fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Berfættur Beggi Ólafs stendur við umdeildu ummælin – „Það er eins og það megi ekki hvetja karlmenn í dag“

Fókus
Mánudaginn 8. janúar 2024 11:20

Skjáskot/Beggi Ólafs

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergsveinn Ólafsson doktorsnemi segist elska líf sitt í Kaliforníu, þar sem hann stundar doktorsnám. Bergsveinn, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasona, þurfti tíma til að aðlagast lífinu í Los Angeles, en fær nú reglulega óraunveruleikakennd yfir því hve þakklátur og ánægður hann sé með lífið.

„Ég sakna Íslands stundum og hlutanna sem ég var að gera hér heima, en lífið í Los Angeles er frábært,“ segir Beggi sem var berfættur í viðtalinu. Sölva leist vel á það og klæddi sig sjálfur úr skónum og sokkunum.

„Það var erfitt að hætta að gera hlutina sem ég gerði á Íslandi og þurfa að byrja að klífa fjallið alveg frá byrjunarreit aftur þegar ég kom út. Þannig að það tók mig tíma að aðlagast og efla félagsnetið, en eftir því sem tíminn líður kann ég alltaf betur og betur við mig. Bandaríkin eru auðvitað gríðarlega ólík Íslandi og það er margt í hugarfarinu sem er mjög ólíkt því sem við eigum að venjast. En undanfarið hef ég átt daga þar sem ég er að æfa úti á morgnana við sólarupprás og fer svo í sjóinn og hreinlega get ekki hætt að hugsa um hvað ég sé gríðarlega þakklátur og heppinn að fá að búa í Kaliforníu og vera að gera hluti sem ég elska. Ég fæ reglulega óraunveruleikatilfinningu yfir því hvað líf mitt er frábært og hvað ég er þakklátur fyrir það. Það er hægt að finna allt í Los Angeles og lífsgæðin eru mikil. Mig hafði alltaf langað að kynnast annarri menningu og búa annars staðar en á Íslandi til að þroskast og reyna meira á mig. Skólinn sem ég er í er einn sá öflugasti sem til er og ég er stanslaust að læra eitthvað nýtt.“

Umdeild ummæli

Beggi hefur vakið athygli fyrir afstöðu sína og umræðu um karlmennsku á samfélagsmiðlum og í viðtölum. Hann segist ekki taka það inn á sig þó að ákveðinn hópur ráðist á sig á netinu.

Hann olli talsverðu fjaðrafoki í ágúst 2022 fyrir athugasemdir sínar um karlmennsku sem fóru öfugt ofan í marga. Moldviðrið hófst þegar Beggi birti myndband á Instagram þar sem hann talaði um mikilvægi þess að karlmenn megi vera karlmenn. Ummæli hans voru höfð að háði og spotti á samfélagsmiðlum. Hann var einnig harðlega gagnrýndur og var meðal annars kallaður hinn „íslenski Andrew Tate.“

Sjá einnig: Beggi Ólafs veldur usla með umdeildu myndbandi – „Íslenskur Andrew Tate mættur“

Hann vakti svo enn frekari usla þegar hann fór í viðtal hjá Ísland í dag á Stöð 2 í janúar í fyrra. Í viðtalinu ræddi Beggi meðal annars um að það væru vond skilaboð til ungra drengja að tala um eitraða karlmennsku. Hann sagði einnig að karlmenn eigi að vera ófeimnir við að benda á mikilvægi sitt í þjóðfélaginu og ræddi um þriðju vaktina.

„Ég tók þetta ekki inn á mig“

Beggi ræðir um málið í þættinum hjá Sölva. „Ég er löngu kominn á þann stað að vita hver ég er og vita hverjum ég á að taka mark á. Mér er ekki sama um það hvað fólki sem ég treysti og virði finnst um mig, en er alveg laus við að láta það trufla mig hvað einhverjir lyklaborðsriddarar segja. Það var ákveðinn hópur sem fór alveg á límingunum þegar ég tjáði mig um karlmennsku fyrir ekki svo löngu. Ég átti að vera orðinn íslenskur Andrew Tate og bara stórskaðlegur maður. Ég tók þetta ekki inn á mig, enda veit ég alveg hver ég er og hvað ég stend fyrir. Ég stend við allt það sem ég segi og myndi segja þetta aftur í dag. Það er hæpið að ég væri á skólastyrk í háskóla sem er lengst til vinstri, valinn nýliði ársins og að stjórna rannsóknarstofu, ef ég væri skaðlegur öfgamaður,“ segir Beggi, sem segist ekki hika við að segja sinn sannleika, enda sé það eina leiðin til að lifa lífinu.

„Þú þarft ekki stöðugt að reyna að muna hvað þú segir ef þú segir bara satt. Það getur vel verið að það mislíki það einhverjum, en þá veit fólk allavega hvar það hefur þig og það fylgir því mikið frelsi að vera heiðarlegur. Það er ákveðið ævintýri að þora að segja sinn sannleika opinberlega og sleppa tökum af því hvað fólki finnst um það. Það eykur líka líkurnar á því að þú festist inn í einhverri hugmyndafræði þar sem þú verður að hafa ákveðnar skoðanir í öllum málum og hættir í raun og veru að hlusta á þína eigin rödd. Samfélagið yrði mjög furðulegt og vont ef allir væru alltaf sammála.“

„Það er eins og það megi ekki hvetja karlmenn í dag“

Beggi segir að það sé rangt að senda þau skilaboð til ungra karlmanna að þeir séu ómögulegir þar til annað komi í ljós.

„Það er eins og það megi ekki hvetja karlmenn í dag og skilaboðin eru aðallega að þeir verði að breyta sér, sinni ekki mikilvægu hlutverki í samfélaginu og að við þurfum ekki á þeim að halda. Ég vil að við sendum þau skilaboð út í samfélagið að karlmennska sé dyggð og það sé jákvætt að vera sterkur og taka ábyrgð, hafa sýn á framtíðina og sterkan tilgang,“ segir Beggi, sem segir að það halli víða á karlmenn og það þurfi að taka umræðuna á öðrum nótum en að annar hver karlmaður sé eitraður.

„Mér finnst karlmennska mjög heillandi og það er ekki hægt að banna fólki að tala á þeim nótum. Karlmennska er meðal annars að vera hugrakkur, duglegur, taka ábyrgð og vera heiðarlegur og það þarf að tala þessa þætti upp, en ekki niður. Staðan er sú að karlmenn standa sig verr í öllum fögum í skóla, eru miklu ólíklegri til að ná grunnhæfni í lestri, skrift og vísindum. Við vitum að stór hluti stráka er í raun ólæs eftir tíunda bekk. Það þarf að ná til ungra karlmanna og tala þá upp en ekki niður. Umræðan hefur mestmegnis verið á þann veg að það sé eitthvað að karlmönnum og þeir sem voga sér að tala öðruvísi fá á sig reiði frá háværum minnihlutahópi af lyklaborðsriddurum. Mikið af ungum karlmönnum eru að basla og þurfa á því að halda að stálinu sé stappað í þá, en ekki að það sé stanslaust verið að tala þá niður.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Begga og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“