fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Brynjar hæðist að Vilhjálmi eftir uppákomuna á þorrablótinu – Nýjasti kaflinn í erjum þeirra

Fókus
Þriðjudaginn 30. janúar 2024 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nú embættismaður í fjármálaráðaneytinu, fer háðulegum orðum um Vilhjálm Vilhjálmsson lögmann á Facebook-síðu sinni. Kemur færslan í kjölfar uppákomu sem varð á þorrablóti Stjörnunnar í Garðabæ um síðustu helgi en Brynjar var veislustjóri blótsins. Helgi, sonur Brynjars, var þá að fara með gamanmál fyrir gesti þegar Vilhjálmur hrópaði að honum og gerði að sögn alvarlegar athugasemdir við grínið.

Vísir rekur atburðarásina og orsakir hennar nokkuð ítarlega í frétt sem birt var fyrr í dag.

Þar er vitnað í fréttir Smartlands af málinu um að Vilhjálmur hafi gert hróp að Helga þar sem hann hafi verið að gera grín að Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra, og þeim fjölda ásakana sem dunið hafa á honum um kynferðislega áreitni og ofbeldi í garð kvenna.

Helgi hafi þá kallað yfir salinn: „Er ein­hver gæsla hérna? Það er BDSM-lögmaður Íslands að trufla showið mitt Getið þið fjar­lægt hann?“

Vilhjálmur segir í samtali við Vísi að ekki sé rétt með farið í frétt í Smartlands. Hann vildi lítið tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann telji að Stjarnan hafi getað gert betur en að fá Brynjar sem veislustjóra og son hans, sem hafi lítið fram að færa annað en að vera sonur Brynjars, til að fara með gamanmál.

Landsréttur undirrótin?

Brynjar tjáði Vísi að Helgi, sem væri lögmaður og starfsmaður Alþingis, hefði stundum verið fengin til að fara með gamanmál. Hann segir Helga hafa gert grín að hinum bandarísku Baldwin-bræðrum og Jóni Baldvini þegar Vilhjálmur hafi gengið upp að Helga og hrópað á hann. Brynjar hafi ekki heyrt allt sem fór Helga og Vilhjálmi á milli en heyrst Helgi hafa beðið um hjálp við að sleppa undan hinum leðurklædda lögmanni en Vilhjálmur mun hafa verið klæddur í leðurjakka frá ítalska tískuhúsinu Gucci.

Í frétt Vísis er vísað til áralangra deilna milli Brynjars og Vilhjálms. Vilhjálmur fullyrti að Brynjar hafi gefið sæti sitt á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fyrir Alþingiskosningarnar 2017, eftir til Sigríðar Andersen gegn því að Sigríður myndi, í krafti embættis dómsmálaráðherra, skipa Arnfríði Einarsdóttur, eiginkonu Brynjars, sem dómara við Landsrétt þegar það dómsstig var sett á fót.

Sigríður breytti lista hæfnisnefndar um mat á umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt. Hún tók fjögur nöfn út af listanum og setti önnur fjögur í staðinn, þar á meðal nafn Arnfríðar.

Brynjar neitar því að slíkt samkomulag hafi verið gert.

Vilhjálmur kærði skipan Arnfríðar til Mannréttindadómstóls Evrópu eftir að hún dæmdi í máli umbjóðanda hans, eftir að Hæstiréttur hafnaði kæru hans. Taldi Vilhjálmur að Arnfríður hefði verið vanhæf til að dæma í málum fyrir Landsrétti. Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu var sú að skipan Sigríðar á dómurum í Landsrétt hefði brotið gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirdeild Mannréttindadómstólsins staðfesti síðar úrskurðinn en í millitíðinni sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.

Yfirdeildin sem á ensku kallast „Grand Chamber“ komst að einróma niðurstöðu í málinu en allir 17 dómarar hennar voru sammála. Sú tala á eftir að skipta máli þegar kemur að viðbrögðum við hinni háðulegu færslu Brynjars.

„Maðurinn er ófullkominn vera“

Í umræddri færslu Brynjars er Vilhjálmur ekki nefndur á nafn en nokkuð augljóst virðist vera að hann eigi við Vilhjálm:

„Maðurinn er ófullkomin vera og veikleikarnir eru margir. Veikleikinn getur verið margs konar og háir okkur mismikið í lífinu. En öfund, reiði og alvarlegur skortur á kímnigáfu fer einna verst með okkur.“

„Þessir eiginleikar, sem magnast gjarnan við áfengisneyslu, eru oft áberandi hjá mönnum sem líta stórt á sig en áhugi annarra á þeim mjög takamarkaður. Þeir eru oft fígúrulegir í klæðaburði, jafnvel fram eftir öllum aldri, og eru litlir í sér og stundum bara litlir. Rannsóknir sýna að þessir eiginleikar eru algengir hjá mönnum sem höfðu miklar væntingar um pólitískan frama á unga aldri en eyðlögðu hann með að gera upp á bak.“

„Þetta er ekki fyrsta málsgreinin í væntanlegri ævisögu minni ef einhverjir skyldu halda það.“

Í athugasemd við færsluna svarar Vilhjálmur einfaldlega:

„17-0“

Er hann þar að vísa til áðurnefnds úrskurðar yfirdeildarinnar í Landsréttarmálinu. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, tekur einnig til máls í athugasemdum við færsluna og á þar í nokkru orðaskaki við Brynjar. Sveinn segir augljóst að úrskurðurinn, sem féll 2020, fari enn í taugarnar á Brynjari. Brynjar neitar því hins vegar alfarið og segist ekki láta vitlausa dóma angra sig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kolbrún syrgir bróður sinn

Kolbrún syrgir bróður sinn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans
Fókus
Fyrir 3 dögum

Laufey áberandi á aðventunni

Laufey áberandi á aðventunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur

Ómar leitar að leigjanda yfir jólahátíðina fyrir 600 þúsund krónur