Fjárfestarnir Grímur Garðarsson og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir giftu sig í gær. Athöfnin fór fram á spænsku eyjunni Mallorca.
Morgunblaðið greinir frá því að athöfnin hafi farð fram á herragarðinum La Fortaleza, sem sé einn ævintýralegasti hluti eyjarinnar.
Grímur, sem er einn af eigendum fataverslunarinnar Bestseller á Íslandi, og Svanhildur Nanna hafa verið par síðan árið 2020. En í júní í fyrra tóku þau af skarið og trúlofuðu sig í Frakklandi. Bæði eiga þau tvö börn úr fyrri hjónaböndum.
Í brúðkaupinu var Svanhildur Nanna klædd stórum og ljósum prinsessukjól. Kjól sem er marglaga og mikill um sig en toppurinn minnir á korsilett frá miðöldum. Grímur var klæddur ljósum jakka og í svörtum buxum við.
Á meðal gesta voru Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla, -iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Magnús Scheving stofnandi Latabæjar og Hrefna Björk Sverrisdóttir veitingahúseigandi.
Í sumar var greint frá því að Grímur og Svanhildur Nanna hefðu fest kaup á rúmlega 500 fermetra einbýlishúsi við Túngötu í Reykjavík. Húsið keyptu þau til helminga í gegnum eignarhaldsfélög sín, Þingholt og Sumarveg en þau eiga að fá húsið afhent í næsta mánuði.