í aðdraganda harmleiksins stormaði Tómas ævareiður í íbúðina þar sem eiginkona hans, Guðbjörg Svava Guðmundsdóttir, hélt til þessa nótt og sat við drykkju með Steinþóri, vini sínum og annarri konu sem þarna var húsráðandi. Ekki löngu eftir að Steinþór fór á vettvanginn, viti sínu fjær af reiði, samkvæmt heimildum, hringdi maður sem þá hélt til heima hjá Tómasi, í Kristinn, og sagði við hann: „Núna hefur eitthvað slæmt gerst.“
„Þó að það væri óhugur í mér þá grunaði mig aldrei að þetta slæma sem hefði gerst væri svona rosalegt,“ segir Kristinn. „Annars vil ég passa mig á því að ræða ekki málsatvik, ég var ekki á staðnum og get engu slegið föstu um hvernig þetta atvikaðist allt saman,“ bætir hann við. „En þessi harmleikur er að mínu mati lýsandi dæmi um afleiðingarnar af ómeðhöndluðum fíknisjúkdómi. Og núna eru þau bæði látin.“ Guðbjörg Svava, ekkja Tómasar, lést haustið 2023 og var látið tengt fíknisjúkdómi hennar.
Aðspurður segir Kristinn að hann hafi þekkt mjög vel til Tómasar og hann hafi í grunninn verið góður og hjálpsamur maður, en fíknin umbreytti honum til hins verra. Aðspurður hvort samband hjónannna hafi verið ofbeldissamband þá telur hann það ekki vera nákvæma lýsingu á sambandinu. „Það kom vissulega fyrir að Tómas beitti ofbeldi en í sambandi tveggja virkra fíkniefnaneytenda þá verður oft stríðsástand, það lýsir sér í því að fólk býr til spennu og tilefni til að reiðast til að réttlæta meiri neyslu. Ég var búinn að upplifa að þegar mikið gekk á hjá þeim þá leitaði Svava skjóls hjá okkur hjónunum – þegar ég var enn giftur, við skildum ekki fyrr en í maí á þessu ári; en þá bauðst ég til að keyra hana til Akureyrar til að komast úr aðstæðunum, en hún vildi það ekki.
Aðkoma Steinþórs að þessu máli er síðan sú að hann var gamall vinur Svövu, hún leitaði til hans um stuðning og annað, ég held að hann hafi fyrst og fremst komið norður með það í huga, hann vildi hjálpa vinkonu sinni. En þegar fólk er í neyslu þá er dómgreindin ekki upp á sitt besta og allar hömlur bresta. Því fór sem fór.“
Kristinn er óvinnufær vegna andlegra og líkamlegra afleiðinga af neyslu í gegnum tíðina, en lifir engu að síður lífi sem er að mörgu leyti gott og gefandi. Tólf spora starfið er honum bæði lífsnauðsynlegt og veitir lífsfyllingu.
Hann er núna á annarri önninni í námi í fíkniráðgjöf hjá Háskólanum á Akureyri og SÁÁ. Námið er fjarnám sem hann getur stundað heima á Ólafsfirði. „Ég nota líka mikið af mínum tíma til að aðstoða fólk sem glímir við fíknisjúkdóminn,“ segir hann en ein af forsendum þess að ná bata frá fíkn er að aðstoða aðra við það sama.
Hann hefur tónlistarhæfileika og nýtur þess að spila á gítar og syngja. „Tónlistin er sálfræðiþerapía en það er betra að syngja eitthvað sem maður getur lagt tilfinningu í.“ – Kristinn fæst sjálfur við textagerð og lagasmíðar, fyrir skömmu sendi hann frá sér, í félagi við annað tónlistarfólk lagið Útigangur, en þar er á angurværan hátt fjallað um hlutskipti útigangsfólks.
