Það er föstudagur og tími kominn að kanna hvaða samsæriskenningu félagarnir í Álhattinum taka fyrir að þessu sinni. Hvers vegna? Jú því samsæriskenningar gefa lífinu lit, svo lengi sem maður nálgast þær með gagnrýnu hugarfari.
Samsæriskenningar felst gjarnan í því að eitthvað sé ekki eins og það sýnist. Opinberar og viðteknar skýringar á aðstæðum eða atvikum séu í raun yfirvarp valdamikilla hópa sem sökum ískyggilega hvata vilja halda almenningi í myrkrinu. Hugtakið hefur almennt á sér neikvæðan blæ, en samsæriskenningar eru gjarnan taldar eiga rætur að rekja til fordóma, tilfinningahita eða ófullnægjandi sannana. Sumir segja að samsæriskenningar byggi heldur á gildum og trú heldur en gallhörðum staðreyndum.
Ofurhetju-rithöfundurinn Alan Moore komst svo að orði:
„Það helsta sem ég hef lært um samsæriskenningar er að þeir sem trúa á slíkar gera slíkt því það felst því huggun. Sannleikurinn um heiminn er sá að hann er óreiðukenndur. Sannleikurinn felst ekki í leynilegum samtökum Illuminati, bankakerfi gyðinga eða í gráum geimverum. Sannleikurinn er skuggalegri en það – enginn hefur stjórn á neinu. Heimurinn er óráðinn.“
Samsæriskenningarnar eru margar og fjölbreyttar. Að þessu sinni tekur álhatturinn fyrir þá spurningu hvort að mannfólk hafi verið klónað og þá hvort þekktir einstaklingar hafi í raun verið teknir úr umferð og þeim skipt út fyrir undirgefið klón. Eins er sjónum beint að vinsældum glasafrjóvgana og siðferðislegum álitamálum sem því tengjast að geta hannað afkvæmi sín áður en þau koma í heiminn.
„Árið 1996 var kindin Dolly klónuð fyrst allra dýra. Í kjölfarið vöknuðu allskyns siðferðis- og álitamál um klónun, sem og um bein afskipti mannsins að sjálfri náttúrunni og sköpunarverkinu. Stuttu síðar var klónun manna bönnuð í Bandaríkjunum og í kjölfarið fylgdu flestar aðrar þjóðir heims því fordæmi.
En getur verið að þrátt fyrir blátt bann við klónun manna hafi fólk samt verið klónað? Hvað ef að frægum og valdamiklum einstaklingum hefur jafnvel verið skipt út fyrir klón, sem láta auðveldlega að stjórn, og gera allt sem þeim er sagt, þegjandi og hljóðalaust, líkt og strengjabrúður? Ef svo er, hvar eru þessir klón geymd á meðan þau alast upp og vaxa úr grasi eða fæðast þau kannski fullvaxta? Hver er það sem er að klóna þessa einstaklinga, hvernig og hvers vegna? Hverra hagur er að það að skipta þessum aðilum út?
Í þessum nýjasta þætti af Álhattinum velta þeir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór því fyrir sér hvort það sé mögulega búið að klóna fólk og þagað sé yfir því og skoða strákarnir líka hvort frægum og áhrifamiklum einstaklingum hafi jafnvel verið skipt út fyrir undirgefna klóna sem fylgja fyrirskipunum að ofan í blindni.
Strákarnir kynna sér líka hvað í veröldinni hönnunarbörn (e: designer babies) séu og hvernig yfirstéttarfólk í Vesturlöndum sækir í auknu mæli í glasafrjóvganir í Kína og öðrum löndum, hvar þau geta “hannað sín eigin börn” með því að velja t.d háralit, augnlit og önnur útlitseinkenni algjörlega eftir eigin höfði og smekk.
Þá berst hin geysispennandi tækni CRISPR(CRISPR stendur fyrir „clustered regularly interspaced short palindromic repeats“ eða á íslensku „síendurteknar stuttar DNA-raðir sem líta eins út afturábak og áfram og koma fram með reglulegu millibili í þyrpingum“) einnig í tal, en með henni er hugsanlegs mögulegt að breyta erfðamengi fólks, til þess að fjarlægja eða koma í veg fyrir allskyns arfgenga sjúkdóma og kvilla.
Gæti yfirstéttin og hulduöflin gert sjálf sig að ofurmanneskjum sem eru ónæm fyrir allskyns sjúkdómum sem munu herja á almenning í framtíðinni? Verða krabbamein sykursýki og aðrir kvillar eingöngu áhyggjuefni okkar pöpulsins í framtíðinni á meðan valdaklíkan og fína fólkið lifir áhyggjulausu lífi laust við alla erfðagalla og hættulega sjúkdóma?
Þetta og svo margt margt fleira áhugavert í nýjasta þættinum Álhattinum, þar sem þeirri áhugaverðu kenningu að búið sé að klóna fólk er velt fyrir sér.“