fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Grindvíkingurinn Bangsi kynntist Víetnamstríðinu – „Þegar ég heyri þyrluhljóð fæ ég straum niður hryggsúluna“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. janúar 2024 09:00

Bangsi, Björn Haraldsson, sigldi með vopn og vistir til Víetnam í miðju stríði. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bangsi, Björn Haraldsson, er þessa mánuðina flóttamaður frá heimabæ sínum Grindavík eins og þúsundir annarra. Hann þráir ekkert heitara en að fá að komast aftur heim og njóta efri áranna í gömlu húsi sem hann og kona hans Didda eiga í útjaðri bæjarins.

Bangsi er ekki Grindvíkingur að uppruna en hefur búið þar í rúma hálfa öld og rekið þar sjoppu sem óx í risaverslun. Þar áður sigldi hann um heimshöfin og flutti vistir og vopn til dátanna í Víetnam. Sú reynsla hefur lifað með honum alla tíð.

Við hittum Bangsa fyrir á Nýlendugötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Í gömlu húsi sem hann og Didda hafa nýlega fest kaup á. Ekki aðeins fyrir sig sjálf heldur sem athvarf fyrir börn sín og barnabörn sem einnig eru flóttamenn frá Grindavík.

Af hverju ertu kallaður Bangsi?

„Ég tek þetta í arf eftir afa minn,“ segir hann. „Manni var nú svoldið strítt á þessu. Þegar ég flutti til Bandaríkjanna gátu þeir ekki sagt Björn en þeir gátu sagt Bangsi, eins og í bounce a ball. Þegar ég kynntist konunni minni var hún hörð á að nota þetta. Þetta fylgdi mér svo til Grindavíkur. Ég er sáttur við þetta og nú kenna börnin mín sig við Bangsa.“

Lét lítið fyrir sér fara

Bangsi er fæddur árið 1943 á Laugavegi 92, Barónshúsinu svokallaða. Fimm ára gamall flutti hann í Laugarnesið, á Hraunteig.

Haraldur faðir hans var sjoppukall og húsasmiður og Sigríður móðir hans var húsmóðir. Bangsi var elstur í fjögurra systkina hópi.

„Það fór lítið fyrir mér. Ég var illa lesblindur og reyndi að láta lítið fyrir mér fara í skólanum. Svo var ég að lokum sendur til sálfræðings sem sagði að ég væri einu og hálfu ári á undan í þroska. Þeir héldu að það hefðu orðið einhver mistök og sendu mig til annars sem kom með sömu niðurstöðu. Þetta hjálpaði mér svolítið. Þá vissi ég að ég væri ekki heimskur,“ segir Bangsi.

„Ég var með einhverja vitleysisdrauma um að verða arkitekt. Ég lærði húsgagnasmíði og ætlaði að halda áfram námi í Danmörku. Svo skyndilega tók ég vinkilbeygju.“

Sá fyrir sér huggulegar siglingar

Það var fyrir tilstilli móðurbróður hans, Árna Björnssonar sem kallaður var Bassi, að Bangsi hélt utan til Bandaríkjanna og fór á sjóinn rúmlega tvítugur. Bassi hafði farið utan í seinna stríði og siglt um heimsins höf í nærri tuttugu ár á flutningaskipum.

Á þessum tíma starfaði hann fyrir risastórt sjómannafélag í Bandaríkjunum við að taka á móti strákum sem vildu komast á sjóinn. En útgerðirnar hringdu í félagið og pöntuðu menn á skipin.

Bangsi sigldi um heimsins höf með heimahöfn í New York.

„Ég bað hann að hjálpa mér að komast á sjóinn,“ segir Bangsi. „Hann sagði hins vegar: „Nei, sjómennska er ekkert líf.“ Þá bað ég mömmu að fara í hann en þá kom aftur nei. Þá var amma eftir og þá kom loksins já.“

Bangsi sá fyrir sér sjómennskuna í hyllingum.

„Ég vissi um hans ævintýri og fannst þetta mjög heillandi,“ segir hann. „Ég sá fyrir mér huggulegar siglingar í Miðjarðarhafinu. Ég fór út í mars 1965 og sex mánuðum seinna var ég down-town Saigon.“

Vopn og vistir til Víetnam

Víetnamstríðið, það er stríð Norður Víetnam gegn Suður Víetnam með stuðningi Bandaríkjanna, hófst árið 1964. Eins og gefur að skilja þurfti gríðarlega flutninga af vopnum, skotfærum, mat og öðrum vistum til þess að reka her í annarri heimsálfu.

Bangsi jánkar því að hann hafi líklega kynnst Víetnamstríðinu betur en flestir Íslendingar. Mest var hann í Kyrrahafssiglingum og oft með vopn eða vistir til hersins í Víetnam. Þetta voru ekki hættulausar ferðir.

