Leikkonan og raunveruleikastjarnan Tori Spelling er ekki að upplifa sitt besta sumar. Hún er að skilja við eiginmann sinn til fjölda ára, þurfti að flytja yfir í hjólhýsi með börnin sín fimm eftir að mygla kom upp á heimilinu og er sögð í fjárhagsvandræðum. Nýlega þurfti hún að leggjast inn á sjúkrahús sökum ótilgreinds heilsubrests sem margir telja að rekja megi til myglunnar.
Nú mun sú staða vera komin upp að eiginmaður hennar, Dean McDermott, sé kominn með nóg af fréttum um hrakfarir Tori, en hann komi þar ekki vel út. Fjölmiðlar hafa ítarlega rakið að Dean sé ekki sjá fjölskyldu sinni framfæri, hann hafi skilið þau eftir í súpunni og ekki gripið til aðgerða þegar börnin hans neyddust til að dvelja í hjólhýsi.
Heimildarmaður Daily Mail segir að Dean sé kominn með nóg og kunni illa að meta þá mynd sem eiginkona hans hefur málað af honum og þeirra einkamálum.
„Dean er að reyna að róa í gegnum þetta allt og vera til staðar fyrir hana og börnin á þessum erfiðu tímum.“
Dean ætli sér þó ekki að koma nálægt þeirri leiksýningu sem kona hans sé að setja á svið. Það hafi verið hans ætlun að halda málefnum þeirra hjóna utan sviðsljóssins, en Tori sé á öðru máli og finnist mikilvægt að deila með aðdáendum sínum hvernig stöðu hún sé í.
„Þau eru ekki á sama máli og Dean virðist sem svo að hún kæri sig ekki um neina aðstoð, sem er svekkjandi.“
Heimildarmaðurinn segir að mælirinn sé við það að fyllast hjá Dean, jafnvel þó hann finni til með sinni fyrrverandi. Hann leyfi sér þó að setja spurningarmerki við hvernig hún sé að takast á við aðstæður.
„Dean hefur alltaf lagt áherslu á að vera góður faðir. Hann elskar börnin sín svo mikið og vill það allra besta fyrir þau og mun berjast um á hæl og hnakka fyrir þeirra hagsmunum og vildi gera það sama hvað hjónaband hans og Tori varðaði, en sambúðin við Tori var hins vegar orðin kvöð.“
Tori hafi ákveðið að hleypa aðdáendum inn í þeirra einkamál til að fá samúð, en Dean hefði fremur kosið að þeir leystu þetta sín á milli.
„Dean hatar það því hann vill ekki að fólk sjái hann sem vonda kallinn.“