Knattspyrnuhjónin Baldur Sigurðsson og Pála Marie Einarsdóttir hafa sett íbúð sína við Breiðás í Garðabæ á sölu. Pála Marie er margfaldur Íslandsmeistari með Val en hún lagði skóna á hilluna árið 2018 eftir höfuðhögg og Baldur hefur einnig unnið nokkra titla með KR.
„Þá er elsku Breiðásinn okkar kominn á sölu þar sem við þurfum að stækka við okkur. Algjörlega frábær íbúð fyrir vísitölufjölskyldur. Stór garður (sem hefur fengið mikla ást) með palli, körfuboltavelli og stórri lóð að aftan. Ég vil svo ekki minnast á bílskúrinn þar sem ég er strax farinn að kvíða skilnaðinum við hann, en hann er tilbúinn í annað samband,“ segir Baldur í færslu á Facebook.
Íbúðin er 199,1 fm á efri hæð í fjölbýlishúsi sem byggt var árið 1959. Ásett verð er 113,9 milljónir króna.
Íbúðin skiptist í anddyri, eldhús, stofu/borðstofu, hjónaherbergi með útgengi á svalir, tvö svefnherbergi og baðherbergi. Háaloft er yfir íbúðinni. Bílskúr var áður nýttur sem studioíbúð og auðvelt að breyta því þannig aftur. Rafmagn í bílskúrshurð. Inn af bílskúr er rúmgott baðherbergi með klósetti, vaski og sturtuklefa. Inn af bílskúr er líka hrátt rými, (sem kallað er hellirinn.)
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.