„Við fórum tvær ferðir með fullfermi af sprengiefni, átján þúsund tonn. Saigon er sextíu mílur inni í landi og það var fjögurra tíma sigling upp ánna. Hefðum við fengið kúlu sem næði inni í lestina hefði orðið svo mikil sprenging að stöðuvatn hefði myndast,“ segir Bangsi.

Hann hafði verulegar áhyggjur af þessu og var meira að segja búinn að sjá fyrir sér hvernig þetta gæti allt saman farið á versta veg.

„Þegar ég fór fyrstu ferðina upp Saigon fljótið faldi ég mig aftur á skut. Ég var með passann minn og seðlana undir beltinu. Ef við hefðum fengið kúlu var möguleiki að láta sig vaða aftast á skipinu. Ég var búinn að sjá það að skipið myndi sennilega springa út til hliðanna. Ég hefði átt veikan sjéns,“ segir hann.

Þunnar hægðir

Með svo viðkvæman farm þurfti að passa að ferma og afferma skipið mjög gætilega. Áhöfnin stoppaði allt frá tíu dögum upp í mánuð í Saigon borg í senn. Bangsi segir að Saigon hafi verið mjög framandi fyrir Íslending og eftir klukkan tíu á kvöldin var ávallt útgöngubann.

Aðspurður um hvort hann hafi einhvern tímann lent í háska segist hann blessunarlega hafa sloppið við það. „Þetta var oft í hælunum á mér en ég slapp alltaf,“ segir hann. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið smeykur en ég var með þunnar hægðir. Þeir seldu svo vondan bjór, sem kallaður var 33 og hann gerði manni ekki gott.“

Árin á sjónum voru ekki hættulaus. DV/KSJ

Tilfinningin að vera þarna súrnaði eftir því sem leið á. En auk þess að flytja sprengjur fór Bangsi einnig ferðir með vistir til Víetnam.

„1965 þegar ég kom þangað fyrst var þetta allt í lagi. Svo kom ég aftur tvær ferðir árið 1966. Þá fann ég að við værum ekki þarna til að hjálpa heimamönnum. Við vorum ekkert velkomnir. Þetta lá í loftinu,“ segir hann. Þessi ár sitja enn þá í honum. „Þegar ég heyri þyrluhljóð fær ég straum niður hryggsúluna.“

Flestir Íslendingar þekkja Víetnamstríðið aðeins af hvíta tjaldinu. Bangsi segir að myndirnar gefi misgóða innsýn inn í þennan tíma.

„Ég hef lagt mig fram um að skoða bíómyndir um Víetnam. Myndin The Killing Fields kemst næst þessu. Þá segir blaðamaður söguna og þarf ekki að vera hetja. The Deer Hunter náði þessu svolítið líka.“

Alvöru sjómennska

Sjóferðirnar sjálfar gátu líka reynt á menn. Frá Panamaskurðinum til Víetnam var tveggja vikna sigling og rúmlega það ef siglt var frá San Francisco.

Bangsi segir að alla jafna standi Kyrrahafið undir nafni og sé mjög kyrrt. En ef það koma hvirfilvindar séu þeir ótrúlega sterkir.

„Við vorum eitt sinn í Okinawa og það var búið að grafa sig ofan í fyrsta dekk. Þá kom neyðarhringing um að allir yrðu að taka sér stöðu og gera sjóklárt því það var að koma hvirfilvindur yfir eyjuna. Stór hluti áhafnarinnar var í fríi í landi, þar á meðal loftskeytamaðurinn. Við gerðum sjóklárt og sigldum úr höfn, beint inn í vindinn og vorum í honum í fjóra daga. En vindurinn kom svo aldrei yfir eyjuna,“ segir Bangsi. „Og við án loftskeytamanns.“

Bangsi kynntist heiminum í þessum siglingum og ekta sjómennsku.

„Gámaskipin voru rétt að byrja svo þetta var alvöru sjómennska, með bómum og öllu. Við vorum viku í hverri höfn og fjóra tíma að gera sjóklárt,“ segir hann.

Hann sigldi ekki aðeins yfir Kyrrahafið heldur yfir Atlantshafið til Evrópu og inn í Karíbahafið til Púertó Ríkó.

Heimahöfnin var í New York og þar kynntist hann Diddu.

Kynntust á Manhattan

„Við fundum hvort annað í Bandaríkjunum,“ segir Bangsi. Didda, það er Guðný Hallgrímsdóttir verðandi eiginkona hans, var þá au-pair í New York. Eins og svo mörg pör þá kynntust þau á skemmtistað eitt föstudagskvöld.

