Mannveran er forvitin og á það til að leita skýringa á því sem hún verður vitni að og á heiminum í kringum sig. Við eigum það líka til að vera tortryggin en á sama tíma finnast fátt betra en að læra eitthvað nýtt. Mögulega er það þess vegna sem sumir vita fátt betra en góða samsæriskenningu, enda gjarnan gífurleg spenna þar á ferðinni – undirförul yfirvöld sem vilja ekkert frekar en að halda okkur frá sannleikanum, krassandi „sannleikur“ sem aðeins þeir sem sjá í gegnum blekkingavefinn hafa áttað sig á, möguleikinn á að eignast nýja félaga sem deila skoðunum þínum, og svo þessi gífurlega spenna sem maður getur upplifað þegar maður uppgötvar eitthvað nýtt. Eins og Robert Langdon úr Da Vinci lyklinum höfum við ráðið í vísbendingarnar sem finna má út um allt og uppgötvað grafið leyndarmál.
En stundum er líka bara gaman að lesa um hvaða gölnu kenningar gagna þarna úti og hafa gaman að flókinni röksemdarfærslunni sem samsæriskenningasmiðir hafa lagt fram, þar sem staðreyndir eru gjarnar slitnar úr samhengi til að henta málflutningnum. Það skiptir svo sem ekki máli hvað dregur okkur að samsæriskenningunum, svo lengi sem við nálgumst þær með gagnrýnni hugsun og heilbrigðum skammti af tortryggni. Sannleikurinn er þarna úti. Spurningin er bara hver sá sannleikur er.
Til að svala eftirspurninni eftir vel matreiddum samsæriskenningum hafa þrír félagar og grúskarar tekið að sér það óeigingjarna hlutverk að miðla þessum kenningum til okkar. Þetta eru þeir Ómar Þór, Guðjón Heiðar og Haukur Ísbjörn sem nýlega fóru af stað með hlaðvarpið Álhattinn, en enginn getur kallað sig aðdáanda samsæriskenninga nema eiga einn slíkan hatt.
Til gamans má geta að álhattur í dægurmenningu er í raun orðið tæplega aldargamalt fyrirbæri. Almennt er talið að heiðurinn að álhattinum eigi rithöfundurinn Julian Huxley sem árið 1927 birti smásöguna The Tissue-Culture King, þar sem söguhetjan notar álhatt til að koma í veg fyrir að illmennið gæti notað ofurkraft sitt til að ná stjórn á huga hans. Í gegnum árin hefur álhatturinn svo orðið eins konar einkennismerki fyrir ofsóknarbrjálæði og samsæriskenningar.
En í hlaðvarpinu Álhattinum rannsaka félagarnir og rökræða samsæriskenningar, á léttu nótunum. Þættirnir koma út á tveggja vikna fresti og að þessu sinni tóku þeir fyrir klassíska og útbreidda kenningu, sem hefur nokkuð verið í umræðunni undanfarið. Fullyrðingin sem tekin var til skoðunar var eftirfarandi:
„Geimverur hafa heimsótti jörðina og yfirvöld hylma yfir með tilvist þeirra.“
Það er skemmst að minnast þess að fyrir um viku hélt Bandaríkjaþing fund þar sem uppljóstrarar, aðilar sem hafa verið farsælir í starfi og getið sér gott orð innan hersins, stigu fram og greindu frá því að það sé vel þekkt staðreynd innan flughersins að mögulegt sé að hitta fyrir fljúgandi furðuhluti í háloftunum, og það sem meira er, þessir furðuhlutir hafi brotlent á jörðinni og séu flökin nú í umsjón Bandaríkjanna en þeirri staðreynd jafnvel haldið frá kjörnum fulltrúum.
Álhatts-félagar segja að viðbrögðin við þessum tíðindum hafi ekki verið eins dramatísk og maður hefði haldið. Jafnvel hafi því verið haldið fram að þarna hafi yfirvöld reynt að dreifa athygli almennings frá öðrum mikilvægari hlutum sem séu að reynast pólitíkinni óþægilegir. Aðrir hins vegar benda á þetta séu harla nýjar upplýsingar, enda hafi þeir sem trúa samsærum vitað þetta áratugum saman. Hver svo sem afstaða manna er til fljúgandi furðuhluta þá hefur þetta umræðuefni lengi vakið spurningar og vakið forvitni.
