Tilkynnt hefur verið að rokkkóngurinn sjálfur, Elvis Presley, troði upp í nokkrum borgum á þessu ári. Þetta verða fyrstu tónleikar hans síðan árið 1977.
Búið er að tilkynna tónleika í Lundúnum, Tókíó, Berlín og vitaskuld Las Vegas á þessu ári. En hin síðastnefnda borg er sú sem hann hefur komið fram í hvað oftast.
Sumir kynnu að spyrja sig hvort það skipti ekki máli að Presley hafi verið dauður í 46 ár. En svo er ekki því að með nýrri tækni gervigreindar og heilmynda er hægt að lífga kónginn við.
Tónleikaferðalagið ber heitið „Elvis Evolution“ og þar mun hann taka öll sín þekktustu lög af ferlinum. Notaðar voru ljósmyndir og myndskeið til þess að endurskapa Presley. Verkefnið er unnið í samstarfi við bú Presley fjölskyldunnar, sem Riley Keogh barnabarn Elvis stýrir.
„Elvis er enn þá súperstjarna á heimsvísu og fólk út um allan heim er búið að fá nóg af því að sitja heima og njóta skemmtunarinnar, það vill vera hluti af henni,“ sagði Andrew McGuinness, framkvæmdastjóri Layered Reality sem skóp Elvis í samtali við breska blaðið The Guardian.
Þó að Elvis hafi haft hægt um sig síðan hann dó árið 1977 hefur hann þó ekki alveg setið auðum höndum. Margir muna eftir því þegar hann kom fram árið 2007 með kanadísku söngkonunni Celine Dion í þættinum American Idol og fluttu saman hið goðsagnakennda baráttulag „If I Can Dream.“