„Ég sá að Brúarfoss var í landi og vissi að það væri alltaf saltfiskur föstudögum í Brúarfossi,“ segir Bangsi, en Brúarfoss var skip Eimskipafélagsins. „Ég komst í hann og allir fóru svo að gera sig klára í að fara upp á bar á Manhattan. Þangað komu líka íslenskar flugáhafnir og fleiri Íslendingar. Þar var djúkbox með fjórum íslenskum plötum. Ef það kom íslenskt lag leit maður upp og gáði hver væri að setja klink í boxið.“

Didda og Bangsi kynntust á Manhattan.

Þarna kynntust Bangsi og Didda og felldu hugi saman. Aðspurður hvort það hafi gerst samstundis segist hann halda það. „Hún segir að ég hafi verið erfiður. Ég kannast ekkert við það,“ segir hann og brosir út í annað.

Bangsi og Didda eignuðust fjögur börn og eiga í dag átta barnabörn. Elsta drenginn voru þau með tvö ár í Bandaríkjunum áður en þau ákváðu að flytja heim til Íslands árið 1970. Þá til Grindavíkur, smábæjar sem þau áttu engin tengsl við.

Mokuðu inn peningum

Það var Haraldur faðir Bangsa sem ruddi veginn fyrir hann í Grindavík. Haraldur hafði rekið ýmsar sjoppur í Reykjavík en ávallt þegar reksturinn var farinn að ganga vel missti hann leiguhúsnæðið. Þá bauðst honum að kaupa Báruna í Grindavík sem hann gerði og bað Bangsa um að koma og hjálpa sér að koma rekstrinum af stað.

Bangsi hafði hugsað sér að vera búsettur hér en halda áfram að vinna í Bandaríkjunum þar sem launin voru mun hærri en á Íslandi. Hann segir að það hafi verið afar óraunhæft eftir á að hyggja. Rekstur Bárunnar gekk hins vegar svo vel að hún varð að fullu starfi hjá Bangsa.

Báran var lítil til að byrja með en stækkaði ört næstu áratugi.

„Það voru þarna sex metvertíðir í röð. Þannig að við vorum bókstaflega að moka inn peningum. Við reyndum hins vegar að láta lítið fara fyrir því. Ég var að byggja hús í Grindavík á þessum tíma. Maður tók út fyrir innréttingunum þessi jólin og fyrir eldhúsinu þau næstu. Þó maður hefði getað klárað þetta strax vildi maður ekki ógna nágrönnunum,“ segir hann.

Haraldur missti hins vegar heilsuna á þessum árum og Bangsi tók alfarið við rekstrinum. Haraldur lést árið 1979.

Veitti og þáði sálfræðiaðstoð

Árið 1970 bjuggu um 1200 manns í Grindavík. Eftir Eyjagosið árið 1973 rauk talan upp í 1800. Flestir Eyjamennirnir stoppuðu hins vegar ekki lengi við.

„Grindavík var alltaf skemmtileg. Alltaf öflugt fólk,“ segir Bangsi. „Það sama á við í dag og þá. Menntun var ekki mikil en laun voru há. Þarna kom ráðagott fólk. Fólk úr Skagafirðinum sem gat sett niður kartöflur, fellt net og gert við jeppann. Fólk sem gat gengið í öll störf.“

Bangsi segir það þó hafa verið mikla breytingu að hætta að sigla um heimsins höf til þess að setjast að í litlu sjávarþorpi og reka sjoppu.

„Það var eiginlega ekkert allt of auðvelt. En ég gat komist heim á kvöldin, verið með börnunum og sinnt þeim,“ segir hann. Vinnan var mikil en hún var gefandi og hann varð að nokkurs konar sálusorgara. „Ég hélt alltaf að sjómennskan hefði verið skemmtilegust en Báran var góð. Ég veitti mikla sálfræðiþjónustu og þáði líka. Þetta var lifandi staður.“

Bangsi rak Báruna í 37 ár. Upphaflega var hún í 50 fermetra húsnæði en undir lokin var það orðið 1000. „Það var svo stór lóð sem fylgdi þessu að ég gat alltaf byggt við,“ segir hann. „Lengi vel seldum við allt nema matvöru. Svo í restina var hún komin inn líka.“ Þá rak Árni Björn sonur Bangsa einnig pöbbinn Hafurbjörninn á þessum stað.

Árið 2006, um það leyti sem Bangsi var að hætta rekstrinum, settist hann í bæjarstjórn Grindavíkur fyrir Frjálslynda flokkinn. Þremur árum síðar gekk hann svo í Vinstri græna og inn í meirihlutasamstarf.

Hann segir mannlífið í Grindavík hreint út sagt frábært. „Maður vissi nánast ekki af því þegar maður var í því miðju en þegar það er horfið sér maður eftir því,“ segir hann.

