fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Ragnhildur með mikilvæga áminningu – Kílóin koma hraðar til baka ef þú gerir þetta

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 4. janúar 2024 09:35

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir setja sér ný markmið á nýju ári, oft ansi háleit markmið sem gleymast fljótlega.

Ragnhildur Þórðardóttir, eða Ragga nagli eins og hún er þekkt, gefur nokkur góð ráð hvernig er hægt á ná raunverulegum árangri sem endist.

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari. Pistlar hennar um heilsu á mánnamáli hafa slegið í gegn um árabil.

Mynd/Facebook

„Í upphafi árs er herjað á örvæntingu landans og dynja yfir auglýsingar um 30 daga áskoranir og mataræðiskúrar. Margir hoppa á slíkar áskoranir og rjúka af stað í ræktinni af offorsi og fylgja reglum um mataræði eins og kaþólskir kórdrengir. En gefa svo skít í allt saman eftir þessar fjórar vikur,“ segir Ragnhildur og tengja eflaust margir við orð hennar.

Hún segir að ýmsar ástæður geti legið þar að baki.

„Því hegðunarbreytingin var of stór. Það þurfti að búa til of margar nýjar venjur. Umturna lífinu til að fylgja biblískum reglum. Verkfræðing frá NASA til að formúlera máltíðirnar. Skipulag dagsins á pari við að stjórna aðalfundi Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún og heldur áfram:

„Væntingar með himinskautum. Instagramm póstar í auglýsingu sýndu fitutap á hraða örbylgjunnar en raunin varð önnur í hrímköldum íslenskum veruleika.

Þú borðar minna og minna og minna til að sigra áskorunina. Sjúga klaka og sleikja kálblað. Urlandi matarkvíði hríslast um hrygginn. Veist orðið ekkert hvað þú mátt, og mátt ekki borða. Eina sem þú tapaðir var vitglóran og lífsgleðin. Lífshamingjan fýkur burt eins og haustlauf í norðannepju.“

Því hraðar sem kílóin fara, því hraðar koma þau til baka

Ragnhildur bendir á að þó okkur langi kannski að missa „aukakílóin“ núna strax þá geti það snúist upp í andhverfu sína: Því hraðar sem þú missir aukakílóin, því hraðar koma þau til baka.

„Líkaminn vill ekki svona æsing. Hann er rólegheitagaur. Við erum ennþá með rófubein. Því hraðar sem þyngdin fer af, því hraðar kemur hún til baka. Hratt þyngdartap hefur yfirleitt í för með sér vöðvarýrnun sem lækkar grunnbrennslu. Lækkaður efnaskiptahraði þýðir að kílóin koma oft jafn hratt til baka og taka yfirleitt nýja vini með sér.“

Lögmál Röggu nagla

„Til að upplifa árangursríkt varanlega búsetu í heilsulífinu er mun vænlegra að tileinka sér bara nokkur lögmál:

Rífðu í járnið til að dúndra upp grunnbrennslunni. Eftir járnrífingar er grunnbrennslan eins og kjarnorkuofn í 24-72 tíma að nýta eld og brennistein í að verða sterkari og skrokkurinn á yfirsnúningi í prótínmyndun í vöðvum að skúra út mjólkursýru og úrgangsefni eftir átökin.

Prófaðu að henda inn kreatíni til að dúndra styrknum upp.

Þú getur ekki hangið á horriminni allt árið um kring. Taktu fitutapsfrí í nokkrar vikur. jafnvel nokkra mánuði til að endurstilla grunnbrennsluna. Bættu smám saman við snæðinginn í oggulitlum hænuskrefum, einn dag í einu, eina viku í einu. Gúllaðu aðeins fleiri kartöflur í kvöldmatnum. Smurðu aðeins þykkara hnetusmjöri á hrökkbrauðið. Dúndraðu aðeins stærri kjúklingabringu á diskinn.

Nýttu hitaeiningarnar í viðhaldsfasanum til að byggja upp vöðva. Vöðvar eru mjög virkur vefur og kosta mikla orku að halda þeim utan á beinunum. Rétt eins og Friðþjófur frændi í fermingarveislu sem étur gestgjafana út á gaddinn með átta ferðum á veisluborðið, þá tæta vöðvar upp hitaeiningarnar sem koma inn.

Því meiri vöðvamassi, því meiri hitaeiningabrennsla þegar þú situr og glápir á Netflix. Prófaðu jafnvel að dúndra inn hreinu kreatíni til að kreista út nokkrar auka endurtekningar.

Mataræðið þitt þarf ekki að heita eitthvað, koma úr metsöluskræðu, eða trenda á TIKTOK til að virka. Þú þarft ekki að hanga á hungurriminni til hádegis og hætta að borða eftir klukkan átta á kvöldin. Þú getur líka bara borðað minni skammta, passað uppá prótín í hverri máltíð, og dúndra upp grænmetinu

Fitutap er aldrei línulegt ferli, það er eins og íslensk veðrátta með hæðum og lægðum. Rigning og rok, sól og logn. Stundum er sama veðrið í marga daga, en svo kemur allt í einu stormur með appelsínugulri viðvörun. Sama gildir um fitutap. Stundum fer vigtin upp og svo aftur niður. Eða ekkert haggast i marga daga eða vikur, svo allt í einu dúndrast allt niður.

Vigtin ein og sér er afar lélegur mælikvarði á árangur. Því það eru góðar líkur á að útlitið sem þú sækist eftir feli í sér meiri vöðvamassa sem það þýðir hærri líkamsþyngd.

Notaðu frekar málband, föt, spegillinn, og hvernig þér líður í skrokknum.

Mataræðið virkaði ekki ef þú gafst upp eftir nokkrar vikur. Jafnvel þó þú hafir náð einhverjum árangri á þeim tíma. Flest allir kúrar fela í sér hitaeiningaþurrð sem valda fitutapi. En ef þú ert að sjúga klaka og sleikja spínat, í sult og seyru urlandi óhamingjusamur í skorthugsun var þetta ekki nálgun sem virkaði fyrir þig. Hafðu það í huga næst þegar þú ætlar að dusta rykið af gömlu matarplani. Það má líka bara borða minna, dúndra inn meira prótíni og bæta í græmmóið.

En slík hægfara og skynsöm nálgun selur engar skræður því það er oft ekki nógu harðkjarna til að pósta um á Gramminu.“

Fylgstu með Röggu nagla á Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024