Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður og núverandi forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, greinir frá því á Facebook síðu sinni að í gær hafi hún og eiginmaður hennar, Sigurður Pétursson sagnfræðingur, ásamt hundi þeirra lent í afar miklum hríðarbyl á leið til Ísafjarðar með þeim afleiðingum að bíll þeirra fór út af veginum. Öll sluppu þau ómeidd:
„Segi ekki mínar farir sléttar – en er þó heil á húfi og við hjónin bæði ásamt Vaski – eftir að hafa misst bílinn útaf í þeim glórulausasta öskuhríðarbyl sem ég hef á ævi minni lent í. Jamm, rétt eftir að við komum niður af Steingrímsfjarðarheiði á leið til Ísafjarðar í kvöld. Við sáum ekkert, stikan horfin og á sekúndubroti, búmm! Útaf.“
Fengu þau far með öðrum bíl til Ísafjarðar en urðu að skilja sinn bíl eftir. Til stendur að draga bílinn upp á veg í dag.
Ólína er að vonum ánægð með að ekki fór verr:
„Jamm … allt getur gerst. Ég þakka bara fyrir að vera heil á húfi.“
Í athugasemdum við færsluna spyr maður nokkur Ólínu hvort að ekki hafi verið varað við ferðalögum á þessum slóðum vegna yfirvofandi illviðris og segir að alltaf verði að fylgjast með náttúrunni.
Ólína svarar því til að þau hjónin séu ekki fædd í gær. Þau hafi kynnt sér veðurspána og verið vel útbúin enda hafi vegir verið opnir, enginn þæfingur eða ófærð en hins vegar eingöngu blinda á þessum tiltekna kafla.