Tæmdist sjálfkrafa

„Við vorum meðvituð um þetta,“ segir Bangsi aðspurður um hvort að það hefði komið til tals á þessum fimmtíu árum í Grindavík að bænum yrði ógnað af jarðhræringum.

„Það er hraun allt í kring og hraun undir. Það sem skeði einu sinni getur skeð aftur. Ég átti von á gosi en ekki jarðfalli,“ segir hann.

Land byrjaði að rísa á Reykjanesskaga árið 2019 og fyrsta eldgosið, í Fagradalsfjalli, kom upp árið 2021. Bangsi segir að það hafi ekki verið neinn beygur í upphafi jarðhræringanna.

„Þessi túristagos voru bara skemmtileg. Allir áttu leið til Grindavíkur. Við vorum ekkert smeyk við þetta,“ segir hann.

En allt breyttist þann 10. nóvember síðastliðinn þegar varð mikið jarðsig í bænum og hann var loks rýmdur um kvöldið.

Lýsir hann skjálftunum þennan dag sem hreinum hryllingi. Komu þeir á mínútu fresti allan daginn. Á endanum fóru Bangsi og Didda úr bænum klukkan átta, áður en rýmt var.

„Bærinn tæmdist sjálfkrafa. Það þurfti ekkert að ýta á eftir fólki. Það var ekki hægt að vera þarna,“ segir hann.

Fyrstu nóttina fengu þau að gista hjá syni þeirra en svo fengu þau lánaða íbúð á Skólavörðustíg.

Ofstjórnun og seinagangur

Bangsi og Didda eiga þrjú hús í Grindavík, eitt í sigdalnum sem varð fyrir altjóni, annað sem er einnig skemmt og það þriðja í Þórkötlustaðahverfinu, austast í bænum. Tvö börn þeirra búa í bænum líka og þurftu að flýja.

Bangsi er hins vegar ósáttur við hvernig yfirvöld hafa haldið á spöðunum varðandi Grindavík.

„Ég vil bara komast heim. Þar líður mér best, með heitan pott og útsýni út á sjóinn,“ segir hann. „Við eigum gamalt hús í Þórkötlustaðahverfinu sem okkur þykir ákaflega vænt um.“ „Við viljum helst hverfa þangað,“ segir Didda sem kemur nú inn með ljósmynd af húsinu, sem stendur í útjaðri bæjarins.

Bangsi vill komast heim til Grindavíkur sem fyrst. DV/KSJ

„Þetta er ofstjórnun, alveg klárlega,“ segir Bangsi og er augljóslega mikið niðri fyrir. „Við sjáum sérsveitina elta rollukalla, þungvopnaða. Hvað er í gangi?“ spyr hann.

Aðspurður segist Bangsi hafa skilning á að margir vilji komast í burtu. Sérstaklega ungt og aðflutt fólk með börn sem hafi kannski ekki mikil tengsl við bæinn.

Hann telur líka að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gangi allt of hægt fyrir sig, sem og verklag Náttúruhamfaratryggingar. Vitnar hann í Bryndísi Gunnlaugsdóttur, fyrrverandi bæjarfulltrúa sem vakti athygli á nýlegum íbúafundi í Laugardalshöll.

„Hver dagur hjá okkur er eins og vika. Þremur mánuðum eftir jarðfallið er ekki farið að gera upp eitt einasta tjón. Það er alveg dæmalaus hægagangur í þessu,“ segir hann.

Ákváðu Bangsi og Didda að festa kaup á húsinu í Nýlendugötu til þess að hafa öryggi fyrir sig og sína á meðan þetta ástand varir. Treysta þau á að fá greitt úr Náttúruhamfaratryggingunni fyrir því.

Grindavík verði að eiga framtíð

Þrátt fyrir að útlitið sé svart um þessar mundir og verið sé að ræða hvort Grindavík verði yfirhöfuð byggileg á ný segist Bangsi bjartsýnn um framtíð bæjarins.

„Ég er orðinn fullorðinn maður og ég sé fyrir mér bjarta framtíð í Grindavík. Ef fólk fær að vinna. Þarna eru þrír togarar og hundrað manns í vinnslunni,“ segir hann.

Því lengur sem bænum sé haldið lokuðum, þeim mun meiri hætta sé á því að hann breytist í draugabæ.

„Höfnin er í lagi. Allt hafnarsvæðið og öll fiskvinnslan. Þarna eru fjögur megin fyrirtæki og tvö smærri. Gleymum því ekki að það eru mikil verðmæti í bænum og mikil þekking í fyrirtækjunum. Þekking sem ekki er hægt að læra í skólum,“ segir hann. Grindavík verði að eiga sér framtíð. „Það verður að vera. Látið okkur um þetta. Við leysum þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“