fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Hrefna vildi gera góðverk og hrakti óvart eina vin mannsins burt – „Það brotnaði eitthvað í mér þarna“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 2. janúar 2024 17:30

Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrefna Bachmann er ævintýrakona í orðsins fyllstu merkingu. Hún og maðurinn hennar, Ólafur Vilhjálmsson, hafa búið og starfað í fleiri löndum en flestir landsmenn hafa heimsótt og ekki bara það heldur eru heimsálfurnar sem þau hafa unnið í að minnsta kosti fimm: Evrópa, Norður- Ameríka, Suður- Ameríka, Asía og Afríka. Þau sóttu nám til Bandaríkjanna bæði í Florída og seinna í Arizona. Í Flórída námu þau flugrekstrarfræði og meistaranám þeirra tengjast rekstri, stjórnun og markaðsmálum. Þannig hafa störf þeirra verið í Bandaríkjunum, Argentínu, Írlandi, Dóminíska Lýðveldinu, Úganda, Georgíu og auðvitað á Íslandi.

Hrefna er gestur Einars Bárðarsonar í jóla- og áramótaþættinum af Einmitt þar sem þau ræða ævintýrin sem hafa fylgt því að vinna og ferðast um öll þessi svæði. En rauði þráðurinn í samtalinu eru verkefnin í Úganda sem Hrefna hefur leitt áfram með fjölskyldu sinni og vinum. Hrefna segir frá því að þegar hún vann hjá Íslandsbanka í kringum 2012 hafi þau hjónin kynnst manni sem átti ættir að rekja til lítils þorps í Úganda. En saman höfðu þau verið að vinna að frumkvöðlaverkefnum í jarðvarma. 

„Ég kynntist fyrir tilviljun mjög áhugaverðum manni sem var doktor og var að vinna í jarðvarma og átti ættir að rekja í lítið þorp í Afríku. Hann sagðist vera elstur 15 systkyna og lýsingar hans á aðstæðum þar voru ævintýralegar. Hann sagði okkur frá því að hann væri að hefja starf í heimabænum sínum við að byggja upp skóla, heilsugæslu og fleiri innviði þar sem aðstæður eru mjög frumstæðar,” segir Hrefna þegar hún rifjar upp dögun þessa verkefnis. “Ég varð alveg heilluð af sögu þessa manns og ég fylltist áhuga á að leggja eitthvað til málanna.

„Næst þegar þú ferð þá kem ég með“

Hrefna heldur áfram “Í einhverri rælni sagði ég við hann að næst þegar hann færi að heimsækja þorpið ætti hann að taka mig með. Svo löngu seinna kom tölvupóstur frá honum rétt um það bil sem ég var búin að steingleyma þessu þar sem hann segir að tíminn sé kominn og við séum velkomin að koma með.” Hrefna segir að hún hafði verið hálf tvístígandi en síðan slegið til. Fyrir ferðina söfnuðu þau hjónin peningum, fatnaði og ýmiskonar búnaði og komu færandi hendi í þessa fyrstu heimsókn. “Samstarfsfólkið mitt hjá bankanum lagði mikið til og fleiri í kringum okkur líka.” Í fyrstu ferðinni þeirra voru þau fjölskyldan saman; Hrefna, Óli maðurinn hennar og dætur þeirra tvær. Þrátt fyrir að líf og störf þeirra til þessa dags hafi haft mikinn ævintýrablæ þá var þetta nokkuð utan þeirra þægindaramma.

Eftir fyrstu ferðina þeirra liðu svo fjögur ár og þá voru þau hjónin komin aftur til Úganda og nú með hóp vina og fjölskyldur þeirra. Þorvaldur Gissurarson verktaki hafði fyllt allar sínar ferðatöskur af verkfærum til að láta verkin tala og þá náði hópurinn verulegum árangri. Síðan liðu önnur fjögur ár og þá var Hrefna komin enn eina ferðina og þannig hefur hún farið nokkrar ferðir síðasta áratug og í samvinnu við vini og vandamenn lagt þung lóð á vogaskálar innviða þessa fimm þúsund manna þorps. Þannig hafa þau tekið þátt í að byggja upp skóla, fyrst fyrir einn bekk og síðan bættust fleiri við. Þá hafa þau tekið þátt í að byggja heilsugæslu og hús og gert þau starfshæf með tækjum, húsögnum og öðru sem til þarf. 

Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend

Bjargað fleiri en einu mannslífi

Í einni ferðinni fyrir um sex árum síðan fannst lítið stúlkubarn við eina götuna sem vart var hugað líf. Hún var flutt á heilsugæsluna með hraði og þar tókst að bjarga henni en foreldrar hennar fundust ekki. Þá kom til skjalanna kona sem var kennari við skólann sem þau höfðu byggt sem var þá þegar búin að taka að sér fimm börn sem hún átti ekki sjálf. Þessi kona hafði þannig tekið að sér fimm munaðarlaus börn og var þarna að taka inn það sjötta. Samferðafólk Hrefnu í þeirri ferð frá Íslandi ákváðu þar á staðnum að byggja lítið hús fyrir þessa konu þannig að hún gæti alið þessi börn upp í húsi en ekki í kofa. “Núna í síðustu ferðinni minni fór ég og heimsótti þessa konu og börnin. Litla stúlkan sem hafði fundist á götunni var orðin sex ára og í þessari ferð útveguðum við dýnur í húsið fyrir þær. Þessi kona er ennþá að kenna við Sunrise skólann,” segir Hrefna.

