Bandaríska leikkonan Shannen Doherty, sem er einna þekktust fyrir af hafa farið með hlutverk Brendu Walsh í framhaldsþáttunum Beverly Hills 90210, hefur glímt við brjóstakrabbamein í talsverðan tíma. Var meinið komið á fjórða stig en næsta stig væri hreinlega dauðinn. Hún hefur hins vegar greint frá góðum fréttum um meðferðina við meininu, í hlaðvarpi sínuu, og segir nýja meðferð sem hún fór í hafa gert kraftaverk.
Hún segir meðferðina felast í að tilteknu efni sé komið inn í líkama hennar (e. infusion) og eftir fjögur skipti hafi ekki verið neinn sjáanlegur árangur. Hún ræddi, í hlaðvarpinu, meðferðina við krabbameinslækni sem hefur haft umsjón með henni.
Þetta kemur fram í umfjöllun NBC.
Í sjötta og sjöunda skiptið hafi árangurinn hins vegar verið sjáanlegur og Doherty segir að fyrir sér sé það kraftaverk.
Doherty lýsti hins vegar ekki meðferðinni nánar og því er enn óljóst í hverju hún felst nákvæmlega.
Hún telur ekki óhugsandi að Guð hafi ákveðið að leyfa henni að lifa lengur.
Doherty hefur almennt verið mjög opin með baráttu sína við brjóstakrabbamein sem hefur staðið með hléum í hartnær áratug.
Hún er nú 52 ára gömul en var fyrst greind árið 2015. Eftir tveggja ára meðferð var hún sögð vera í bata en krabbameinið lét aftur á sér kræla 2020 og var þá komið á fjórða stig. Á síðasta ári hafði meinið dreift sér í heila og bein leikkonunnar.
Doherty segir hvern dag sem hún lifir vera gjöf og það eina sem hún geti gert sé að lifa með vonina að leiðarljósi.