fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Guðrún gagnrýndi lyfjarisa og tekjurnar hrundu í kjölfarið – ,,Get ekki gefið afslátt af sannfæringu minni”

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 9. febrúar 2024 10:50

Guðrún Bergmann Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Bergmann fékk á sig þrýsting eftir að hafa skrifað pistil þar sem hún gagnrýndi lyfjarisa, af því að hún var í samstarfi við heilsudeild fyrirtækis sem jafnframt selur vörur frá Pfizer. Guðrún, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir að tekjur sínar hafi hríðfallið eftir að samstarfinu lauk, en frelsið og sannfæringin séu sér mikilvægari en peningar:

,,Þetta var þegar Covid-faraldurinn var í hámarki og það var ekki mikil stemning fyrir öðrum skoðunum en þeim sem komu frá yfirvöldum. Ég var að vinna að markaðsstörfum fyrir heilsuvörudeild Icepharma og ég mundi ekkert eftir því að þau væru með vörur frá Pfizer. Svo bara réðist ég á fjallið og skrifaði mjög gagnrýna grein, sem ég meira að segja lét lögfræðinginn minn lesa yfir áður en ég birti hana. Þetta var í byrjun janúar 2021. Ég fékk símtal frá þeim strax í kjölfarið sem ég hlustaði á í kringum kvöldmatarleytið. Innihald símtalsins var í grunninn að það hefði allt farið á hvolf í fyrirtækinu út af þessum pistli hjá mér. Ég hugsaði með mér þegar samtalið var búið að ef ég ætlaði að halda áfram að vinna fyrir þau þá myndi ég þurfa að fylgja einhverri línu í skoðunum sem ég var bara ekki tilbúin til að gera. Í kjölfarið var þessu samstarfi í raun sjálfhætt að mínu mati og það kom ekki til greina að fara að láta ritskoða mig. Ég get ekki gefið afslátt af sannfæringu minni. Frelsið var mér meira virði en tekjurnar, en auðvitað var ekkert gaman að tekjurnar mínar hröpuðu í kjölfarið á þessu. En ég hefði aldrei þrifist í þessu eftir þetta og það er langt síðan ég áttaði mig á því að ég gæti ekki farið gegn sannfæringu minni, þó að því fylgi stundum fórnarkostnaður.”

Guðrún hefur lengi verið óhrædd við að tjá skoðanir sem ganga gegn meginstraumnum og segir mikilvægt að fólk hafi hugrekki til að segja sinn sannleika.

,,Fólk verður að fá að velja sína eigin leið í þessu lífi og það er ekki rétt að pína fólk inn í fylkingar eða neyða það til að hafa tiltekna skoðun. Það hefur aldrei verið mikilvægara að velja í meðvitund heldur en núna, af því að það er á okkur þrýstingur úr öllum áttum. Það eru mjög órólegir tímar í heiminum og stjórnvöld eru að grípa inn í líf fólks á mjög mörgum sviðum, meðal annars varðandi heilsu og hver og einn verður að reyna að finna innra með sér hvað er rétt og hvað ekki. COVID-faraldurinn sýndi okkur hluti sem ættu að fá okkur til að vera enn gagnrýnni í hugsun en áður. Við höfum verið stödd í Truman-Show, en núna eru tjöldin að falla og fólk er löngu byrjað að opna augun fyrir því sem er að gerast.”

Guðrún glímdi við heilsuleysi um árabil eftir að hafa verið misnotuð sem barn. Hún fékk magasár aðeins 10 ára gömul og læknarnir greindu hana með ímyndunarveiki:

„Ég var í áraraðir alltaf að reyna að finna hvað væri að mér og á endanum var búið að greina mig með ímyndunarveiki út af öllum einkennunum. Einkennin voru oft mjög þrálát og af öllum toga, hvort sem það voru sýkingar, verkir eða vandræði í meltingu. Það var ekki fyrr en eftir langa vegferð að ég gerði loksins þá tengingu að misnotkun sem ég varð fyrir sem barn hafi spilað inn í. Ég sé núna að það bjó til mikinn kvíða og setti líkamann úr jafnvægi. Ég var í miklu basli með taugakerfið í áraraðir,” segir Guðrún, sem neyddist til að gerast sérfræðingur í eigin heilsu til að laga sjálfa sig. Hún hefur á löngum ferli haldið mikinn fjölda námskeiða og skrifað tuttugu bækur. Í áraraðir hefur hún staðið utan við meginstrauminn og er orðin vön því að ekki séu allir sammála því sem hún segir:

„Eitt af því fyrsta sem flestir þurfa að gera er að læra að elska sjálfa sig. Það kenndi okkur það enginn og þess vegna höfum við flest verið að gefa af hálftómum tanki. Nú eru komnir tímar þar sem það hefur aldrei verið mikilvægara að hlúa vel að eigin heilsu. Áreitið er orðið svo gríðarlega mikið, neyslan og hraðinn. Við þurfum á því að halda að kyrra hugann reglulega, gefa okkur tíma fyrir okkur sjálf, hlúa að okkur og huga að því hvernig við sofum og borðum. Eins og ég sé það erum við að fara í gegnum framþróun og uppfærslu sem líkamar í þessu lífi og við getum ekki lengur bara lokað bæði augum og eyrum. Ég geri mér grein fyrir því að margir hrista hausinn þegar maður talar með þessum hætti, en ég hef í áraraðir talað um hluti löngu áður en þeir voru samþykktir í almennri umræðu. Til dæmis sjálfbær samfélög, yoga, hugleiðslu og meðvirkni. Ég var að tala um þessa hluti löngu áður en það þótti eðlilegt og var samþykkt.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Guðrúnu og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“