Kennarinn sem tekið hefur að sér sex munaðarlaus börn
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend

Gaf allt í síðustu ferð og fór berfætt heim

Fyrsta ferð Hrefnu eftir COVID var henni erfið. Í COVID mátti ekki reka heimavistina og skólann fyrir krakkana. Þá hafði stór hópur mjög ungra stúlkna í þorpinu orðið óléttar og í mörgum tilfellum orðið óléttar eftir einhvern nákominn eða jafnvel náskylda karlmenn. “Það tók mjög mikið á að horfa upp á þetta og mér fannst við hafa farið mörg skref aftur á bak,” segir Hrefna sem segist þó hafa verið mjög vel undirbúin andlega fyrir þá ferð. En stúlkurnar ungu sem verða óléttar verða líka fyrir útskúfun í fjölskyldunum sínum og vandinn er margþættur. “Í þessari ferð varð ég mjög meir og gaf nánast allt sem ég var með á mér. Síðasta daginn gaf ég meira að segja meira að segja skóna mína og fór berfætt heim.”

109 ára karlmaður og bjó einn með rottu 

Í síðustu ferðinni þar sem þau fóru um svæðið að færa fólki bjargir og lyf heimsóttu þau 109 ára gamlan mann sem var einn eftir af sínu fólki. Hafði lifað af konuna sína og börnin og bjó einn í kofa sem varla gat talist íbúðarhæfur. Samstarfsfólki Hrefnu hafði tekist að bjarga fæti þessa manns eftir að drep hafði komist í hann og þau höfðu eftirlit með framgangi þeirrar aðgerðar. Hrefna fann mikið til með manninum og langaði að gera eitthvað fyrir hann síðustu dagana, vikurnar eða það sem hann ætti eftir bærilegri. Hún skildi eftir mat og alls konar hluti hjá honum en daginn eftir fannst henni að hún þyrfti að gera betur. Þá fór hún og keypti dýnu handa manninum og teppi.

109 ára gamli maðurinn
Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend

„Það brotnaði eitthvað í mér þarna“

Þegar Hrefna kom svo daginn eftir með samstarfsfólki sínu með allt þetta varð gamli maðurinn, sem var daufblindur, mjög órólegur. Þegar gamli spýtubeddinn sem maðurinn hafði sofið á var fjarlægður kom í ljós rotta sem sem hvarf hratt við hamaganginn. Þá reiddist gamli maðurinn og öskraði á Hrefnu sem smátt og smátt áttaði sig á því að rottan var í raun eini félagskapur gamla mannsins og þarna höfðu þau í raun hrætt eina vin mannsins á braut. Við nánari skoðun kom svo í ljós að fingur og tær gamla mannsins báru þess merki að þessi litli vinur hans hefði verið að narta í útlimi hans og væntanlega af einhvers konar væntumþykju sem erfitt er fyrir vestrænt fólk að skilja. “Það brotnaði eitthvað í mér þarna, því eina sem ég vil er að vera góð við alla.”

“Tvö skref áfram og eitt aftur á bak”

„Ég var miður mín yfir þessu. Þarna hafði ég ekki hlustað á ráðleggingar þeirra sem voru með og ég ákveðið að hjálpa þessum manni frekar en einhverjum öðrum og maður fer inn í aðstæður sem eru manni bara nánast óskiljanlegar.

Margir í kringum mig spyrja mig af hverju ég sé að hjálpa þessu fólki en ekki fólki hér heima eða einhversstaðar annarsstaðar.  Það eru svo sem alveg réttmættar vangaveltur en ég veit hvað við erum að gera þarna og það þarf víða að hjálpa. En þegar maður horfir yfir það hvað ein lítil fjölskylda með marga góða vini og góðar tengingar getur gert þá er ég glöð í hjartanu.”

Mynd: Aðsend
Þessi þrjú starfa með Hrefnu í Sunrise skólaverkefninu
Mynd: Aðsend

“Mission impossible“

Þegar Einar fer yfir stærð vandans og spyr Hrefnu út í hvernig sú upplifun sé segir Hrefna að þetta sé nánast “Mission Impossible.” “En ef allir gera eitthvað, þá gerir það gagn og ég held að allir þessir vinir mínir sem hafa lagt okkur lið átti sig ekki á því hvað þetta er í raun ótrúlega mikið þó þetta sé ekki mikil fórn hjá hverjum og einum. Íslendingar eru ótrúlega góðir í hvers kyns söfnunum,” segir Hrefna. “En það er erfitt að skilja við og maður verður hálf “hooked” en við förum strax aftur í aðra ferð og það vilja fleiri koma með okkur. En þegar ég horfi til baka á þessi tíu ár þá er ég að hitta börn í síðustu ferð sem leggja á sig mikið ferðalag bara til að segja mér að það sem við höfum gert til að styðja þau, eins og ein kona sem segir að aðstoðin hafi gert henni kleift að verða kennari og nú sé hún að hjálpa öðrum.” Hrefna bætir síðan við að í þessu einstaka tilfelli sé um að ræða barn sem hún muni eiginlega varla eftir að hafa lagt lið en þetta gefi auðvitað ótrúlega mikið.

Hrefna segir að skólinn sé að mestu orðinn sjálfbær í dag en heilsugæslan ekki en staðan sé þannig að ef það er ekki heilsugæsla þá er ekki skóli. Þannig er vistkerfi þorpsins ansi viðkvæmt. En íbúarnir hjálpa til með að gera þorpið sjálfbært með því að framleiða gjafavörur sem þau föndra og smíða.

Þessa ótrúlegu frásögn Hrefnu af starfi fjölskyldunnar og vina þeirra og vandamanna má heyra í fullri lengd í hlaðvarpsþætti Einars Bárðarsonar Einmitt á næstu hlaðvarpsveitu. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur