Ísland heldur áfram að rísa í veðbönkum fyrir Eurovision-söngvakeppnina sem fram fer í Malmö í vor. Samkvæmt Eurovisionworld.com er Ísland í 2. sæti og eru sigurlíkurnar nú metnar 9%.
Í gær var Ísland í 3. sæti á listanum og virðist margt benda til þess að ísland fari á toppinn áður en yfir lýkur.
Þetta vekur athygli, ekki síst í ljósi þess að framlag Íslands hefur ekki enn verið valið og þá hefur nær enginn heyrt þau lög sem keppa í undankeppninni. Þá liggur ekki einu sinni fyrir hvort Ísland verði með.
Allt bendir til þess að þessi mikli uppgangur Íslands í veðbönkum tengist því að Palestínumaðurinn Bashar Murad mun taka þátt í Söngvakeppninni. Áður en það var opinberað að hann tæki þátt í undankeppninni var Ísland í neðri hlutanum í veðbönkum.
Mjög hefur verið þrýst á hér á landi að Ísland verði ekki með í keppninni í vor vegna þátttöku Ísraels. RÚV tilkynnti í vikunni að Söngvakeppnin yrði aftengd Eurovision-söngvakeppninni og var ekki útilokað að sigurvegari keppninnar færi ekki til Malmö í maí þar sem keppnin fer fram.