Kristinn segist hafa skrifað textann fyrir mörgum árum. Í kynningu á laginu fyrir skömmu síðan sagði hann: „Ég hafði í gegnum mína eigin baráttu við fíknisjúkdóminn fengið að kynnast mjög mörgu af því góða fólki sem einnig hefur átt í þessari baráttu, bæði inni á meðferðarstofnunum, á áfangaheimilum og í 12 spora samtökum. Fyrir utan alla þá sem ég komst í kynni við meðan ég sjálfur var í mikilli neyslu. Þá var ég á tímabilum heimilislaus sjálfur. Einn af þessum aðilum sem ég hafði fengið að kynnast edrú og var að vinna í sínum málum var heimilislaus og þurfti að stóla á gistiskýlin til að fá húsaskjól um nætur. Einn daginn var hann seinn fyrir og allt var orðið fullt þannig að hann, ásamt mörgum öðrum gat ekki fengið gistingu. Þetta var um miðjan vetur í frosti og morguninn eftir fannst hann látinn, frosinn undir runna á Klambratúni. Hann er langt frá því að vera sá eini sem hefur hlotið þessi örlög, en á hverju ári verða nokkrir einstaklingar úti á Íslandi. Það fer bara yfirleitt ekki hátt af því yfirvöld vita að þau eru að brjóta lög þegar þau útvega fólki ekki húsnæði.“
Þó að fíknivandinn sé um margt flókið samfélagsvandamál segir Kristinn að bráðavandi þeirra sem verst eru staddir sé tiltölulega auðleystur, að minnsta kosti miðað við mörg önnur erfið verkefni sem yfirvöld hika ekki við að leggja fjármagn í til að leysa. „Það eru 100 manns í mjög brýnni þörf og fjárhagslega er sá vandi ekki neitt neitt í stóra samhenginu. Til samanburðar þá urðu hátt í 4.000 manns heimilislaus vegna hamfaranna í Grindavík. Að sjálfsögðu vilja allir leggjast á eitt við að leysa vanda þess fólks og ríkisvaldið setur fjármagn í málið. Þegar bráðahúsnæðisvandi steðjar að vegna til dæmis vegna COVID eða hælisleitenda þá er málunum einfaldlega bjargað og kostað til því sem þarf.“ – Kristinn segir að það vanti þetta sama viðhorf gagnvart fíknivandanum, að þetta sé bráðavandi og það verði að bjarga málunum. Hann segist hins vegar alls ekki vilja stilla upp málaflokkum með þeim hætti að eitt málefni líði á kostnað annars málefnis. „Það er bara eins og að bera saman epli og appelsínur og á alls ekki við. Ég vil alls ekki stilla þessu upp hvoru á móti öðru heldur nefni ég þessi atriði sem dæmi um miklu fjárfrekari vanda sem er einfaldlega leystur af því hann er talinn nægilega brýnn til þess.“
Fyrir svo utan þennan bráðavanda heimilislausra nefnir Kristinn hvimleiða biðlista eftir meðferðarplássum. Algengt er að þeir sem óska eftir plássi í fíknimeðferð þurfi að bíða í nokkra mánuði eftir plássi. Þegar einstaklingur óski eftir meðferð sé hann í uppgjöf og tilbúinn að leita bata. En svo þegar meðferðarplássið losnar nokkrum mánuðum síðar kunni hann að vera á allt öðrum stað með hugarfar sitt og ekki móttækilegur.
„Það liggur fyrir að hver króna sem lögð er í þennan málaflokk skilar sér margfalt til baka. Vilji er allt sem þarf og við verðum sem samfélag einfaldlega að leggja meira á okkur til að bjarga þessum meðbræðrum okkar og systrum.“
Í lokin vill Kristinn síðan vekja athygli á stofnfundi Samtaka aðstandanda og fíknisjúkra sem haldinn verður þann 25. febrúar næstkomandi, í húsnæði Al-Anon, Holtagörðum, 2. hæð. Sjá nánar hér.