Í gegnum árin hefur hún þurft að kveða niður þrálátar kjaftasögur um að hún hafi verið með fyllingu í vörunum en þar til fyrir stuttu voru varir hennar náttúrulegar.
Um leið og hún stækkaði þær lét hún fylgjendahóp sinn á Instagram vita, enda hefur hún alla tíð verið opin og hreinskilin um hvaða fegrunaraðgerðir hún hefur gengist undir.
Sjá einnig: Saga B ánægð með nýju brjóstin
DV sló á þráðinn til Sögu B, sem er stödd í Dúbaí, og hún sagðist vera hæstánægð með nýju varirnar.
„Fyrir tveimur árum lenti ég í mjög slæmu bílslysi og beit í gegnum neðri vörina, að innanverðu fyrir miðju og út rétt fyrir neðan. Ég missti tilfinninguna að miklu leyti í húðinni og neðri vörin var alltaf smá þurr og krumpuð. Svo fannst mér hún alltaf vera eins og rúsína og vörin var farin að fara í taugarnar á mér, þó tilfinningin væri að koma smám saman til baka,“ segir hún.
Hún ákvað að láta hressa upp á neðri vörina með fylliefni og lét sprauta smá í efri líka, samtals um 0,5 ml af fylliefni.
Varirnar eru alltaf stærstar strax eftir fyllingu vegna bólgu, sem hjaðnar svo. Viku eftir höfðu varirnar minnkað og langaði Sögu í þær eins og þær voru strax eftir sprautuna.
Hún ákvað þá að fara aftur og lét sprauta auka millilíter og er þá með samtals 1,5 ml í vörunum núna.
„Núna er ég mjög sátt, þær eru ekkert óeðlilega stórar. Mér finnst andlitið mitt samsvara sér betur. Ég er mjög ánægð,“ segir hún.
Saga B er stödd í Dúbaí, uppáhalds borginni sinni, að skoða atvinnumöguleika fyrir framtíðina.
„Ég hef fengið alls konar atvinnutilboð hér áður og er að athuga hvort eitthvað myndi henta fyrir framtíðina,“ segir hún.
Áhrifavaldurinn hefur verið að leyfa fólki að fylgjast með fríinu á Instagram, smelltu hér til að skoða síðuna hennar.