„Sögur af fljúgandi furðuhlutum og brottnámi fólks með tilheyrandi geimverugrúski byrjuðu fyrst að heyrast að einhverju ráði á sjötta áratug síðustu aldar, en yfirvöld hafa alltaf þvertekið fyrir að þessi fyrirbæri séu raunveruleg. Ótrúlegar byggingar og mannvirki fyrri tíma hafa einnig vakið spurningar margra. Hvernig byggðum við píramídana með tækninni sem var í boði á þeim tíma? Það sama með Stonehenge og La Alhambra kastalann á Spáni? Svo má minnast á Machu Pichyu og áfram mætti lengi telja. Hollywood-kvikmyndir hafa auðvitað margar gert geimverur að söguhetjum og geiminn að leiksviði, og hefur það ekkert gert til að kæfa forvitni okkar um þessi mál. Eru allar sögurnar af kynnum mannfólks við geimverur uppspuni? Er þetta ímyndunarveiki? Sálfræðihernaður yfirvalda?“
@alhatturinn Álhatturinn – Hafa geimverur heimsótt jörðina? #podcast #aliens #ufo #hlaðvarp #geimverur #Roswell ♬ original sound – Álhatturinn
Eins og sjá má á brotinu hér að ofan geta lesendur kannað sjálfir hversu mörg tilfelli hafa verið skráð um fólk sem telur sig hafa séð fljúgandi furðuhlut, aðeins þarf að bera þetta undir gervigreindina ChatGPT til að átta sig á umfanginu og til að sjá það svart á hvítu að í þó nokkrum tilfellum eru vitnin fleiri en eitt. Við Íslendingar eigum meira að segja okkar eigin tilfelli!
Sjá einnig:
Magnús Skarphéðinsson sá geimskip við Snæfellsjökul:„Fyrst gerði ég ráð fyrir því að þetta væru ofsjónir“
Fjöldi Íslendinga sem segist hafa séð geimverur:„Á örfáum sekúndum fór það frá Esju og yfir Grafarholtið“
Geimverur boðuðu komu sína á Snæfellsjökul – „Útsendarar djöfulsins“
Álhatts-félagar tóku í fyrri þætti fyrir samsæriskenningu um að söngkonan Avril Lavinge væri í raun dáin og tvífari kominn í hennar stað. Eins tóku þeir fyrir einu vinsælustu samsæriskenninguna, um að opinbera skýringin á morði John F. Kennedy, Bandaríkjaforseta, væri lygi. Þeir félagar hafa fengið hlustendur í lið með sér með því að leggja fyrir kannanir í sérstökum Facebook-hóp fyrir hlustendur. Annars vegar svara hlustendur því til hversu sannfærandi þeim finnst samsæriskenningin áður en þátturinn fer í loftið, og svo hversu sannfærandi hún er eftir umfjöllun Álhattsins. Hvað söngkonuna varðaði þá væru fáir hlustendur tilbúnir að samþykkja að hún væri í raun löngu látin, enda gáfu þeir kenningunni 1,7 af 10. En eftir þáttinn um JFK gáfu hlustendur einkunnina 9,8.
Enn á eftir að koma á daginn hvað hlustendum þykir um mögulega jarðvist geimvera, en áður en þátturinn fór í loftið var meðaltalið 6,97 en það vakti athygli Álhattsins að hlustendur virtust annað hvort mjög sannfærðir um að geimverur hafi sótt jörðina heim, eða mjög skeptískir. Greinilega er hér á ferðinni kenning sem skiptir hópnum í fylkingar og verður áhugavert að sjá hvor fylkingin verður ofan á.
Málsmetandi aðili þáttarins að þessu sinni er Rottweiler-hundurinn Bent, einnig þekktur sem Ágúst Bent Sigbertsson, og hann slóst í lið með Álhattinum til að velta því upp hvort geimverum væri leynt frá almenningi jarðar. Hlustendur eiga von á góðu þar sem hér er gúrmet samsæriskenning á ferðinni, kenning sem seint verða gerð skil með tæmandi hætti. Það er því ekki furða að þátturinn er sá lengsti til þessa, enda um nóg að spjalla.
“Hallið ykkur aftur, hellið upp á kaffi, nú eða kakó og látið hugann reika til fjarlægra hnatta á meðan þið hlustið á okkur spekúlera um þetta spennandi efni.” segja strákarnir og ítreka í leiðinni mikilvægi þess að setja upp álhattinn sinn!